fimmtudagur, 21. apríl 2005

Ég seldi svo svakaleg mörg gleraugu í síðustu viku að ég fékk tveggja tíma frí í verðlaun. Ég er því búin að vera að skrúbba kofann núna síðan um hálffjögur og held bara að það verði ekki hreinna en þetta hjá mér. Ef svo er þá er það bara Huldamma sem þyrfti þá að koma og benda mér á hornin sem ég tók ekki eftir. Ég er búin að skemmta mér konunglega við þetta, er með Vilhjálm Vilhjálms á hæsta og dilla mér við rykklútinn. Skrýtið hvað það gerir manni að búa í útlöndum. Aldrei hefði ég sett Villa á fóninn heima. En mikið syngur hann nú fallega.

Ég þarf svo að fara að drífa mig í að setjast við að skrifa niður gestalista fyrir brúðkaup og senda út boðskort. Það er nú ekkert svo svakalega langt í brúðkaupið, kannski svona 7 til 8 kíló. 10 ef lukkan er með mér.

sunnudagur, 17. apríl 2005

Mér dettur aldrei neitt sniðugt í hug að gera á frídögunum mínum. Ég virðist alltaf eyða sunnudeginum í að þrífa húsið og svo bara fatta ég ekki upp á neinu meir til að gera. Maður sem býr í útlöndum og allt og ætti að geta gert hvað sem er. Málið er náttúrulega að hér eins og annarstaðar þá kostar allt eitthvað og bæði pund og krónur eru alltaf af skornum skammti. Núna til dæmis myndi ég vilja keyra til Llangollen og rölta aðeins um, setjast svo inn á kaffihús og fá mér kaffi og eplaköku. En meira að segja svoleiðis smáræði er "over budget" eins og er. Eða fara með Láka í dýragarðinn í Chester. Það er alveg úr myndinni. Þannig að við förum bara út í garð og spörkum í bolta. Hingað til hefði ég sjálfsagt bakað eina litla rjómaköku en nýji lífstíllinn segir að svo sé ekki ráðlegt.
Talandi um nýja lífstílinn. Ég fann á netinu þetta líka brilliant plan til að fylgja og er núna búin að vera að venjast því síðan á miðvikudag. Gengur svona líka vel, maður ræður svona mikið til hvað maður borðar, það eru bara skammtarnir sem eru dálitið mikið minni en ég er vön. Og svo náttúrulega bara heilbrigð skynsemi sem segjir manni að sleppa Snickersinu og fá sér epli í staðinn. Dave er með mér í þessu sem gerir þetta allt miklu auðveldara og skemmtilegra, þetta er orðið svona dálítið eins og hobbý hjá okkur að lesa innihaldslýsingar og telja karólínur. Þannig að "fingers crossed" við verðum glæsileg brúðhjón í sumar!

miðvikudagur, 13. apríl 2005

Hvað er verið að gera heima hjá mér? jú, hvað annað en að horfa á fótbolta. Yndislegt alveg hreint. Þetta er að verða vandræðalegt, ég þekki orðið flesta leikmenn og þjálfara liðanna hér í Bretlandi og mikið orðið til í Evrópu líka. Ef ég fer ekki að passa mig þá verð ég búin að læra "offside" regluna áður en ég veit af.

Og talandi um að passa sig þá er enn eitt átakið hafið, og ekkert grín í þetta sinnið, nú verður maður að passa í kjólinn. Brúðkaup 9. júlí og ég eins og Herðubreið ásýndum. Mér tókst í dag að forðast allar kexkökurnar í vinnunni og er nokkuð ánægð með sjálfa mig. Verð þó að viðurkenna að inntaka tóbaks hefur aukist um helming. Kransæðastífla eða krabbamein, það er valið.

Ps er líka voða kát í dag, ég er bjartsýn með framþróun mála í vinnuleit, húsið mitt er svo fínt núna og Dave og Lúkas svo ljómandi báðir tveir. gaman þegar maður er svona innstilltur.

þriðjudagur, 5. apríl 2005

Ég eyði svo miklum tíma í að reyna að finna hamingjuna að ég hef ekki tíma til að njóta þess sem ég hef nú þegar. Er það ekki bara sannleikurinn?

Ég er enn að stússast í að finna vinnu sem veitti mér meiri lífsfyllingu. Nú er ég búin að sækja um vinnu hjá Velska innflytjenda ráðinu, ég hugsaði sem svo að ég væri fullkomin í þann starfa þar eð ég er innflytjandi sjálf. Reyndar er ég núna oft spurð hvort ég sé frá Corwen eða jafnvel Betis-y-Coed. Ég hljóma víst voðalega velsk. Verst að geta ekki sett hérna inn tóndæmi. Hvað um það. Launin eru snöggtum betri en hlandsúpan sem ég er á núna, og ég held að ég hefði meira gaman að vinnunni sjálfri. Mér er hreinlega meinilla við að selja fólki hluti. Hvort sem því vantar gleraugu eða ekki.

Maður er svo rétt búin að jafna sig á heimþránni eftir jólin þegar mamma og pabbi koma í heimsókn og ég er back to square one. Í þetta sinnið langar mig ekki til að flytja heim samt. Ég vil að þau flytji hingað. Þau voru svo dugleg að laga til hjá mér, hér er allt nýmálað og ljós uppsett. Húsið er eins fínt og það getur orðið, ja eða svona allt að því, og ég tími ekki að fara frá því alveg strax. Mikið voða var gaman að hafa þau. Mig vantar alltaf svo að fólk dáist að Lúkasi mínum, og hver betri til þess en gamla settið?