sunnudagur, 28. október 2007



Já, sjaldan fellur eplið langt frá eikinni og allt það. Lúkas er mikil félagsvera og er það ein ástæðan fyrir því að honum finnst best að nota koppinn inni í stofu, það er ekki jafn einamalegt og að bisast við þetta einn inni á baði. Í kvöld settist hann við verkið og bað um bók um leið. Svo lærir barnið sem það lifir við.


Hann Lúkas minn vill oft kaupa allskonar hluti, sérstaklega lestar og dót sem þeim fylgir. Hann segir oft "mommy, we need to kaupa this" og notar þá íslenskuna til að leggja áherslu á orð sín. Í morgun var hann að skoða lista sem hafði komið inn um lúguna í gær, og fann að sjálfsögðu dótasíðurnar mjög fljótlega. Hann benti á hitt og þetta sem þarf að kaupa og reyndar líka á dót sem ekki má kaupa, af því að það er for girls. Eitt vildi hann þó fá sem ég er ekki viss um að ég geti töfrað upp úr hatti. Hann sagði þegar listinn var búinn;"baby boys are brothers and baby girls are sisters. I want a baby brother." Ég sagði honum að maður þyrfti að deila öllu dótinu sínu með baby brothers. "OK" sagðir hann, "I don´t want brother then." Fjúff! Narrow escape!

mánudagur, 22. október 2007



Hér eru þeir feðgar um borð í Daisy, alveg hreint svaðalega ánægðir með daginn og sjálfa sig. Ég ekki jafn ánægð í dag og ég var í gær, ég féll fyrir lokkandi súkkulaðikexpakka og var búin að maula nánast allan pakkann áður en ég gat stoppað mig. Ég má greinilega ekki hella upp á kaffi þegar ég er ein heima, ég set samansem merki á milli þess og millimálabita. Maður verður að varast að setja sjálfan sig í stöðu þar sem erfitt er að standst freistingar. Og ég sem var búin að vera svo dugleg í allan dag. Hollur morgunmatur, power hreingerning á meðan Láki var í skólanum, út að leika með honum eftir hádegismat (harðfiskur en maður verður líka að borða harðfisk) og svo núna er hann að leika sér ég búin að skera niður rófur og gulrætur til aö búa til kjötsúpu, sest niður við tölvuna með kaffbolla og bara eins og ég segi, kexpakkinn búinn. Djöfullinn! Þá er þessi dagur ónýtur, ég með samviskubit og magaverk, reið út í sjálfa mig, og á ekki eftir að njóta súpunnar, djöfull, djöfull, djöfulsins hurðarlaust helvíti. Djöfull.

sunnudagur, 21. október 2007



Uppástungu að frábæru fríi. Fljúgið til London, leigið bát og siglið niður skipaskurði til Llan þar sem við Veilsbúar tökum á móti ykkur og siglum svo í kjölfar hér um svæðið. Prammarnir koma með öllum nútímaþægindum og er allstaðar hægt að stoppa og hoppa í land til að fá sér bjór, pöbbarnir eru byggðir með prammana í huga. Fallegt og öðruvísi.


Við eyddum deginum í yndislegu veðri í Llangollen með Tómasi og félögum. Þetta er annað skiptið sem við gerum þetta, í fyrra skiptið var Lúkas bara tveggja og var bara að uppgötva Tómas en núna er hann næstum fjögra og veit allt sem þarf að vita um kappann. Hann veit meðal annars að maður á ekki að standa of nálægt brúninni á lestarstöð þannig að það náðist ekki mynd af þeim félögum saman. Við Dave skemmtum okkur jafnvel og Lúkas, byrjuðum daginn á skemmtilegri göngu meðfram bátasíkjunum í Llan, fórum svo með Tómasi til Carrog þar sem við borðuðum nesti. Veðrið var svo fallegt í dag, mikill munur frá rignungu og leiðindum að undanförnu. Lúkas fékk auðvitað nýja lest, Spencer í þetta sinnið, við bara finnum ekki hina langþráðu Mavis.

sunnudagur, 14. október 2007

Lúkas hefur ekki tíma í að láta taka af sér myndir, hann er að reyna að horfa á Wow Wow Wubbzy. ég tók þessa núna í kvöld, brennheit af pressunni. (Ég bara get ekki hætt!)


BTW Ég bý alltaf fallega um, nema þegar Lúkas hoppar;)
Lúkas hoppar meira.
lúkas hoppar.
'Eg er bara að tjékka á hvernig blogger höndlar vídeómyndskeið.

föstudagur, 12. október 2007

Ég sá mann í dag í bol frá Tolla. Á strætóstoppistöðinni. Hann labbaði framhjá mér og inn í strætóinn á undan. Ég fékk sting í magann og hjartað;"Hann er í bol frá Tolla!", velti fyrir mér í smástund hvort ég ætti að fara og spurja hvar hann hafi fengið bolinn, en sá að mér, það væri nú einum of plebbalegt. Maðurinn sjálfsagt stoppað yfir helgi á Íslandi og keypt bol. En samt, litla íslenska hjartað mitt var glatt í strætó á leið heim, maður í bol frá Tolla í litlu Wrexham. Merkilegt alveg hreint.

mánudagur, 8. október 2007

Ég fann skyr um daginn. Dós af 0% grískri jógúrt reynist innihalda 100% hreint óhrært íslenskt skyr. Hvílík lukka yfir mér. Ég er því miður í aðhaldi þannig að ég er að spara mér til hátíðabrigða að hella yfir það rjóma og sykri en er búin að nota það óspart einmitt sem megrunarmat. 10% heildarþyngdar farin, næstu 10% tækluð núna fram til 1. janúar.

sunnudagur, 7. október 2007

Lúkas er farinn að búa til jólagjafalista. Hann fattar að það er hægt að biðja um allskonar dót en er ekki alveg með á hreinu að það þarf að bíða til jóla með að fá dótið. Hann segir bara en þetta er jólagjöf. Hann vill aðallega fá Tómas-dót og einn eða tvo kappaskstursbíla. Hann segir mér líka stundum frá einhverju sem hann vill EKKI fá af því að það er sko "for girls". Svo er sumt dót líka "rubbish, it´s rubbish" segir hann. 'eg veit ekki afhverju hann er með kynskiptar hugmyndir, þær koma ekki frá mér. En ég verð líka að viðurkenna að hann er að alast upp í þjóðfélagi sem hefur mun hefðbundnari hugmyndir um kynhlutverk en ég er vön. Kom mér á óvart en svona er það nú bara.

Hér er allt orðið undirlagt í jóladóti. Allir á fullu að kaupa gjafir og kort. Dálítið snemmt, sérstaklega þar sem að það eru bæði hrekkjavaka og Bonfire Night fyrst. En hér virðast allir þurfa svona langan tíma. Debra sagði við mig í vinnunni um daginn þegar ég sagði að þér þætti ekki fallegt að blanda saman hrekkjavökuskrauti við jólaskraut, "if you think about we really only have 14 weeks to get christmas sorted." Well ef ég hugsa um það þá fæ ég ekki séð hvað þarf svona svakalega mikið að gera að ég þurfi 14 vikur í að arransera herlegheitunum. Það eina sem ég ætla að reyna að vera tímanleg með í ár eru jólakortin. Allt hitt er ekki stressins virði.