sunnudagur, 24. febrúar 2008

Já, ég verð bara að viðurkenna að ég er Material Girl, og bara nokk ánægð með það. Fallegir hlutir láta mér líða vel. Sérstaklega fallegir hlutir sem ég á.


Ég geri mér grein fyrir að öllu megi ofgera en ég bara varð að sýna mömmu púðana. Þeir gera mig svo hamingjusama. Er ekki gott að vera svona einfaldur? Og svo er Láki líka svo sætur. Og svo má heldur ekki gleyma bláu skaftpottunum sem auðga líf mitt. Ohh, hlutir gera mig svo ánægða.


laugardagur, 23. febrúar 2008

Elsku mamma, pabbi, amma, afar, frænkur og frændur. Okkur Lúkasi langar svo mikið í harðfisk. Getur einhver sent okkur einn pakka?

föstudagur, 22. febrúar 2008



Jæja vinir nær og fjær, sófinn sem Láki sýnir hér svo fallega er fully functional svefnsófi og hýsir tvær samrýmdar mannverur á þægilegasta máta. Allir velkomnir. Og ef þið haldið í ykkur til 12. apríl get ég einnig boðið gestum upp á flúnku nýtt baðherbergi með power shower. Ef þetta er ekki nóg þá er á heimilinu tvö digitial sjónvörp sem bjóða upp á 600 sjónvarpstöðvar (ekkert sem er þess virði að horfa á en samt!), einstaklega góðan kokk, skemmtilegan breta, frábæra aðstöðu til að gera einstök kaup á fatnaði og heimilivöru, og gullfallegt umhverfi ásamt nánd við heimsborgir á við fáar aðrar. Og ef einhver heldur að það sé gaman að fara á fótboltaleik til að sjá Liverpúl eða Manjúnæted þá eiga þeir hinir sömu eftir að kynnast alvöru spennu og reyna að halda með Wrexham FC! Croeso i Cymru.

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

miðvikudagur, 20. febrúar 2008



Breskar vinkonur mínar eru öðruvísi en þær íslensku. Ég fékk þennan sendan á tölvupósti með þeim óskum að hann myndi lífga upp á daginn minn. Einhvernvegin þá gerir hann ósköp lítið fyrir mig, og ég er sannfærð um að íslenskar vinkonur mínar séu sammála mér. ekki það að hann sé ekki voðalega sætur, mig vantar bara eitthvað meira en myndina eina. Hér ríkir nefnilega svona "ladette" kúltúr. Breskar konur hafa tekið jafnréttisbaráttunni þannig að þær hafi rétt til að vera "ódömulegar", þ.e. drekka sig blindfullar, drepast og æla, stara á hálfbera karlmenn, stunda skyndikynni, horfa á fótbolta og slást. Sjálfri finnst mér þetta vera misskilningur og hafa lítið með jafnrétti að gera. Finnst þetta eiginlega meira pirrandi, enda verður það sem er mikilvægt algerlega undir. Sorglegt eiginlega.

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Árum saman hef ég sungið "sprekkin ðe vei kem meik van dann" í vissum hluta af laginu "Girls just wanna have fun" með Cindy Lauper. Eitt svona sem hefur lafið þannig frá því að ég fyrst heyrði lagið og gat ekki greint hvað hún sagði. vegna naumrar enskukunnáttu. Ég var að söngla með í morgun yfir uppvaskinu: "that´s all they really waaaaant, is some fuuuuuun, sprekkin ðe vei kem meik van dann, oh girls they wanna have fun, ohoh girls just wanna have fun" þegar bretinn sem ég er gift kemur inn í eldhús og biður mig vinsamlegast um að endurtaka. Sprekkin ðe vei? Nei, when the working day is done hljómar setningin. Merkilegt alveg hreint. Ég heyri það greinilega núna. Held að ég haldi mig samt við að syngja mína útgáfu...

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Tek allt tilbaka, vil helst fá sjö daga í vinnu því það er erfiðara að vera heima. Hvílík martröð sem sonur hans Dave er. Ég er kúguppgefin og get ei meir. Ég bara meika ekki uppalendahlutverkið, það er of erfitt, ég skemmi hann bara og geri allt vitlaust. Hjálp!
Aftur erum við Láki heima, þetta er bara ljómandi næs, ég gæti alveg hugsað mér þriggja daga vinnuviku. Ég var vakin klukkan hálfsjö í morgun með þeim upplýsingum að "it´s mooooorrniiiiing mummy, let´s go to róló!" Það var aðeins of snemmt að mínu mati en ágætis tími til að hefja hreingerningar. Á milli þess að leika í sjóræningjaleik (fela gull/súkkulaðipeninga og leita að þeim) skylmast, skjóta glerkúlum og púsla er ég búin að skipta á rúmum, henda meira dóti og ryksuga smávegis. Við erum enn ekki farin á róló.

mánudagur, 11. febrúar 2008


Frábært veður í dag, við mæðginin fórum í góðan göngutúr um Rhosllannerchrugog og sáum nokkra íkorna sem er alltaf gaman. Við erum í fríi, svona eiginlega, Lúkas er í miðvetrarfríi og ég er heima hjá honum í dag, á morgun og svo aftur á fimmtudag. Voða næs þriggja daga vinnuvika. Við ætlum í sund á morgun, ég held að það sé ár síðan við fórum síðast. Sjálf er ég ekki byrjuð aftur að synda eftir jólafrí, hjá mér eru enn jólin. Finn á mér að þetta fer að koma svona með hækkandi sól. I can feel it in me waters, svona eins og Eileen segir stundum.


Kieron bauð Lúkasi líka heim í dag. Ég fór svona með hálfum hug enda Kieron sá sem við héldum að væri að vera vondur við Lúkas í skólanum. Ekki var að sjá í dag, þeir voru voða glaðir að hittast, hlógu og pískruðu og skemmtu sér vel. Ég sagði við Ceri að ég væri hálfringluð og útskýrði fyrir henni að Lúkas kæmi stundum heim úr skólanum svo ofboðslega sorgmæddur og gréti sáran af því að hann ætti enga vini, og að Kieron og Josh væru að segja við hann ljóta hluti. Það hefur reyndar ekki gerst núna í tvær eða þrjár vikur en að ég væri samt með varann á mér. Hún baðst afsökunar en vildi meina að Kieron hefði verið ómögulegur í dáltinn tíma einmitt fyrir þremur vikum vegna vesens með pabba hans. Eftir því sem hún best vissi þá kemur Kieron heim úr skólanum og segir að Lúkas sé besti vinur hans ásamt Josh. Kennarinn hans Lúkasar kom af fjöllum líka þannig að vonandi var þetta bara stutt tímabil sem er nú yfirstaðið. Ef ekki þá erum við að fylgjast með og getum vonandi stýrt Lúkas í gegnum erfiðleika. Hann tekur greinilega öllu alvarlega og er viðkvæm sál.

sunnudagur, 10. febrúar 2008

Og svo það skemmtilegast í heimi, nýja baðherbergið í höfn. Fórum í dag í Mfi og keyptum sturtu, vask, klósett, handklæðaofn (hvað heitir það á íslensku?), skáp, flísar, niðurrif og uppsetningu. Píparinn kemur í næstu viku til að skoða dæmið og svo er bara fúll spíd ahed! Ég er nú reyndar með það á hreinu að það er ekki alveg svona einfalt fyrir okkur hér, eitthvað hlýtur að fara úrkseiðis, það er vanalega þannig, en þá er bara að vera róleg, anda í gegnum nefið og finna bestu lausnina. Svefnsófinn í stofuna verður afhendur eftir 21. feb og svo bókahillur í næsta mánuði. Er hægt að verðu öllu lukkulegri, ég bara spyr?

laugardagur, 9. febrúar 2008

Ég sæki um vinnur í gríð og erg en hef enn ekki uppskorið eins og sáð. Því miður, ég er alltaf að verða þreyttari á vinnunni sem ég er í, stend sjálfa mig að því að langa til að tilkynna veikindi þegar ég er fullfrísk. (Er reyndar með einhvern kverkaskít í dag en það er önnur saga.) Ég er búin að sníða ferilskrá og bréf fullkomlega að breskum smekki en samt gerist ekki neitt. Skil bara ekkert í þessu. Góðu fréttirnar hins vegar að ég er komin langt með ritgerðina, er ekki alveg jafn vitlaus og ég hélt í fyrstu.

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Jæja, kemur ekki bara í ljós að ég er svona ægilega vitlaus, ég get með engu móti skrifað fyrstu ritgerðina mína. Er búin að gera fína beinagrind og veit alveg hvað ég vil segja en bara get ekki skrifað það. Það er nú meira ástandið. Enda um merkilegri hluti að hugsa akkúrat núna: ætli maður sé bara ekki að fara að setja upp nýtt baðherbergi! Já, hér á bara að rífa allt út og byrja upp á nýtt. Ég var búin að gæla við að skipta um eldhús en þegar ég fór að hugsa málið þá er miklu meira áríðandi að laga baðherbergið. Ég er búin að láta teikna það upp, losna við helv.. baðið og fæ loksins almennilega sturtu og pláss við vaskinn til að mála og greiða sér. Lúxus. Ég get bara vart beðið.

sunnudagur, 3. febrúar 2008



Hér á þessu heimili er mikið bakað, sérstaklega eftir að ég eignaðist Kitchenaid. Fallegt tæki og ég fæ mikið útúr því að nota það. Ég nota hvert tækifæri til að skella í köku og átröskunin sem ég á við að stríða fær að njóta sín. Það er því nánast óheyrt að ég hafi löglegt leyfi til að baka og úða í í mig bakkelsi, en gleymi að gera það! Bolludagurinn á morgun og ég ekki búin að baka eina einustu bollu! Hvernig fór þetta eiginlega framhjá mér? Það er meira að segja hugsanlegt að dagurinn hefði farið algerlega framhjá mér ef ég hefði ekki verið að forvitnast um þorrablótið og mamma minntist á það að hún væri með bollur í ofninum. Ju minn eini. Sem betur fer er ég heima á morgun og get sett í eina uppskrift. Svo er Shrove Tuesday hér á þriðjudaginn, sem þýðir pönnukökur. Ég fæ ekki saltkjöt hér svo ég get allt eins fylgt breskum siðum. Öskudagur aftur á móti ekki neinn dagur hér þannig að Lúkas fer bara í sjóræningjabúninginn á næstu hrekkjavöku.