laugardagur, 16. september 2017

Af varnarleik

Ágúst virðist vera trend mánuðurinn minn þar sem skrif fara alveg aftast í röðina og ég dingla mér bara um án nokkurrar hugsunar. Í ár missti ég tengdaföður minn eftir löng veikindi sem setti líka nokkuð strik í lífið. Stuttu síðar eyddi ég svo sumarfríinu á Íslandi og það er rétt svona núna sem lífið ætti að vera að skreiðast í eðlilegan farveg. 

Sem ætlar svo reyndar eitthvað að láta á sér standa. Ég kemst bara ekki inn í góða rútínu. Allt er smáveigis vitlaust. Ég hjóla og fer í jóga en kemst ekki alveg inn í taktinn. Við förum í langar göngur en mig vantar að þær séu en lengri. Ég borða fallega annanhvern dag, hinnhvern eins og hálfviti. Fastan bjargar smávegis, ég borða alla vega ekki á kvöldin en mig vantar alla gleði. 

Það sauð svo upp úr hjá mér í dag. Allskonar sorg og leiðindi og erfiðleikar og ég gerði það eina sem ég kann til að laga hlutina; fór og náði í lyfin mín.



Morfín, dópamín, deyfandi, örvandi. Allt sem gerir mig glaða og lætur mér líða vel. Ég raðaði góssinu á borðið til að setja upp fyrir mig röð og aðferð. Það er jú mjög mikilvægt að fullnægja hverri áferð og bragði á réttan hátt. Kryddað og stökkt fyrst, hart og mjúkt næst, kremað og þykkt að lokum.

En á þessum þremur sekúndum sem það tók að taka myndina náði heilinn aftur stjórn á hvatvísinni og ég náði að stoppa mig af. Mér finnst alltaf frábært þegar það gerist og ég get skoðað sjálfa mig og hegðun mína svona utanfrá. Þegar ég get skilgreint geðveikina, skoðað hana án þess að dæma sjálfa mig og haldið svo mína leið.

Ég lýg þvi ekki að ég hafi sleppt að borða neitt af þessu, ég fékk mér eitt pain au chocolat í hádegismat og svo eitt ripple súkkulaði eftir kvöldmat en ég borðaði þetta líka án samviskubits og naut bara. 

Kannski ekki alveg eitt-núll fyrir mér en ég náði að verja sjálfsmark.