miðvikudagur, 25. febrúar 2004

Á mánudaginn héldum við Bolludag helgan eins og vera ber, ég bakaði vatnsdeigbollur og bæði Veilsverjar og Íslendingar gerðu þeim góð skil. Í gær var ekkert saltkjöt að fá en það vandamál leystist því hér í Veils er sprengidagur haldinn hátíðlegur með pönnukökum. Pancake-tuesday. Þrátt fyrir að vera með saltkjötsfráhvarfseinkenni fannst mér þetta fínt því við verðum jú að gera báðum löndum jafn hátt undir höfði. Ég bauð því einasta eina að baka handa honum pönnukökur og spurði hvort ég ætti að gera svona "ammrískar pönnukökur". Fínt segir hann og ég impróvísera því aðeins, nota vöffludeigsuppskrift til að baka lummur og skíri þær svo pönnukökur. Þetta borðar Dave með sykri og sítrónusafa (!) og bestu lyst. Þegar allar lummurnar voru horfnar segir hann:"Þetta var nú voða gott en í Veils eru pönnukökur reyndar örþunnar og upprúllaðar með sykri." Þetta sagði hann ekki fyrr en eftir á! 'Eg sagði að svoleiðis væru reyndar íslenskar pönnukökur en að ég hefði búið til ammrískar lummur vegna þess að ég ætti ekki íslenska pönnukökupönnu og að pönnukökur væri ekki hægt að elda á neinu öðru. Hann hélt því þá fram að mamma sín ætti ekki íslenska pönnukökupönnu en að henni hafi alltaf tekist að baka pönnukökur. Mig vantar því að fá senda pönnukökuuppskrift "pronto" svo ég geti athugað hvort pönnukökupönnunni sé ofaukið. Er verið að rústa hérna hluta af menningu þjóðar? Og mig sem dauðlangaði í pönnukökupönnu. Hver er sannleikurinn?

Engin ummæli: