miðvikudagur, 23. mars 2011

Vorið kom núna í vikunni til Wales í allri sinni dýrð. Vor er árstíð sem er lítt eða ekki þekkt á Íslandi, en hér í Bretaveldi finnst fátt yndislegra. Þjóð sem er vön grámyglulegri þoku og rigningu að mestu leyti er fljót til að rífa sig úr um leið og sólin skín og í dag voru allir farnir að spóka sig um í sandölum og hvítum léreftsbuxum. Ég fór að sjálfsögðu á rölt um Chester í hádegishléinu mínu, enda vel komin tími á að ég fái smá ferskt loft. Ég hef þessa viku þurft að stunda líkamsrækt hér heima, mestmegnis pilates, en ég hef ekki treyst mér út í hlaup vegna þess sem ég er viss um að heiti á læknamáli brennandi lungu. Ég er alveg viss um að eitt af meginatriðum við gott hlaup sé hæfileikinn að anda. Reyndar þegar ég hugsa um það þá er það örugglega meginatriði í lífinu yfir höfuð að geta andað, en það er alveg sérlega hentugt þegar maður hleypur. Og andadráttur hefur verið frekar þvingaður núna undanfarna daga. Það var þessvegna unaðslegt að smella D&G (vintage) sólgleraugunum á nefið og rölta um miðbæinn í Chester í dag. Ég gat ekki látið það vera að kíkja í smá búðarráp líka. Hingað til hef ég látið það vera að fara inn í Zara, átti svo sem lítið erindi þangað inn enda fötin þar hönnuð með smávaxnar senjórítur í huga, ekki víkinga kellingar eins og mig. Það er nú svo komið að ég er á milli númera. 18 er allt samanbrotið og niðurpakkað og ónothæft. 16 er fínt svona nýþvegið og að mestu leiti en samt smá stórt. 14 er allt of lítið. Mér datt í hug að setja sjálfri mér nýtt markmið (sem passar líka vel inn í nýju fjárhagsóáranina) og það er að kaupa mér ekki eitt einasta nýtt plagg fyrr en ég passa í annaðhvort 14 eða eitthvað úr Zöru. Hvort heldur að kemur fyrst. Við rannsóknina sem ég fór svo í dag þangað inn kom í ljós að tæknilega er möguleiki að versla þar; ef flíkurnar væru til í L þá væri ég í góðum málum, en þar er bara til XS, S og M í öllum hillum. Svona sjálfsagt til að leggja frekari áherslu á "No fatties" stefnuna þeirra. Hluti af mér er sármóðgaður. Hluti af mér klæjar að komast í klúbbinn. Ég sá nebblega fullt af fallegum flíkum og er núna með "lúkk" í huga fyrir sjálfa mig í sumar. Í 14. Ótrúlegt en satt en ég held meira að segja að mér takist það. Með þessa ákvörðun í huga sveiflaði ég mér inn á Starbucks og fékk mér frappucino light með röri og rölti aftur á skrifstofuna. Labbaði framhjá byggingarsvæði þar sem verkamenn héngu í stillönsum og uppskar tvö úlfablístur, eitt "hey there!" og eitt "looking good baby!". Ef við skiljum öll feminista issjú eftir heima þá var ég hæstánægð með athyglina og sveiflaði mjöðmum enn meira á meðan ég labbaði framhjá. Þangað til mér datt í hug að það er örugglega í samningum hjá byggingaverkamönnum að þeir eru skyldir til að blístra á allar konur undir fimmtugu sem labba framhjá. Damn.

2 ummæli:

Heiða Njóla sagði...

Híhíhí snilldarfærsla :)

ragganagli sagði...

SNILLINGURINN MINN!! Farin að uppskera blístur frá vökulum augum verkamanna. Þú verður farin að versla í Zöru áður en þú veist af. Þú verður eins og Julia Roberts í Pretty Woman þegar þú labbar þarna inn spengileg og tætir S og M spjarirnar af hillunum :)