þriðjudagur, 3. apríl 2012

Tvisvar sinnum áður á ævinni hef ég náð að léttast eitthvað svo um munaði. Ég tók 9.bekk (sem þá var síðasta árið í grunnskóla, ég var síðasti árgangurinn sem aldrei fór í 10. bekk) í kalórítalningu, nokkuð stíft eróbikk (sem þá var "cutting edge" hreyfing) og breytti hugarfari þó nokkuð hvað varðaði þáttöku í íþróttaiðkun svona almennt. Þangað til þá hafði ég frekar kosið lestur góðra bóka en að vera eitthvað að anda að mér mikið fersku lofti. Ég léttist heilmikið og þegar að skólaferðalagi um "Norðurfirði", eins og ég kaus að kalla þann hluta landsins sem heim var sóttur, kom var ég ekki mikið feitari en vinkonur mínar. Svo fór ég í menntó, borðaði pizzur, reykti og drakk (og skemmti mér konunglega). Ég get ekki bent á neinn tímapunkt þar sem ég tók eftir því að ég hafði fitnað aftur. Ég veit bara að þegar ég var í öðrum bekk var ég aftur orðin feit. Ég man alls ekki fyrir mitt litla líf eftir neinu millibilsástandi. Ég man ekki eftir að hafa hugsað að einhver föt pössuðu ekki lengur, eða að ég þyrfti að fara að passa mig eða neitt. Eina stundina var ég þvengmjó í sundi á Sauðárkrók að fagna því að vera búin með grunnskóla, næsta sem ég veit er að ég er feit í menntó. Badabúmmbadabing.

Næst tók ég svo á því þegar ég er í háskóla. Fór í einkaþjálfun, borðaði undir 1200 kalóríum á dag í næstum ár og léttist heilmikið. Svo mikið að ég var sannfærð um að það væri orðið í lagi með mig. Að ég væri læknuð. Ég stundaði lyftingar og sund og fannst ég vera ægilega hraust. Ég var reyndar banhungruð en ég var mjó. Og svo man ég ekki meir. Eina stundina var ég þvengmjó í heimsókn hjá José Manuel í Madrid, þá næstu var ég rorrandi um í spiki á Hornafirði. Og ég tók aftur ekki eftir nokkrum sköpuðum hlut. Ég sé ekkert millibils ástand, alveg sama hvað ég hugsa stíft um þessi tímabil. Ég var mjó (ish), svo var ég feit.

Ég hef engan áhuga á að fljóta svona sofandi að þeim feigðarósi aftur. Þannig að þegar svona helgar koma þegar ég borða meira en æðra sjálfið þarf á að halda klíp ég aðeins í sjálfa mig. Þegar ég borða þannig að ég sé gömlu Svövu Rán speglast í ísskálinni, þegar ég borða þannig að ég fæ ónot í magann þá minni ég sjálfa mig á að setjast upp og taka vel eftir. Minni sjálfa mig á að fylgjast vel með svo ég meðvituð um hvað ég sé að gera. Ég hef engan áhuga á að vakna upp einn daginn orðin 140 kíló.

Þetta er mikil rússíbanareið þetta stúss allt saman. Þessi síðustu þrjú ár hef ég tekið mig á, lést mikið, ráfað svo aðeins og tussast svo aftur af stað. Ráfað svo meira, væflast um en komið mér af stað aftur. Að miklu leyti má segja að ég hafi verið í jójó megrunarkúr.Akkúrat núna er ég á ráfi. Og hluti af sjálfri mér er skelfingu lostin að ég vakni upp 140 kíló.  Það er svo auðvelt að gleyma sér, og það er svo auðvelt að festast í hugarfari sem segir að þetta sé keppni, að það sé verið að taka tímann með skeiðklukku, að maður þurfi að komast í mark, að maður þurfi að "klára dæmið". Og ég ætla að halda áfram að vera meðvituð og taka eftir því hvað ég er að gera.

En ég neita að leyfa skelfingunni að taka yfir. Það stendur enginn með skeiðklukku og vigt yfir mér. Skelfingin þjónar engum tilgangi nema að þrýsta mér út í 1200 kalóríur og hungur. Svo lengi sem ég er vakandi og þjóna æðra sjálfinu mínu þá er ég að gera rétt. Hversu langan fokkings tíma sem þetta tekur mig.

Engin ummæli: