þriðjudagur, 24. apríl 2012

Það var alveg mega lélegt hlaupið mitt í dag. Prógrammið sagði 45 mínútna þægilegt hlaup og ég festi hausinn eitthvað of mikið í "þægilega" gírnum og hljóp eitthvað minna en ella og labbaði aðeins of mikið. Ég ætlaði eitthvað smávegis að skamma sjálfa mig fyrir en svo datt mér í hug að það er jú, samkvæmt minni eigin heimspeki betra að gera eitthvað en ekki neitt, og í ofan á lag þá kemur dagur eftir þennan og ég get alveg reynt aftur á morgun. Ég var bara eitthvað annars hugar í dag. Enda mamma og pabbi að koma í heimsókn og ég farin að hlakka all svaðalega til. Það er alltaf svo gaman að fá þau hingað, við gerum alltaf eitthvað skemmtilegt fyrir utan að mér finnst einfaldlega alltaf best að vera í millinu hjá þeim. Það hefur bara ekkert elst af mér.

Það er líka alltaf gaman að fá sendingar frá Íslandi. Ég man þegar ég flutti hingað fyrst þá var listinn langur; allskonar súkkulaði, Lindu buff, flatkökur og normal brauð, puslusinnep, remúlaði og sveppasmurostur, harðfiskur og söl, SS pulsur, hangikjöt og súpujurtir, krossgátur... núna er listinn eiginlega bara harðfiskur. Lakkrís og söl ef fólk nennir en ekkert nauðsynlegt. Harðfiskurinn er það eina sem ég get bara ekki lifað án. Enda held ég að það finnist ekki betri heilsuvara en harðfiskur. Ætli þetta þýði að ég sé minni Íslendingur orðinn? Ég veit að ég er meira pirruð á Íslendingum núna en ég var, ég á miklu auðveldara með að sjá það sem er að í fari okkar Íslendinga en ég gerði áður. Hversu hrokafull við erum en eigum sjaldnast inni fyrir því. Hversu  hjákátleg hún er þessi sannfæring okkar um að við séum miðja alheimsins. Hversu rangt við höfum fyrir okkur þegar við segjumst vera heimsborgarar. Hversu mikill misskilningur það er að við vinnum mikið og langan vinnudag á miðað við aðrar þjóðir. Ég verð stundum voðalega pirruð.

En svo man ég eftir harðfiski og hætti að vera pirruð. Mikið sem harðfiskur er góður.

sunnudagur, 22. apríl 2012

"Every line crossed, every mission accomplished" stendur á hliðinu sem maður fer í gegnum þegar maður kemur í mark í London Maraþoninu í ár. Ég er að horfa á allskonar fólk koma í mark eftir að hlaupa af allskonar ástæðum og á allskonar tíma. Það hlýtur að vera ótrúleg tilfinning að komast í það mark. Ég finn ekki neina sérstaklega löngun til að taka þátt, ég finn það að ég er búin að "fara yfir mína línu" með að hlaupa 10 km. Það var einhvern veginn nóg fyrir mig til að sanna fyrir sjálfri mér hversu langt ég hef náð. Og þó ég haldi áfram að bæta við mig, reyni að hlaupa hraðar og haldi áfram að skora á sjálfa mig með að reyna við nýjar áskoranir (ég ÆTLA að klífa vegg einn þessara daga) þá þarf ég ekki á því að halda að sanna neitt. Engu að síður þá var voða gaman að hlaupa í morgun, með hugann við fólkið í London. Ég fór rétt tæpa 8 km með nokkrum valhoppum á meðan fólkið frá Kenýa fer 42 km á tveimur tímum. Enginn munur.

Ég er búin að léttast heilmikið þessa viku. Það hefur komið svona nokkuð náttúrulega; ég hef misst áhugann á mat. Ég geri mér engar gyllivonir um að það endist eitthvað, ég get ekki ímyndað mér annað en að ég verði byrjuð að skoða uppskriftir, prófa, hanna, hugsa um og elda mat innan skamms. En ef satt skal segja þá er ég himinlifandi. Ég vakna á morgnana, hendi samloku og jógúrtdós í nestisboxið mitt og fer í vinnuna. Svo borða ég það þegar ég verð svöng. Þegar ég kem heim á kvöldin elda ég það sem er til, og borða þangað til ég er södd. Ég ímynda mér að svona lifi venjulegt fólk. Þetta er voðalega skrýtið. Hingað til hef ég þurft að plana allt. Og það að plana sex máltíðir á dag þýðir að ég er stanslaust hugsandi um mat. Ég hef alltaf haldið að það að plana ekki myndi þýða að ég myndi bara éta allt sem tönn á festir, að ég myndi láta undan óseðjandi hungrinu mínu. En það virðist sem svo að ég sé ekki botnlaus. Ég er loksins orðin södd. Og ég hef ekki hugmynd um af hverju. Ef satt skal segja þá langar mig ekki til að rannsaka. Ég vil bara njóta á meðan varir. Sem þýðir lélegt blogg, en góð Svava Rán.

miðvikudagur, 18. apríl 2012

Mér fannst vera kominn tími til að prófa að hlaupa í stuttbuxum. Mér finnast þær svo pró. Skellti mér í þær eftir vinnu og lagði af stað. Ég var voðalega fegin að mér finnst súper dúper gott að hlaupa í þeim, hafði ægilega á tilfinningunni að ég myndi nudda saman lærum þannig að ég myndi meiða mig en það var ekki. Læri eru enn aðskilin. Mér fannst ég vera tilskyld til að hlaupa aðeins hraðar líka svona til að gangast upp í ímyndinni. Að öðru leyti var ekki mikið öðruvísi við búninginn en vanalega. Engu að síður þá fékk ég sjö bílflaut, tvö "vúhú!" og eitt thumbs up. Fyrir utan thumbs up sem var frá eldri konu þá komu lætin frá karlmönnum. 

Ég skil þetta ekki alveg. Ég er ekki alveg nógu flott til að fá svona aðdáunarflaut frá ókunnugum. Ég er líka aðeins of gömul held ég. Mér datt í hug að kannski aftanfrá, með sítt taglið væri hægt að halda að ég væri yngri og flottari framan frá, en samt ekki. Ég held að fjóluhvítt litarhaftið og hálfrakaðir leggirnir komi upp um mig.

Gömul skelfing tók sig þá upp. Hvað ef það er verið að flauta til að gera grín að mér? Mér finnst sjálfri ég ekki alveg nógu feit til að fá neikvætt bílflaut. Engu að síður þá varð ég voðalega meðvituð um allar mínar misfellur og klumpa allan tímann sem ég var að hlaupa. Ég hef verið í þeirri aðstöðu að fá að heyra hvað ég sé feit og hrikaleg og veit hvað fólk getur verið ógeðslega dónalegt að ástæðulausu. Það er ekkert jafn ömurlegt að fá skítkast frá ókunnugum fyrir það eitt að vera feitur. Ekki man ég eftir því að hafa hossa mér á fólki svona til að kæfa það eða neitt. En samt sáu sumir ástæðu til að æpa á mann að maður væri feitur. Eins og ég hafi ekki tekið eftir því. 

Ég er ægilega hissa á þessum viðbrögðum mínum. Ég var algerlega sannfærð um að ég væri svo sjálfhverf og ánægð með mig að ég myndi bara getað tekið bíbinu sem hrósi. En eitthvað eru gömul særindi að dingla sér í heilanum á mér. Eiginmaðurinn var reyndar sannfærður um að ég hafi skilið eftir slóð brostinna hjarta á milli Chester og Wrexham. Hann er kannski ekki alveg dómbær á það. En samt. Er ekki best að trúa honum bara? 

sunnudagur, 15. apríl 2012

"Tár, bros og keiluskór."
Það var náttúrulega ekki annað hægt en að halda upp á nýju vinnuna. Fyrir einhverju síðan hefði ég fengið mér í glas, farið fínt út að borða, gert eitthvað þannig. En nú er ég gömul kjélling og fjölskyldumanneskja þannig að maður þarf að sníða stakk eftir þeim vexti. Við ákváðum að prófa að fara í keilu. Lúkas og Dave hafa aldrei farið, ég kannski einu sinni eða tvisvar og það fyrir fimmtán árum. Enn og aftur verð ég agndofa yfir því hvað allt er auðveldara þegar maður er í betra formi. Meira að segja einfaldur leikur eins og keila verður léttari og skemmtilegri. Allar hreyfingar auðveldari. Við Dave skemmtum okkur konunglega, Lúkasi fannst þetta aðeins of erfitt. Hann er allt of mikill fullkomnunarsinni. Ég er svo allt of mikil keppnismanneskja, það sauð á mér af því að ég tapaði. (Næ honum næst.)

"Lífstílsbloggari gripinn við að graðga  í sig hammara!"
Við fórum svo á Frankie & Benny´s og fengum okkur djúsí borgara. Frankie & Benny´s er fjölskylduvænn ítalsk-ammrískt þemaður diner þar sem maður fær risa skammta af skyndibita í fínni kantinum. Akkúrat það sem mig langaði í. Ég fékk mér ægilegan kjúklingaborgara og franskar og naut í botn. Og þó að eftirréttirnir þar séu alveg svaðalegir þá langaði mig frekar í kaffi þannig að við enduðum skemmtunina á Starbucks með skinný latte. Ég var hæstánægð með að langa ekki í East Coast Sundae, enda búin með dagskammtinn af hitaeiningunum með borgaranum. Kvöldmaturinn var harðfiskbiti og vatn. Ég get bæði talið hitaeiningar og lifað góðu lífi. Þetta snýst um að finna þetta jafnvægi þar á.

Ég skrifaði um daginn um þetta fyrirbæri að fatta ekki að maður sé að fitna aftur. Maður hefur séð þetta milljón sinnum, fólk grennist, er súper ánægt og með allt á hreinu en svo sér maður það næst og það er búið að fitna aftur. Og meira til. Maður hugsar með sér hvernig gat þetta gerst, hvernig gat hún leyft þessu að gerast? Ég hef gert þetta sjálf. En ég er búin að fatta þetta núna. Það er einhvern vegin með þetta að maður þarf stanslaust að læra sömu hlutina upp á nýtt aftur og aftur. Það er eins og viskan og uppgötvanirnar sem maður gerir og öll þessi "aha!" andartök bara stoppi ekki við í heilanum á manni. (Hugsanir um súklaði taka of mikið pláss.) Þegar ég byrjaði fyrst í mars 2009 taldi ég hitaeiningar. Í fyrstu borðaði ég það sem ég hélt að mér þætti gott en hélt mér bara innan vissra hitaeiningamarka. Svo fór ég að velja hitaeiningarnar mínar af meiri kostgæfni og svo enn betur og svo komu allar þessar pælingar um næringarefni og súperfæði, sykurleysi og allt það. Um daginn ákvað ég að byrja aftur að telja hitaeiningar. Ég hafði týnt mér aðeins eftir sykurleysið og vantaði fastan byrjunarpunkt. Ég ákvað að borða bara hvað sem mig langaði í, en innan vissra hitaeiningamarka. Fór og keypti mér ægilega fínt granóla með súkkulaði og macadamia hnetum. Næstum fjögur pund pakkinn, lífrænt og mannvænt og endurunninn kassinn og fairtrade og ég veit ekki hvað. Ég taldi út að 30 gramma skammtur myndi kosta mig 170 hitaeiningar. Með 200 grömmum af fitulausu grísku jógúrti væri ég komin með fínan morgunmat, prótein og kolvetni. Í þrjá morgna borðaði ég þetta. Og engdist um að hungri. 30 grömm af granóla með súkkulaði og macadami hnetum er nefnilega ekki upp í nös á ketti. Þetta er rétt um ein matskeið. Á fjórða degi gafst ég upp. Vigtaði út 30 grömm af haframjöli, eldaði með vatni og saltklípu, bakaði eplasneið með kanil og setti út í. Kældi niður og setti jógúrt út á. Gamli góði hafragrauturinn minn. Og hugur, magi og hjarta sungu englasöng af hamingju. Ég södd og fullnægð langt fram yfir hádegismat og hafði notað sama hitaeiningamagn og hina þrjá dagana. Þetta hafði ég sko uppgötvað snemma í mars 2009. En þurfti að fatta þetta upp á nýtt. Og þannig förum við af því að fitna aftur. Maður fyllist hroka og heldur að maður viti þetta allt. Að það sé ekkert sem maður hafi ekki prófað. Að það sé ekkert sem enginn getur sagt manni eða kennt manni. En svo kemur í ljós að það er endalaust hægt að læra eitthvað nýtt. Meira að segja það sem maður hafði lært áður.

laugardagur, 14. apríl 2012

Asics Gel Kayanos 17 og Nike Dri-Fit Compression sokkar.
Ég hef sjálfsagt enn verið eitthvað æst eða upprifin því ég spratt upp sem fjöður rétt eftir sex í morgun. Strákarnir mínir báðir enn hrjótandi þannig að ég ákvað að fara út og prófa nýju hlaupaskóna mína. Ég hafði lagst í þónokkrar rannsóknir áður en ég valdi að kaupa mér Asics Gel Kayano 17. Það er reyndar komin út 18 líka en dómarnir um þá sögðu litlar breytingar frá 17 gerðinni þannig að ég sá ekki ástæðu til að borga meira fyrir aðeins nýrri hönnun. Samt. Ég hef aldrei borgað svona mikið fyrir hlaupaskó áður. Ég er "over pronator" og þarf stuðning ásamt þvi að vera algerlega með flatan fót. Ég þarf líka að taka tillit til að vera þung og skoða skó með það í huga. Eftir mælingar, pælingar, mátanir og japl, jaml og fuður mikið ákvað ég að kaupa þessa. Asics af því að ég hef alltaf átt asics og bara vil ekki prófa neitt annað. Síðustu skórnir sem ég fékk voru hannaðir með utanvega hlaup í huga, þeir eru með grófum botni og eru regnheldir og svona meira solid. Góðir en dálítið þungir. Skórnir þar á undan, Asics GT2160 voru geðveikir. Ég fór í þá og frá fyrsta hlaupi var eins og þeir hlypu fyrir mig. Ég spændi þá upp að lokum, er búin að hlaupa rúma 250 kílómetra í þeim. Ég borgaði næstum helmingi meira fyrir Kayano skóna en fyrir GT parið. Og verð að viðurkenna að ég varð fyrir örlitlum vonbrigðum. Kannski þarf ég að venjast þeim. Var nú samt að vonast eftir þessari sömu tilfinningu og þegar ég fyrst fór í GT parið og leið eins og ég væri á flugi. Gefum þeim aðeins sjéns.

Það var líka erfitt að hlaupa í dag. Læri voru stirð og þreytt og ég var í gömlum brjóstahaldara þannig að ég var bara út um allt. Hausinn alveg í lagi í dag. Þetta voru einungis líkamlegir erfiðleikar. Og ég komst að mikið merkilegri fílósófískri niðurstöðu. Þegar hausinn er í lagi get ég þröngvað líkamanum til að gera ótrúlegustu hluti, alveg sama hvað hann kvartar og kveinar. En þegar hausinn neitar að leika er nánast útilokað að gera nokkurn skapaðan hlut, meira segja þó líkaminn sé fír og flamme. Þetta er ALLT í hausnum á manni. Þannig að ég hljóp upphitunarkílómetrana, spretthlaup upp brekku, spretthlaup á flötum velli og svo 20 mínútur fartlek. Allan tíma vældu læri og brjóst en ég hló bara að þessum aumingjaskap. Það er nefnilega alveg lífsnauðsynlegt að komast í gegnum þessar erfiðu æfingar. Því að þegar maður kemst í gegn um þær og svo næst þegar maður fer út lendir maður kannski í góðu hlaupi. Þessu þegar hjarta og heili vinna saman. Þegar fætur og andardráttur eru í fullkomnum takti. Þegar maður getur hlaupið og hlaupið og hlaupið. Þegar maður slekkur á heilanum og ekkert kemst að annað en næsta fótatak, næsti andardráttur. Og eitt og eitt erfitt hlaup er sko þess virði til að komast í þetta góða.

föstudagur, 13. apríl 2012

Það er mikið gaman frá því að segja að með vinnu, dugnaði, eljusemi og öðru sem vinnuveitendur kunna að meta þá fær maður að lokum stöðuhækkun. Já, ég er loksins, eftir rúm tvö ár hjá Lloyd´s Banking Group, komin í alvöru stöðu. Ég er orðin deildarstjóri og sé um hóp starfsmanna sem finnur auðveldari greiðsluleiðir fyrir vanskilaskuldara. (ef það er orð.) Eða eitthvað á þá leið. Eftir nokkuð stress, próf og viðtal fékk ég starfið. Yfirmaður minn var búin að leggja inn gott orð fyrir mig en að mestu leyti þá fékk ég starfið vegna þess hversu vel ég hef staðið mig í minni núverandi stöðu. Já, það er víst með það eins og annað; ef maður leggur á sig vinnu þá að lokum uppsker maður sem maður sáir. Ég hugsa bara vart að ég gæti verið ánægðari, alvöru staða á framabraut. Jess!

Bar Excellance!
Þrátt fyrir að eyða vikunni í að bíða eftir að fá að heyra góðu fréttirnar hefur mér tekist vel að telja kalóríur og halda mig innan því sem ég tel að sé gott fyrir mig. Ég prófaði líka að borða gott súkkulaði. Ég hef löngum verið svag fyrir því að verða súkkulaði connoisseur. Mér finnst svo smart að borða dökkt súkkulaði, þefa af því, tilkynna eftir smá smjatt að hér sé um að ræða 80% kakómassa frá Ekvador, með vott af vanillu og jasmín og undirtón af eik og basil. Eða eitthvað þannig. Svo finnst mér það líka svo svakalega aðlaðandi þetta sem súkkulaði conniosseurs gera. Þeir fá sér EINN mola, smjatta og umla, og hætta svo. Einn moli af dökku, eðal súkkulaði á að vera nóg til að fullnægja sætindaþörfinni. Hingað til hefur þetta ekki virkað fyrir mig. Ég er bara algjört chav (white trash) þegar að súklaði kemur. Mér finnst best að borða bara sex Lion Bar. Það er að segja þangað til ég fann Lindt Excellence. Og sér í lagi þetta með vott af sjávarsalti. Dökkt, en sætt súkkulaði og svo öðru finnur maður fyrir saltkorni sem bráðnar og blandast saman við næstum biturt kakóbragðið. Og saltið dregur fram sætuna og einhverskonar fullkomnun á sér stað. Og það best af öllu er að það er í alvörunni nóg að fá einn mola. Gott kaffi, einn moli (smá pistastíur og ein daðla) og það er bara allt í lagi með mig. Allt í fínu lagi.

fimmtudagur, 12. apríl 2012

Ég sat hér í gærkveldi og gúgglaði eins og mófó. Hitt og þetta, mest megnis spurningar sem vakna hjá mér yfir daginn um holla lifnaðarhætti. Og ég rak mig á umræðu á "Runner´s World" þar sem það var varað við því að hlaupa á tómum maga. Að það að hlaupa á tómum maga væri ekki til að maður léttist heldur yrði það til þess að maður gengi á vöðvaforða frekar en fituforða. Og ég byrja að panikka. "Ég er að gera allt vitlaust, ekki nema von ég sé ekki að léttast, ó nei, ó nei, ó nei!"

En svo fór ég að spá í þessu. Málið er að ég hleyp oftast rétt um fimm leytið á morgnana. Ég brölti fram úr, bursta tennur og pissa og fer út. Ég hef hvorki tíma til né áhuga á að borða þá. Ég fæ mér staðgóðan morgunverð eftir hlaup. Á ég núna að hætta að hlaupa á eina tíma dagsins sem hentar mér vegna þess að vísindin segja að ég léttist ekki við það? Hvort er skárra að ég hlaupi þegar mér hentar af ástæðunni "ég hef gaman af því" eða ég hætti að hlaupa vegna þess að ég hef svo miklar áhyggjur af því að ég sé ekki að gera eins og vísindin segja?

Mér datt svo í hug öll þessi umræða um hvað maður á og á ekki að gera í líkamsrækt. Maður á að gera tabata og lyfta og bara hlaupa ef maður hleypur hratt og maður á að gera hitt og maður á að gera þetta. Ég stend sjálfa mig að því að fá samviskubit  þegar ég tek langt, rólegt hlaup. Samviskubit. Yfir því að hlaupa! Málið er að hvað öllum reglunum líður þá hlýtur alltaf að vera betra að gera eitthvað en ekki neitt. Í alvörunni. Hvað er ég eiginlega að nenna að gúgla þessu öllu saman? Ef ég ætla að vera hraust, hamingjusöm og halda áfram að minnka á mínum forsendum þá skiptir ekkert máli nema að gera það sem mér hentar. Eða eins og Jillian Michaels segir;"Count your calories, work out when you can, and try to be good to yourself. All the rest is bullshit." Gott. Einfalt.

þriðjudagur, 10. apríl 2012

Nýja dagbókin (já ég hugsa allt of mikið á ensku)
Það er ekkert leyndarmál að ég er búin að vera á smá ráfi að undanförnu. Sem betur fer ráfa ég nú samt aldrei of langt frá heilsunni og því sem ég hef lofað mínu æðra sjálfi. Með smá tilfæringum er ég aftur komin af stað. Ég eyddi heillöngum tíma á mánudaginn í "Plan". Náði mér í nýja vasabók, skoðaði hvernig vinnuvikan og móðurskyldur og ritgerðarsmíð litu út yfir vikuna og sneið æfingaplan og matarplan í kringum það. Ég fann það á laugardaginn þegar ég var úti að hlaupa að ég er farin að þyngjast örlítið og mér líkar það illa vegna þess að mér finnst ekkert jafn yndislegt og "hreystistilfinning" sem ég finn þegar ég er í góðu formi. Ég elska það að vera sterk og stinn. Og það þarf að vinna vinnuna sína til að fá að uppskera þá tilfinningu. Ég setti sjálfri mér þessvegna fjórar æfingar á viku sem eru "non-negotiable", þeas ég hef ekki val um hvort eða hvenær þær eru framkvæmdar. Þær eru inni í stundatöflunni jafn fastar og vinnutíminn og krútttími með Lúkasi. Ég meira að segja setti það niður á blað til að það færi ekki á milli mála. Og ég gat því ekki um skorist í morgun.

Veðrið hér í Bretlandi er jafn ófyrirsjáanlegt og á Íslandi og þó í síðustu viku hafi ég spókað mig um á hlírabol í tuttugu stiga hita þá er aftur komið hrollkalt haust núna. Þannig að þegar vekjaraklukkan hringdi klukkan fimm í morgun og vindurinn lamdi regni og trjágreinum í gluggann hjá mér í svartamyrkri varð ég voðalega glöð að ég hafi sett "án samningarétts" klausuna á þetta hjá mér. Það var ekki undan komist þó bólið hafi verið ósköp notalegt.Ég veit nefnilega hvað mér finnst gaman að hlaupa í myrkri og rigningu. Mér finnst ég vera svo svaðalegur nagli þegar ég geri það. Ég veit nefnilega líka hvað mér líður vel þegar ég hleyp. Ég verð alltaf jafn hissa og glöð yfir því að geta það. Og ég veit líka hvað ég liður vel þegar ég er búin. Tilhugsunin um að sitja í sjö klukkutíma á rassgatinu fyrir framan tölvu verður mun bærilegri þegar ég veit að ég er búin að leggja inn sjö kílómetra með sprettæfingum. Og það er sko á hreinu að eina æfingin sem maður sér eftir er sú sem maður gerði ekki.




mánudagur, 9. apríl 2012

Heimalagaður gulrótarsafi með karabísku ívafi. Gott að byrja daginn á svona gæðadrykk til að koma sér í stemninguna aftur. Sund og sveitaferð framundan. Voðalega er gott að vera í smá fríi.

sunnudagur, 8. apríl 2012

Páskadagsmorgun og eggjaleitinni lokið hér á heimilinu. Lúkas Þorlákur búinn að finna þrjú egg í mismunandi stærðum, tvö bresk og eitt íslenskt. Ég beið aðeins eftir að rigning breyttist úr slagveðri og í léttan úða áður en ég fór út að hlaupa. Ég hef ekki hlaupið í viku núna. Það er komið gott af pásu. Og enn og aftur kemur í ljós að ég gef sjálfri mér ekki nægilega mikið credit. Ég sá fyrir mér að eftir viku pásu myndi ég vera komin á byrjunarreit aftur, myndi sjálfsagt þurfa að byrja á byrjun á 5km prógramminu. En ég fór út og hljóp 4.3 km á 30 mínútum án þess að stoppa. Ég var hissa allan tímann. Ég skil ekki afhverju ég held alltaf að ég missi allt þol ef ég slaka svona á í nokkra daga. Ég skil ekki afhverju eftir allan þennan tíma held ég enn að ég sé veikur og stjórnlaus ræfill. Ég ákvað í huganum að ef ég færi 4 km á hálftíma þá myndi ég kalla þetta hlaup númer fjögur í 12 á 12 og skýra það "Með hausinn í lagi" hlaupið. Og það gekk eftir, ég náði því sem ég setti mér og get núna haldið áfram að gera mitt besta fram að hádegi.

Þar með breytti ég hugsun í verk. Ég ætla líka að sjá hvort ég sleppi ekki að stela mola frá Láka allavega þangað til eftir lamb. Mig langar ekki að skemma fyrir mér hádegismatinn með hugsunarlausu súkkulaðimauli. Ef ég fæ mér mola þá ætla ég að búa mér til kaffi, setjast niður í þægilegt sæti og smjatta á honum með gleðilátum. Og halda svo bara áfram. Sko, tvær hugsanir orðnar að verki í dag. Er ekki kominn rífandi gangur á þetta?

laugardagur, 7. apríl 2012

Hvatningar kúrfan (Heimild)
Það virðist sem það sé heilmikil list falin í því að taka sér pásu. Án þess að líða eins og ég sé vond manneskja eða léleg. Ég er að reyna að sanna fyrir sjálfri mér að ég sé ekki búin að klúðra þessu öllu ef ég hleyp ekki í nokkra daga. Það hefur reynst þrautinni þyngri. En málið er að ég er smávegis útbrennd og mig vantar að hlaða batteríin á annan hátt en að fara út að hlaupa og ég ætti að geta leyft mér það án þess að lamast úr samviskubiti. Það sem angrar mig er hversu fljót ég er að setja veiðileyfi á Cadbury´s deildina í Kaupfélaginu um leið og ég slaka á í hreyfingunni. Hversu lélegar ákvarðanir hvað varðar mat ég hef tekið að undanförnu. Súper lélegar.


Málið er að það er óhjákvæmilegt á svona langri leið að maður komi ekki að tímabilum þar sem afturför er allsráðandi. Það er bara eðlilegt. Það sem skiptir máli er hvernig maður tekur á því. Fólk sem nær árangri notar svona tímabil sem hvatningu til að endurvekja áhugann og til að fínpússa markmiðin. Það sem maður þarf að gera er að finna það sem olli stoppinu og reyna að nota það til að læra af því. Til dæmis að nota það sem tækifæri til að breyta planinu. Og það ætti að vera til þess að skerpa einbeitninguna og koma manni aftur í gang. Þetta er munurinn á að gefast bara upp ef maður étur aðeins of mikið í eina máltíð eða sleppir nokkrum æfingum og hellir sér þá bara aftur út í fjölskyldustærð af KFC og líter af Ben og Jerry í morgunmat og á okkur sem þurrkum súkkulaðið af hökunni og höldum svo bara áfram. 


Það sem ég get ekki séð út núna er hvort þetta er tímabundið "setback" eða hvort ég sé að slaka of mikið á. Ég finn einhvern veginn ekki milliveginn á að hugsa með mér að ég sé í gallabuxum númer 14, get hlaupið 10 km og klifrað efst upp í klifurgrindina á róló og er þessvegna bara fín og get alveg tekið pásu frá hollum lifnaðarháttum og byrjað svo bara aftur, og því að langa til að halda áfram að léttast og fara í stresskast þegar ég tek svona pásu vegna þess að hungrið inni í mér er óseðjandi.


Þarf ég kannski að endurmeta markmiðin mín? Hversu mikið vil ég ná þeim? Má vera að ég sé kannski bara búin að missa áhugann á að léttast? Ég er búin að ná mér niður í nokkuð lifanlega stærð. Ég er líka búin að ná að hlaupa 10 km. Ég las einhverstaðar að ef markmiðin hafa litla merkingu fyrir manni eða eru manni ekki mikilvæg þá er auðvelt að tapa áhuganum. Elemental myndi ég segja. Kannski er það að léttast bara ekki mikilvægt fyrir mig á þessum tímapunkti. Akkúrat núna þarf ég að einbeita mér að vinnunni og náminu. Ég á eina ritgerð eftir í Masterinn. Eina. Og ég er svoooooona nálægt alvöru stöðuhækkun í vinnunni. Kannski er bara eðlilegt að ég sé að einbeita mér að því. Það sem angrar mig aðeins hér að að ég geti ekki unnið að stöðuhækkun OG haldið áfram að afþakka kex í tíu kaffinu. 


Ég ætla því að taka þessu öllu hálfan dag í einu. Stundum er bara of mikið að horfa á allt sem þarf að gera í einu. Stundum er þetta allt saman bara manni ofviða. Þannig að ég ætla að taka daginn frá átta til tólf og gera mitt besta í öllum þáttum lífsins. Svo reyni ég bara að gera mitt besta til að halda áfram að gera mitt besta. Akkúrat núna virðist þetta vera málið. Stressið í vinnunni, í náminu, í lífstílnum, allt er að verða of mikið fyrir mig. En það er hægt að gera sitt besta hálfan dag í einu. 

Það hefur alltaf reynst mér vel að einfalda hlutina. Ég á það til að laðast að öfgum og ég skal alveg viðurkenna að á mínum dimmu og dökku stundum, í rökkurtímanum mínum, þegar ég er búin að eyða heilum degi í slæmar ákvarðanir þá byrja hugsanirnar sem segja að ég þurfi að; "hætta ÖLLU", kaupa mér svitagalla, fasta, hlaupa meira, éta ekki neitt, refsa, refsa, refsa. En það eru einföldu lausnirnar sem virka. Í staðinn fyrir að horfa á Grey´s Anatomy, skrifa 500 orð. Í staðinn fyrir smjör og ost á þýska brauðið, nota bara ostinn. Þessar litlu breytingar eru varanlegar og vænlegar til árangurs. Ég á þetta alltof mikið til, ætla að hætta ÖLLU á mánudaginn. Þegar ég veit að það sem virkar eru litlu hlutirnir. 


Rannsóknir sýna að það að taka ákveðið skref fram á við, í átt að markmiðinu, hversu lítið sem það er gefur manni ástæðu og hvatningu til að taka það næsta.Ég ætla að nota trix úr sjálfhjálpardeildinni. Ég hef í hyggju að skrifa niður hvað það er sem er að halda aftur af mér núna og hvað ég tel að myndi hjálpa mér til að taka skref í átt að markmiðunum en ekki frá þeim. Meira að segja ef lausnin er að breyta þessum markmiðum. Svo ætla ég að skoða listann og gera eitthvað af honum. Breyta einni hugsun í verk. Sjá svo til hvort það komi mér af stað. 


Hugsun í verk. Þetta líkar mér. 

þriðjudagur, 3. apríl 2012

Tvisvar sinnum áður á ævinni hef ég náð að léttast eitthvað svo um munaði. Ég tók 9.bekk (sem þá var síðasta árið í grunnskóla, ég var síðasti árgangurinn sem aldrei fór í 10. bekk) í kalórítalningu, nokkuð stíft eróbikk (sem þá var "cutting edge" hreyfing) og breytti hugarfari þó nokkuð hvað varðaði þáttöku í íþróttaiðkun svona almennt. Þangað til þá hafði ég frekar kosið lestur góðra bóka en að vera eitthvað að anda að mér mikið fersku lofti. Ég léttist heilmikið og þegar að skólaferðalagi um "Norðurfirði", eins og ég kaus að kalla þann hluta landsins sem heim var sóttur, kom var ég ekki mikið feitari en vinkonur mínar. Svo fór ég í menntó, borðaði pizzur, reykti og drakk (og skemmti mér konunglega). Ég get ekki bent á neinn tímapunkt þar sem ég tók eftir því að ég hafði fitnað aftur. Ég veit bara að þegar ég var í öðrum bekk var ég aftur orðin feit. Ég man alls ekki fyrir mitt litla líf eftir neinu millibilsástandi. Ég man ekki eftir að hafa hugsað að einhver föt pössuðu ekki lengur, eða að ég þyrfti að fara að passa mig eða neitt. Eina stundina var ég þvengmjó í sundi á Sauðárkrók að fagna því að vera búin með grunnskóla, næsta sem ég veit er að ég er feit í menntó. Badabúmmbadabing.

Næst tók ég svo á því þegar ég er í háskóla. Fór í einkaþjálfun, borðaði undir 1200 kalóríum á dag í næstum ár og léttist heilmikið. Svo mikið að ég var sannfærð um að það væri orðið í lagi með mig. Að ég væri læknuð. Ég stundaði lyftingar og sund og fannst ég vera ægilega hraust. Ég var reyndar banhungruð en ég var mjó. Og svo man ég ekki meir. Eina stundina var ég þvengmjó í heimsókn hjá José Manuel í Madrid, þá næstu var ég rorrandi um í spiki á Hornafirði. Og ég tók aftur ekki eftir nokkrum sköpuðum hlut. Ég sé ekkert millibils ástand, alveg sama hvað ég hugsa stíft um þessi tímabil. Ég var mjó (ish), svo var ég feit.

Ég hef engan áhuga á að fljóta svona sofandi að þeim feigðarósi aftur. Þannig að þegar svona helgar koma þegar ég borða meira en æðra sjálfið þarf á að halda klíp ég aðeins í sjálfa mig. Þegar ég borða þannig að ég sé gömlu Svövu Rán speglast í ísskálinni, þegar ég borða þannig að ég fæ ónot í magann þá minni ég sjálfa mig á að setjast upp og taka vel eftir. Minni sjálfa mig á að fylgjast vel með svo ég meðvituð um hvað ég sé að gera. Ég hef engan áhuga á að vakna upp einn daginn orðin 140 kíló.

Þetta er mikil rússíbanareið þetta stúss allt saman. Þessi síðustu þrjú ár hef ég tekið mig á, lést mikið, ráfað svo aðeins og tussast svo aftur af stað. Ráfað svo meira, væflast um en komið mér af stað aftur. Að miklu leyti má segja að ég hafi verið í jójó megrunarkúr.Akkúrat núna er ég á ráfi. Og hluti af sjálfri mér er skelfingu lostin að ég vakni upp 140 kíló.  Það er svo auðvelt að gleyma sér, og það er svo auðvelt að festast í hugarfari sem segir að þetta sé keppni, að það sé verið að taka tímann með skeiðklukku, að maður þurfi að komast í mark, að maður þurfi að "klára dæmið". Og ég ætla að halda áfram að vera meðvituð og taka eftir því hvað ég er að gera.

En ég neita að leyfa skelfingunni að taka yfir. Það stendur enginn með skeiðklukku og vigt yfir mér. Skelfingin þjónar engum tilgangi nema að þrýsta mér út í 1200 kalóríur og hungur. Svo lengi sem ég er vakandi og þjóna æðra sjálfinu mínu þá er ég að gera rétt. Hversu langan fokkings tíma sem þetta tekur mig.

sunnudagur, 1. apríl 2012

Mark Knopfler hringdi. Hann vill fá svitabandið sitt tilbaka. 
Ég fékk forláta eyrnaskjólshausband í afmælisgjöf frá vinkonum mínum og varð alveg húkkt á því. Ekki bara að það haldi eyrum heitum en haus ofhitnar ekki og hár þarf ekki að fara í kuðl inni í neinni húfu, þá heldur það einnig enni svitalausu og í ofan á lag þá finnst mér ég vera geðsjúklega sæt með það. Geðsjúklega. En nú er komið sumar. Og síðustu tvö hlaup hef ég verið kjánaleg með það á hausnum. Það er bara ekki nógu kalt lengur. En ég get bara ekki verið "nakin" á hausnum lengur! Ég smellti mér þessvegna í Sport Direct í dag og hreinlega keypti mér svitaband. Og er nú albúin til að taka sumarið með trompi. (Ég á líka orðið hlaupastuttbuxur, en er enn tvístígandi yfir þeim).
Mér var því ekki til setunnar boðið í morgun og ákvað að taka nýjan hring til að vígja svitabandið. Ég prófaði að hlaupa í gegnum Pen-Y-Cae (penníkæ), framhjá Plas Bennion, niður í Ruabon og svo Johnstown og upp í Rhos aftur. Gullfalleg leið og sólin skein í heiði og ég hafði rétt um sjö kílómetra til að hugsa málin. Ég þurfti líka að taka langan hring. Til að hreinsa hugann. Til að koma mér inn í æfingaprógramm upp á nýtt. Ég er svakalega hrifin af því að hafa eitthvað til að stefna að í líkamsrækt. Það er svo miklu skemmtilegra þegar maður er að vinna að ákveðnu verkefni. Það setur fútt í hlutina. Á meðan að stóra myndin er að vera almennt hraustur þá held ég að það sé bara til að halda áhuganum lifandi að hafa ákveðið verkefni með skýru tímamarki að vinna að. Svona eins og maður tekur próf, nær eða fellur og kemst áfram á næsta stig eða þarf að læra meira.

Ég sagði um daginn að ég sé ekki lengur í 10 km formi. Jæja, það er náttrúlega ekki að gera sig og ekkert annað í stöðunni en að komast aftur í það form. Ég er búin að skrá mig í 10 km hlaup í Bangor núna í lok maí. Passar ákkúrat, tveir mánuðir til að þruma sér í form og hlaupið sjálft er eitthvað til að hlakka til. Ég sé fyrir mér gullfallega leið meðfram Menai strait og skemmtilegan dag í Bangor með strákunum mínum. Og ég hef eitthvað að stefna að. Ég þarf að hafa eitthvað að stefna að.