sunnudagur, 30. mars 2008

Núna er þetta allt að koma, fórum í dag að ná í flísarnar á baðið, sturtan og klóið og allt það kemur á miðvikudaginn og svo hefst vinna á mánudag eftir viku. Ég er svo spennt að ég held vart vatni. Hahahahhahahhaa!

þriðjudagur, 25. mars 2008


Ég gleymi alveg í súkkulaðivímunni að sýna barnið stolt með eggið sitt. Hann hafði reyndar meiri áhuga á unganum sem sat á egginu en egginu sjálfu. Tennurnar fallegar líka, þrátt fyrir breskan upprunann. Ég lét hann aðeins leita, ekki lengi, en svona aðeins.

mánudagur, 24. mars 2008

Súkkulaði út um allt... ég er komin með illt í magann, sonur minn er nefnilega með svona innbyggðan súkkulaðistoppara. Þegar hann er búinn að fá nóg þá hættir hann að borða. Sem þýðir að hann rétt snerti á eggjunum sínum. Sem þýðir að ég, sem er ekki með innbyggðan súkkulaðistoppara, er nú á fremur skömmum tíma búin að borða þrjú, nei fjögur, páskaegg. Ég er að hugsa um að játa mig sigraða enn einu sinni og ganga í einhverskonar klúbb. Ég get þetta ekki sjálf, ekki frekar en alkahólisti getur hætt að drekka án hjálpar. Ég er bara orðin svooooo leið á þessu. Í 27 ár er ég búin að hugsa um lítið annað en það sem ég borða. Get ekki sætt mig við að vera feit, get ekki tekist á við að lagfæra það. Þetta er hræðilegt að lifa lífinu svona. Og allir í kringum mig hljóta að vera orðnir leiðir á mér. Þetta getur varla verið svo flókið? Aumur er agalaus maður stóð í einu egginu. Mér fannst það eiga vel við.

miðvikudagur, 19. mars 2008

Þeir eru mjög tónelskir þeir veilsbúar og einna helst þekktir fyrir karlakórana sína. Héðan úr dölunum hafa margir velþekktir óperusöngvarar átt uppruna sinn. Hér í Rhos er til að mynda mjög virðulegur karlakór, The Rhos Orpheus Male Choir. Þeir fóru í sitt fyrsta tónleikaferðalag 1947 og þá til Barcelona. Þegar þangað var komið sáu þeir að auglýsingin las "Los Hermanos Jones de Galles" og fýsti að vita hvað þýddi. Jú, spánverjarnir höfðu séð að þeir voru allir þrjátíu með eftirnafnið Jones, og svo einhver slatti af Williams´s, og gert ráð fyrir að hér væri á ferðinni "Bræðurnir Jones frá Wales".

Og þessi saga mamma, var bara fyrir þig. Múss.

mánudagur, 17. mars 2008

Við Láki vorum samferða Shirley og Josh heim úr skólanum í dag. Josh hafði greinilega sagt Láka að mamma hans væri með barn í maganum því Láki bað Shirley um að fá að sjá mallann hennar. Hún leyfði honum að sjá og hann spurði "Have you got a baby in your tummy?" Hún jánkaði því og hann spurði þá "Did you eat it?" Nei hún borðaði það ekki, og Josh greip inn í og sagði að pabbi hans hefði sett barnið í magann á mömmu sinni. Lúkas horfði á mig og sagði svo, "My daddy hasn´t put a baby in my mummy´s tummy. It´s only cake." Bölvaður.

laugardagur, 15. mars 2008

Nú ríkir mikil gleði hér í Veils. Við (já, við) erum í kvöld orðin 6 Nations Champions! Rugby, sem er óneitanlega þjóðaríþrótt Veilsverja, hefur í kvöld skilað 6 nations titlinum hingað. Við kepptum við England, Írland, Skotland, Frakkland og Ítalíu og unnum alla okkar leiki. Þvílík gleði! Þvílík hamingja! Stemmningin er ólýsanleg, ímyndið ykkur ef Ísland hefði unnið evrópumeistaratitilinn í handbolta. Þetta er svona svipað.

Á sömu nótum ríkir mikil gleði hér á heimilinu. Ég keypti fyrir nokkru síðan tvær bókahillur frá IKEA og lét senda mér hingað heim. Húsið mitt er agnarsmátt og í sárri þörf fyrir geymslupláss og ég var svona líka ánægð þegar ég fann loksins þessa skápa sem pössuðu eins og sniðnir í eitt hentugt horn. Ég fékk þá semsé senda hingað heim eftir smá vesen við að finna dag sem hentaði mér og IKEA. Svo upphófst uppsetning. Ég hafði mælt plássið upp á millimetra, lengd, breidd og hæð. En hafði ekki gert mér grein fyrir að eftir að hafa sett þá saman á hliðinni hafði ég ekki lofthæð til að reisa þá aftur við. Ég endurskipulagði stofuna til að athuga hvort þeir kæmust fyrir þar inni en nei, það eina sem kom út úr því var að ég fann fjórar snúrur flæktar saman fyrir aftan sjónvarpið sem ekki voru tengdar í neitt. Smá tiltekt þar. Taka tvö næsta kvöld. Ég reif eina aftur niður og setti upp þar sem hún átti að standa. Snéri öllum hillum öfugt. Taka þrjú. Reif báðar aftur í sundur og setti saman þar sem þær áttu að standa. Sneri einni hillu öfugt en gefst upp. Fokkings IKEA! Ég hélt að þetta ætti að vera idjótprúf! Kemur í ljós að ég er ekki idjót og bara ræð ekki við þetta. Gefst upp og fer að sofa. Ég klára þetta svo loksins í gærkveldi og ég græt, græt af gleði, ég er loksins búin að þessu, og skáparnir smellpassa. Ef þú pírir augun gætirðu haldið að smiður hafi gert þetta. En ég fer aldrei aftur í IKEA.

þriðjudagur, 11. mars 2008



Því miður þá virðist Ysgol-Y-Rhos sem er skólinn hans Lúkasar ekki halda úti eigin heimasíðu, en það má nálgast upplýsingar um hann á heimasíðu Wrexham bæjar þar sem ég fann meðal annars þessa mynd úr skólanum hans, reyndar tekin fyrir nokkrum árum síðan. Foreldrar þessara barna og börnin sjálf munu hafa verið námuverkamenn og refsað harðlega ef þau reyndu að tala velsku. Á þessum árum var engin leið að komast áfram í lífinu ef velska var þitt fyrsta tungumál, hana töluðu bara fátæklingar. Svoleiðis tókst systematísk útrýming tungunnar nánast að afmá hana úr lifandi, daglegu lífi. Sem betur fer horfir nú til betri vegar og það hefur heldur betur orðið umskipti í hugum fólks. Nú er það "betra" fólk sem talar velsku og er merki um menntun og verður til betri stöðuveitinga innan opinbera geirans. Wales búar eru mjög skiptir í afstöðu sinni til enskra ólíkt því sem gerist í t.d. Skotlandi þar sem allir hata Englendinga. Sumir Walesverjar telja sig janfvel vera Breta, frekar en Walesbúa. Svo má reyndar líka finna fólk hérna sem viðurkennir að ef England spilaði fótbolta við 3. ríki Hitlers þá myndu þeir þurfa að halda með strákunum hans Hitlers einungis í þeirri von a enskir tapi! Skemmtilegt er svo frá að segja að Jones nafnið er vinsælasta eftirnafnið hér og í den tid voru menn kallaðir Jones og svo vinnuheitið. T.d. Jones the Barkeep, Jones the blacksmith, Jones the weaver, o.s.f.v. Í þessari hefð er hér í Wrexham hægt að biðja Jones the computer að koma og setja upp nettengingu.

Ég er alltaf að verða hrifnari af landi og þjóð, hér er óskaplega fallegt og skrafhreifnara fólk hef ég aldrei hitt, maður er allstaðar stoppaður til að spjalla, af fólki sem skv. íslenskri skilgreiningu væru ókunnugir. Hér er líka hæsta ratío af táningsþungunum í Evrópu, veit ég ekki hvort það er líka vegna þess hve fólkið er vingjarnlegt! Diolch y fawr a croeso y cymru.

mánudagur, 10. mars 2008


Lúkas fór í skólaferðalag í dag til Bodelwyddan kastala, sem er í u.þ.b. tveggja tíma keyrslu héðan. Hann er ásamt bekkjarsystkynum sínum búinn að vera að vinna verkefni í allan vetur um hús og heimili sem endaði á þessari skoðunarferð um kastala. Hann var voða spenntur í morgun enda með öðruvísi nesti en vanalega og hlakkaði til að fara í rútu með félögum sínum. Hann virtist hafa skemmt sér konunglega en kvartaði þegar heim kom að hann hafi ekki séð nein sverð og enga vindubrú. Það var þarna riddari, en sverðlaus og því hálflélegur.
Skólaferðalagið kom sér vel fyrir mig, ég er að vinna í bókhaldi núna og er með svona naglarhald á efninu. Þrátt fyrir að tilgangurinn sé ekki að ég geti haldið bókhald (hahahahahah!) þá á ég að geta, að þessum kúrs lokið, lesið úr bókhaldi. Með Láka í burtu hafði ég meiri tíma en vanalega á mánudegi til að grúska í gross profit og operational margins. Heillandi efni.
Hér í Norður-Wales er fínasta veður, svona í öðrum fréttum, óveðrið sem ríður yfir suður hluta Englands og Wales nær ekki hingað í afdali.

mánudagur, 3. mars 2008

Ég er hætt að hlusta á tónlist, ég fer ekki í bíó, ég les bara skólabækur og þar á undan las ég eiginlega bara sögulegar skáldsögur. Ég er orðin svo leiðinleg og halló að annað eins bara þekkist ekki. Hvernig stendur eiginlega á þessu? Hvenær tapaði ég þessum hluta af sjálfri mér sem ég hélt að væri svo mikilvægur? Svava Rán hlustar á svona tónlist og les svona bækur og er svona manneskja. Svo kemur bara í ljós að mér er líka alvega sama. Ég hef enga þörf fyrir að finna eitthvað nýtt að hlusta á, nýtt að lesa eða horfa á. Ég er bara sátt við að skoða lampaskerma og gólflísar. Það er bara alveg nóg núna. Er ég þá Svava Rán sem fílar náttúrustein?

sunnudagur, 2. mars 2008


Hér er mæðradagur í dag og af því tilefni set ég þessa mynd af okkur mæðginum tekna í morgun. Við erum oft mjög ánægð með hvort annað. Stundum ekki svo ánægð með hvort annað en það er önnur saga.
Mamma mín, sem er auðvitað og að sjálfsögðu besta mamma í heimi, segir mér að enn snjói á Íslandi. Ef ég á að segja sannleikann og allan sannleikann þá hrýs mér hugur við að flytja heim ef það á að vera þannig. Ég get ekki haldið því fram að hér í Veils sé eitthvert spánarsambó, hér er oftast blautt og grátt. En það er komið vor og ég veit að það verður sumar. Þessi endalausi vetur hljómar lítt spennandi núna.