fimmtudagur, 29. desember 2005

Vinna í dag, föstudag og laugardag og svo aftur komin í nokkurra daga frí. Þetta er ágætt, ekki eins fínt og þegar maður er kennari, en fínt engu að síður.

Ég er uppfull af "áramót enn einu sinni, hvar er lífið, hver er ég, hvert stefni ég?" hugsunum. Megrun og reykfrítt ár, allt handan við hornið og svo að finna út hvað ég ætla að gera í lífinu. Meistaranám? Reyna að finna betra starf?, flytja heim? Hveeeeiir veit.

Kemur barnið shgfioerowignpoappng

mánudagur, 12. desember 2005

Þá er Hulda komin og farin, stutt gaman en skemmtilegt. Við náðum góðu spjalli, ferð til Chester, all svakalegum veikindum, svaðalegri verlsunarferð og örlitlu roadtrippi. Gott að hafa þetta allt innifalið. Nótast skal þó niður að héðan í frá kemur enginn í heimsókn nema með uppstimplað heilsuvottorð frá Helga Lækni, þar sem vottast að heilbrigð sál búi í hraustum líkama sem geti tekist á við það mýrar- og malaríufen sem Veils er augljólega fyrir norpandi Íslendinga. Takk fyrir!

Verst eru þó fylgikvillarnir fyrir mig; smá uppvakning heimþrár. Mér finnst ekki gaman að fara á Stansted og fá ekki að fara heim í smá stund. En þa´er bara að rífa sig upp og hella sér í jólaundirbúning, hér flæðir allt í Ora grænum baunum og rauðkáli og ætti ekki að verða flókið að halda ein stykki íslensk jól, og svo bresk strax á eftir. Lukkan yfir mér enn einu sinni; tvö jól á ári!

Lúkas setti gúmmískó út í glugga áðan (er ekki annars réttur dagur?) og það verður gaman að sjá hvernig honum líst á Matchbox bílinn sem Stekkjastaur kom með. Núna er e´g reyndar hálf rugluð, ég get ekki reiknað þetta út, vantar Moggann, það er réttur dagur eða hvað?

Annars bý ég nú ekki í bæ sem er fullur af hinum eins sanna jólaanda, haldiði ekki að ódámarnir hafi ekki bara stolið grenikransinum af útidyrahurðinni minni! Og það yfir hábjartan daginn. Ég læt engan bilbug á mér finna, hengdi bara upp nýjan, en ég verð nú að viðurkenna að trú mín á mannkyninu hefur aðeins borið hnekki, hver er svona ljótur í sér? En það er kannski ekki við öðru að búast af þjóð sem horfir á mig í forundran er ég fer í jólakjól til þess eins að sitja heima hjá mér. Hver fer í fínan kjól án þess að fara út á djammið, spyrja þau mig og hafa aldrei heyrt aðra eins vitleysu að maður skapi hátíðleika með því að fara í sitt fínasta. Stelpurnar í vinnunni eru reyndar allar búnar að segja sínum mönnum frá jólakettinum í þeirri von að fá að kaupa sér nýjan galla. Ekki svo vitlaus þessi köttur!

Mamma sendi mér fallegasta jólapóstpoka sem ég hef nokkur tíman séð, en enn hef ég ekki fengið eitt einasta kort til að setja í hann. Ef fólk hefur í hyggju að pósta jólakveðjur á netinu þá tek ég algerlega fyrir svoleiðis tæknivæðingu, heimta hér með proper kort, og læt því heimilisfangið fylgja með svona í lokin.

The Jones´s
Plas Cerrig
45 Market Street
Rhosllannerchrugog
Wrexham
LL14 2LA
U.K.