fimmtudagur, 31. mars 2016

Á felgunni

Ég höndla það engan vegin að vera í fríi. Ég er svo mikil rútínu manneskja. Ég finn að ég er búin að þyngjast um tvö kíló í vikunni og ég finn að þetta eru engin vatnsbjúgskolvetnaskvapskíló sem skafast auðveldlega af. Nei, ég þekki líkama minn og þetta er tveggja til þriggja vikna set back puðvinna. 
Ég er samt ekki alveg með á hreinu hvað það er sem fokkast svona upp hjá mér. Ég held alveg rútínunni við að fara í ræktina. Það er reyndar smávegis skrýtið af því að ég hélt að það að hafa nógan tíma myndi þýða betri æfingu. En það virðist sem svo að meiri tími þýði bara meira lall þannig að mér finnst ég ekki vera að taka neitt sérstaklega mikið á. Svo erum við búin að labba heilmikið en kannski ekki jafnmikið og ég labba svona í daglega lífinu. Maturinn er svo búinn að vera fínn fyrir utan Páskasunnudag og mánudag þegar ég graðgaði í mig súkkulaði og lambalæri. Samt ekki alveg nógu fínn. Ég fæ mér fallegan morgunmat, elda svo fallegt pasta í hádeginu og bý til indverskan eða hollan KFC í kvöldmat. En magnið fer eitthvað úr skorðum, ég næ ekki að drekka vatn eins og ég geri í rútínunni og svo eru molar af afgangs súkkulaði á stangli sem lenda einhvern vegin upp í mér. Ekkert af þessu er alvarlegt, ekkert af þessu er binge hegðun, ekkert af þessu er eitthvað sem ég hef áhyggjur af að haldist við þegar fríi lýkur. En ég get samt ekki alveg ákveðið hvort ég sé nett pirruð að geta ekki farið í frí án þess að þyngjast eða hvort ég yppi bara öxlum og segi að svona sé þetta hjá náttúrulega grönnu fólki líka og að ég sé alveg eðlileg. 
Nei, ég hugsa að ég yppi bara öxlum og segi boh eins og franskur vörubílstjóri. Þetta er alveg eðlilegt og rútínan tekur við aftur áður en ég veit af.
Ég er svo líka búin að arransera einkaþjálfara. Annar strákanna sem voru með lyftinganámskeiðið er líka með einkatíma og ég ætla að hitta hann einu sinni í mánuði. Ég hugsa að það sé alveg nóg, ég þarf ekki að hitta hann í hverri viku, en það verður svakalega fínt að hafa atvinnumann til að halda manni við efnið, passa formið og til að koma mér í gegnum stöðnunartímabil. Ég virðist nefnilega alltaf komast visst langt í þessu en svo gerist eitthvað og ég þyngist aftur um milljón tonn og þarf að byrja upp á nýtt. Ég bara nenni því ekki aftur. Svona frí tímabil eru eitthvað sem koma alltaf til með að gerast í lífinu og ég díla bara við setbakkið. En ég þarf líka að díla við ´það sem eftir er´ og ég sé það að hafa Matt í mínu horni sem einn þáttinn í að koma mér yfir næstu hraðahindrunina.  

sunnudagur, 27. mars 2016

Af súkkulaði


Eftir stutta leit í stofunni fundust þessi egg á páskadagsmorgun. Lúkas hafði ákveðið að hann væri ekki of stór til að leita að þeim þannig að við eyddum skemmtilegri stund við heitur og kaldur áður en öll eggin voru samankomin. Hann greip eitt lítið og borðaði og skildi svo afganginn eftir á borðinu, sagðist vera saddur og hann fengi sér meira þegar hann langaði í. Sjálf ligg ég í sófanum og get mig hvergi hreyft, baða bara út höndunum í von um að ég hitti lyklaborðið. Ég nefnilega gat ekki hætt þegar ég var orðin södd. Eitt eggjanna er lakkrísegg sem þýddi að hvorki Lúkas né Dave myndu borða það þannig að ég átti það alveg út af fyrir mig. Braut það niður og raðaði svo skipulega í mig á meðan við spiluðum eitt Trivial. Og er núna bara illt. Og mér datt í hug að ef ég hefði, 12 ára gömul, vaknað við þennan súkkulaðieggjafjöld hefðu viðbrögð min verið eitthvað öðruvísi en viðbrögð Lúkasar. Ég hefði í fyrsta lagi ekki náð andanum. Ég hefði hreinlega ekki getað höndlað að bæði anda og eiga þetta mikið nammi. Svo hefði ég gripið eins mörg og ég gæti borið og falið mig einhverstaðar til að borða þau í friði og ró á meðan ég læsi eina Ísfólksbók. Þvílík hamingja! 
Það segir mér víst enginn að ég sé búin að fá nóg núna nema ég sjálf. Og ég kaus að hlusta ekki á sjálfa mig í dag. Það er fínt, mér þykir ágætt að minna sjálfa mig á að ég sé fullorðin og geti gert eins og mér sýnist. Að ég beri ábyrgðina á magaverknum, ég vissi afleiðingarnar en gerði þetta samt. Ég held reyndar að ég sé núna á því stigi að frekar en að spyrja sjálfa mig í forundran af hverju ég geri sömu mistökin aftur og aftur þegar ég veit afleiðingarnar þá sé þetta frekar svona eins og að láta sér leiðast öðru hvoru. Ef manni leiðist aldrei þá metur maður heldur ekki góðu stundirnar jafn mikið. Ef ég borða mér ekki til óbóta öðruhvoru þá met ég heldur ekki hversu miklu betur mér líður þegar ég er holl og hrein. 
Eða sko, það hljómar allavega ágætlega sem afsökun fyrir að teygja mig í annan mola núna...

laugardagur, 26. mars 2016

Af teygjum


Það eru haldnir páskar hér á Bretlandseyjum, þannig að bæði föstudagurinn langi og páskasunnudagur eru frídagar. Sunnudaginn færa þeir bara yfir á mánudaginn sem við köllum annan í páskum. Ég sá mér því leik á borði og bókaði fimmtudaginn á undan og svo alla næstu viku sem frí. Þegar maður er í fríi fer allt plan úr skorðum og það er auðvelt að slaka bara á öllum kröfum um árangur. Ég ákvað að vera alveg slök með þetta líka en setti mér svona nokkrar grunnreglur til að fylgja. Ég þarf að viðhalda lyftingaprógrammi alveg. Það eru fjórir dagar í ræktinni þar sem ég tek nokkuð skart á. Ég þarf líka að fara í tvær góðar göngur með strákunum mínum. Og allur matur sem ég borða þarf að borða sitjandi og með fulla meðvitund. Ég á það voða mikið til að stinga molum upp í mig án þess sérstaklega að taka eftir því en ef fullri meðvitund er beitt þá er auðveldara að hafa, ef ekki stjórn, þá allavega yfirlit yfir hvað maður er í alvörunni að setja upp í sig. 
Ég á hérna velskt lambalæri og íslenskt páskaegg og hef fyllilega í hyggju að borða, og njóta hvoru tveggja á morgun. Það var þessvegna gott að vita að ég hafi lést um hálft kíló í þessari viku. Er orðin 94.6 kg og ég bara gæti ekki verið ánægðari með sjálfa mig þó ég reyndi. 

Ég er svo enn að vinna hörðum höndum (eða lærum) að því að losa um stirðleikann í mjöðmum og lagfæra sciatica vesenið ásamt því að bæta hnébeygjurnar mínar. 
Rétt rúmur mánuður hér á milli og það er kannski bara hársbreidd sem á munar en ég er bæði uppréttari í baki og með dýpri beygju á hnjám á nýrri, efri myndinni. Það er rosalega gott að hafa svona viðmið þegar kílóin fara að segja minna og minna og svona árangur verður mikilvægari. 

laugardagur, 19. mars 2016

Af geimgöngum

Það sprakk á framdekkinu á hjólinu mínu á fimmtudaginn á leiðinni heim. Ég hafði því góðan tíma til að hlusta á podcast á meðan ég labbaði heim með það í eftirdragi. Einn af þáttunum sem ég hlusta á, TED radio hour, vakti mig til umhugsunar um þetta verkefni sem ég er búin að vera að möndla síðan 1985. Það er eitthvað alveg hreint ótrúlegt hversu auðvelt það er að vita afleiðingar gjörða sinna en samt halda áfram að gera sömu mistökin. Svona utanfrá skoðað er þetta nánast ljóðrænt, svona eins og að lesa góða tragíkómedíu. En þegar ég hlustaði á geimfarann sem var í útvarpsviðtalinu segja að auðvitað væri það hræðilega ógnvekjandi ef manni væri hent inn í geimskutlu og sagt að innan 10 mínútna yrði manni skutlað út í geim. VIð svoleiðis aðstæður væri maður ráðalaus og lamaður af ótta. En þegar manni er sagt að maður hafi 15 ár til að æfa sig í að læra viðbrögð við öllum mögulegum áðstæðum sé engin ástæða til að óttast. Maður lærir allt sem þarf á þessum tíma og að lokum veit maður nákvæmlega hvað maður sé að gera. Og þá er loks engin ástæða til að óttast. Kannski er ég bara eins og minn eiginn geimfari. Það er bara búið að taka mig þetta langan tíma að læra, skilja og vita áður en ég var fær um að fara í mína geimgöngu. Ég hugsaði þetta fram og tilbaka á göngunni heim. Við hvað ég væri hrædd. Ég hef nefnilega núna öll tæki og tól, alla þekkinguna og viskubrunninn til að fara þetta til enda. Og það er nefnilega málið. Ég stjórna þessu. Ég hef þetta allt í mínum höndum. Tökum til dæmis sciatica verkina mína. Síðan ég fékk í bakið og kom í ljós að ég væri með klemmda taug er mér búið að vera illt í vinstri fót. Ég er með stanslausan náladoða ásamt því að vera með nánast stanslausan vöðvakrampa í fætinum. Ég þarf að vanda mig við að standa upp úr skrifborðstólnum mínum. Ég ætla ekki í neinn uppskurð. Ég er búin að lesa mér til um þetta og það sem ég þarf að gera er að teygja á mjöðmum og mjóbaki þannig að þrýstingurinn á taugina minnki og þannig losar um verki og náladoða. Einfalt. Og í mínum höndum. Ég þarf bara að koma teygjunum inn í mína rútínu. Og svo þarf ég bara að gera það.  Það er alveg sama á hvaða hátt ég horfi á lífsverkefnið mitt, allstaðar er lausnin í mínum höndum. Og nú þegar ég er orðin post-doc í megrun er bara ekkert að óttast. Ég þarf bara að telja niður og blast off. 

Ég léttist um 3.3 kíló í þessari viku. London kílóin og rúmlega eitt til viðbótar fóru veg allrar veraldar. Ég kann þetta sko alveg. 

miðvikudagur, 16. mars 2016

Af hipsterasalati

Í London er gaman að vera og þar eru í löngum röðum litlar búðir sem selja allskonar dót og drasl sem maður hreinlega getur ekki verið án. Sjálf get ég réttlætt það að kaupa mér Marimekko servéttur, ítalska leðurpyngju og nestisbox þannig að ég hef ekki keypt mér föt núna í 3 mánuði og að það sé alveg nauðsynlegt að styðja við bakið á litlu sjálfstæðu verlsununum. Og nú þegar smá reynsla er komin á nestisboxið er greinilegt að það voru kostakaup.

Það er afskaplega smart og fallegt. 
Neðri dósin er fyrir morgunmatinn, í henni er að finna dýrindis ´´yfirnáttúrlega´´ hafrar eins og góð vinkona kallaði þá. Skeiðin sem smellt er á festinguna er ekki bara skeið, heldur gaffall líka og kemur sér því vel bæði í hafrana og í salatið sem leynist í efri dósinni. 
Ég var búin að sjá þónokkrar uppskriftir á Pinterest að salati í krukku en verð að viðurkenna að ég renndi alltaf hjá þeim uppskriftum. Fannst heldur mikið yfirlæti yfir svoleiðis, eins og það væri bara fyrir þóttafulla hipstera en að það væri engin ástæða fyrir að setja salatið sitt í glerkrukku annað en bara fyrir lúkkið. En svo datt mér í hug að þetta væri sniðugt að prófa aðferðina svona af því að ég er með hálfgerða krukku. Og kemur í ljós að það er alls ekki bara fyrir útlitið sem það er sniðugt að raða salat efninu svona upp.
Við sem erum skipulagsfasistar vitum nefnilega að þegar salat er búið til kvöldið áður og situr svo fram að hádegi í plastdós að maður fær lint salat í matinn. Það er ekki gott þegar maður er líka heltekinn af réttu áferðinni á mat. Lint salat er vont salat. En með krukkuaðferðinni aðskilur maður blautt frá þurru, krispí frá mjúku og þegar að áti kemur er eins og maður sé með nýlagað salat fyrir framan sig. Þvílík hamningja! Ég er búin að búa til allskonar ævintýraleg salöt í vikunni í gleðilátum miklum.
Hér sést í salatið mitt í hádeginu, undir stökku og brakandi kálinu leynist kjúklingur með suður-amerísku salsa ívafi, svartar ólífur og svartar baunir. Himnasæla ein. 
Afþví að þessi pinterest uppkrift tókst svo vel til ákvað ég að prófa aðra í kvöld og bakaði hvítkálsfleiga með beikoni og hvítlauk. Mikið var það gott, og fer kalt með í salat morgundagsins. 

þriðjudagur, 15. mars 2016

Af hangsi


Ég var nokkuð viss um að þessi tala, 71 kíló, sem ég sé alltaf fyrir mér sem einhverja gullna tölu, hefði verið dregin úr tómu lofti. Að ég hefði bara hugsað hana upp. En svo um daginn var ég eitthvað að skoða lista sem sýna hvað maður ´á´ að vera þungur og það kemur í ljós að 71 kíló er það sem aðskilur konu af minni hæð og byggingu frá því að vera venjuleg og að vera í yfirþyngd. Ég sver að ég man ekki eftir að hafa séð þennan lista áður, en ég trúi eiginlega heldur ekki að ég hafi haft svona guðlega forsjá að hugsa upp þessa tölu. 
Eftir nokkrar umræður við Ástu mína um lífsmarkmið, bæði lang-og skammvinn, hef ég að undanförnu verið að hugsa þetta betur, hversu mikilvægt það er fyrir mig að ná þessu markmiði. Eða hvort ég eigi frekar að setja mér önnur og skemmtilegri markmið eins og til dæmis að geta gert upphífingar. Það er sko hitt svona lífslangtímamarkmiðið mitt og satt best að segja finnst mér meira í það varið en einhverja tölu dregna úr rassgatinu á manni. Þegar maður hugsar það þá er svo ljóðrænt að geta híft sjálfan sig upp. Það sýnir bæði í myndlíkingu og í alvörunni að maður getur borið eigin þyngd. Að maður standi undir sjálfum sér. Það er nú ekkert smávægilegt.
Þegar að svona stórum hlutum kemur þarf að hafa frammistöðumarkmið. Þannig er ekki nóg að langa til að gera eitthvað, það þarf að setja niður hvað maður ætlar að gera til að ná markmiðinu.  Til að geta híft sig upp þarf maður að stunda líkamsrækt af staðfestu og maður þarf að létta sig. Það gerir maður svo með að mæta fjórum sinnum í viku í ræktina og borða innan hitaeiningamarka. Það gerir maður svo með því að skipuleggja tíma sinn þannig að ræktargallinn sé tilbúinn á morgnana og matseðiillinn skipulagður. Það gerir maður svo með þvi að leggja smá tíma á hverjum degi í að framkvæma. Það er fínt og dandý að segjast ætla að léttast um 50 kíló og geta híft sig upp, en er búið að plana daglegu verkefnin sem þarf að takast á við til að markmiðin verði að raunveruleika? 
Svona var þetta þegar ég byrjaði að hlaupa. Ég hefði aldrei trúað því að það væri eitthvað sem ég gæti gert. Og í hvert skipti sem ég reimdi á mig skóna og lagði af stað fylltist ég af vantrúartifinningu um að þetta væri í alvörunni ég sem væri hlaupandi. En ég lagði á mig vinnuna, ég tók öllu litlu daglegu skrefin sem eru nauðsynleg til að ná stærra markmiðinu og innan skamms hafði ég tekið þátt í 10 km hlaupi. Engin ástæða til að halda að ég geti ekki gert slíkt hið sama með upphífingar. 

sunnudagur, 13. mars 2016

Af salsa og sósu

Ég fór til London á miðvikudagskvöld eftir vinnu til að eyða þar nokkrum dögum við drykk, dans og dufl með sálsystrum mínum. Það er alltaf jafn gaman að koma til London, ég fer þangað nokkuð reglulega og Ástu minni tekst alltaf að sýna mér eitthvað nýtt og skemmtilegt. Í þetta skiptið var það Borough Market sem er náttúrulega bara svona mekka fyrir okkur mataráhugafólkið. Ég gæti í alvörunni eytt heilu dögunum við bara að rölta á milli grænmetis, osta, krydds og kruðerís og skoðað, andað að mér loftinu og notið þess að smakka og fá hugmyndir að nýjum uppskriftum. Ég keypti mér líka forláta nestisbox sem er svo núna búið að veita mér andríki til að búa til alveg nýtt salat og salatdressingu tilbúna fyrir morgundaginn. 
Ég tók mér náttúrulega alveg frí á meðan á London dvölinni stóð. Ég hafði ákkúrat klárað fyrsta hlutann af lyftingaprógramminu þannig að það var eiginlega bara flott að taka smá re-load pásu og byrja svo aftur alveg fersk á morgun í nýja prógramminu. Ég taldi engar hitaeinigar og fékk mér bara það sem mér sýndist og þó svo að ég hafi nú ekki neitt farið yfir strikið í neinu þá voru kolvetni í heldur stóru hlutverki ásamt áfengi sem er ekki vanalega á matseðlinum. Og ég þyngdist um 2.1 kíló. Ég hef engar áhyggjur af því. Veit að þetta er bjúgur og salt og rauðvín og fer auðveldlega þegar ég kemst aftur í svíng. Partýinu er reyndar alls ekki lokið strax því ég er svo að fara út að borða og svo að sjá Ed Byrne í kvöld. Já, það er líka menning hér í útnáranum Wrexham. 
Eitt tók ég til mín í London og það er að mig langar til að læra að dansa. Mig vantar að bæta aðeins cardio hreyfingu inn í prógrammið mitt og langar til að gera eitthvað sem er öðruvísi og skemmtilegt en er líka áskorun fyrir mig. Ég hef engan áhuga á neinum af tímunum í ræktinni, nema kannski spin en það er líka svona bara meh af því að ég get frekar bara hjólað sjálf úti. En dans virkar á mig sem meira svona alvöru hæfileiki til að hafa. Ég er alveg hrikalega lélegur dansari og það gæti því verið eitthvað sem ég get notað sem svona ´out of comfort zone´ æfingu. Og lært eitthvað nýtt í leiðinni. Ég þarf stanslaust á því að halda að krydda upp í lífinu hjá mér. Ég verð leið á hlutum fljótt og hef bara lært að það er tilgangslaust að hafa áhyggjur af því eða reyna að þröngva sjálfa mig til að ´stick with one thing!´ Það er bara ekki ég. Nú er það bara að finna einhvern Antonio sem getur kennt mér! 

laugardagur, 5. mars 2016

Af höfrum

Ég var beðin um uppskrift af yfirnótthöfrum um daginn. Ég á alltaf í jafn miklu klandri með uppskriftir, ef ég gæti í alvörunni ekki bara skrifað niður það sem ég elda heldur líka munað hvert ég þá setti miðann væri ég sjálfsagt búin að gefa út uppskriftabók. Ég gerði heiðarlega tilraun til að halda þessu til haga hér á blogginu en bara get það ekki. Ég er ekki nógu flínk tæknilega til að gera þetta almennilega. Svoa þar sem maður linkar yfir á fína uppskrift og alltaf hægt að finna allt aftur. Kannski að ég ætti að íhuga að flytja bloggið yfir á betri vefþjónustu, og gera eitthvað almennilegt úr þessu?
Allavega, yfirnótthafrar er morgunmaturinn sem ég kem alltaf aftur að, svona eins og haframúffurnar mínar. Það er í raun engin uppskrift, þetta eru bara hafrar og vökvi sem fá að mýkjast yfir nótt og borðaðir kaldir daginn eftir. Svona eins og kaldur hafragrautur í raun. En bara miklu, miklu betra. 
Grunnurinn fyrir mig er 40 grömm af tröllahöfrum. Ég er ekki hrifin af að nota grautarhafra því þeir verða of ´mushy´. Svo nota ég alltaf öðruvísi mjólk. Semsagt möndlu eða kókos eða heslihnetu eða eittvhað þannig. Venjuleg mjólk gefur bara ekki sömu dýpt í bragðið. Passa bara að nota ósætar útgáfur. Ég veit ekki hvað ég nota mikið af mjólkinni, ég læt bara rétt fljóta yfir hafrana því ég vil hafa grautinn þykkan. Hér kemur persónulegur smekkur inn. Ég hef séð fólk nota upp undir 160 ml í 40 grömm sem mér finnst of mikið. Eftir þetta er grauturinn ómálaður strigi sem hvað sem er má setja út á. Grísk jógúrt, Kanill og rúsínur, vanilludropar og kókósmjöl, sulta og jarðaber, pekanhnetur og maplesyrup, epli og múskat, gulrætur og kanill.... Bara hvað sem manni dettur í hug. 

Stundum bý ég líka til svona fancy útgáfur. 
30 g léttur rjómaostur hrærður með 6 g PB2 (eða 10 g hnetusmjör) og 2 g hlynsýrop og sett í botninn á skál. 40 g hafrar, mtsk mjólk, tsk sukrin púðursykur og vanilludropar hrært saman og sett ofan á rjómaostinn. 100 gr grísk jógúrt og 5 g súkkulaði þar ofan á og í fyrrmálið fæ ég hnetusmjörssúkkulaði ostaköku í morgunmat fyrir 280 hitaeiningar. Það er ástæða til að vakna ef ég hef einhverntíma heyrt slíka!


Af vigtinni

Á föstudögum er sérlega gaman að vera ´management´ í Bretlandi. Þá er casjúal friday og við sem vanalega þurfum að mæta í drögtum og jakkafötum fáum að sitja við skrifborðin okkar í gallabuxum og bol. Sumir jafnvel mæta í peysum sem lýsa yfir stuðningi við hitt og þetta fótboltalið og skemmtilegar umræður skapast á meðan að sumir nota tækifærið til að vera kreatív og sýna persónuleikann með björtum litum eða stuttum pilsum. Sjálf nota ég oftast tækifærið til að vera bara í örlítið þægilegri skóm. Ég er hrifin af ´business wear´ og á fullt af fallegum fötum sem eru fín en samt töff. Í gær ákvað ég reyndar að vera alveg afslöppuð og fór í grænu buxurnar sem ég rétt gat hneppt hérna fyrir nokkrum vikum. Smeygði mér hreinlega í þær eins og ekkert væri sjálfsagðara og var í þeim allan daginn í vinnunni. Alla vikuna var ég búin að vera löng og mjó, tilfinningin í líkamanum af léttleika og styrk eins og ég væri bambusstöng. Ég kláraði fyrsta hluta af þremur af lyftingaprógramminu mínu og hafði bætt í þyngdir allstaðar. Á fimmtudag og föstudag hefði ég frekar kosið að vera bara áfram í ræktinni frekar en að fara í vinnunna, hefði getað haldið áfram að lyfta allan daginn. Ég hélt mig innan hitaeiningamarka, mældi próteinið og og laug engu. Ég var meira að segja farin að gæla við að setja inn nýja mynd hér til hliðar. 
Þegar ég svo vaknaði í morgun fann ég þyngslin í líkamanum og vissi án þess að stíga á vigtina að ég hefði ekki misst eitt einasta gramm. Ég var þunglamaleg og með krampa frá rassi niður í tá. Og það var eins og ég hélt, 500 grömm upp á við. 
Og það er merkilegt að fylgjast með hugsanaferlinu sem fer í gang. Fyrir utan ´afhverju????´ þá finnst mér merkilegast hversu fljótt það kemur að segja bara ´fokk it´ ég borða þá bara. Ég er greinilega aumingi sem á aldrei eftir að takast þetta, þrátt fyrir það sem lagt er í, þá er ég bara ræfill og lúser og ég á bara að vera feit og ég get þetta ekki og ég get þetta ekki og ég. Get. Þetta. Ekki. Í fjórar sekúndur leyfi ég mér að hugsa svona. Leyfi mér að velta mér upp úr sjálfsvorkun og misery og gæla við fantasíur um allt sem ég ætla þá bara að borða. Þetta er hugsunarháttur sem er sérstakur fyrir fitubollur og er í raun og veru bara formálinn að því að veita sjálfum sér leyfi til að éta eins og bestía; ég er hvort eð er aumingi, best að borða bara þessa súkkulaðiköku. En ég er ekki ekki þannig lengur. Ég þarf ekki að gefa sjálfri mér leyfi. Og ég er svo sannarlega enginn aumingi. Ef mig langar til að borða súkkulaðiköku nú, þá geri ég það. En ekki í refsingarskyni fyrir að vera veiklunda. Súkkulaðikökur borðar maður af gleði, ekki af sorg. 
Ég bý þessvegna til þá skýringu að ég sé hreinlega svo mikill vöðvamassi að í þessari viku hafi ég bætt á mig vöðvum án þess að tapa mikilli fitu. Ég strýk yfir viðbeinin mín sem standa út. Ég hnykla byssurnar. Ég tala við fólkið mitt, fólkið í mínu horni. Og ég minni mig á að ég var í buxunum. Ég var í fokkings buxunum.