miðvikudagur, 24. júlí 2013

Þetta er hálfvandræðalegt vandamál þetta með ofátið. Svona þegar maður spáir blákalt í það þá er bara vandræðalegt að rorra um í spiki þegar fólk annarstaðar í heiminum á ekki hreint vatn, hvað þá mat. Það er bara græðgi að troða svona í andlitið á sér og þegar maður spáir í það þá er hægt að lifa af, og það alveg hreint ljómandi vel, á miklu minna magni af mat en maður heldur.

Ég borða allt of mikið. Hollt og gott (og stundum hrikalega óhollt) en mestmegnis allt, allt of mikið. Hluti af þessari þjálfun minni í að skilja hungur og seddu og hvað er nógur skammtur handa venjulegri manneskju er að notast við Gousto þjónustuna. Ég borga 40 pund á viku og fæ sendan heim hráefni í mat sem dugar í þrjár flottar máltíðir handa tveimur. Í kassanum eru uppskriftir og akkúrat hráefnið sem passar í hverja uppskrift, krydd og meðlæti.

Í hvert sinn sem ég elda rétt herpist saman í mér heilinn í angistarkasti yfir því hvað það er lítill matur á borðinu. Tvær kartöflur. Tvær!? Það er ein kartafla á mann! Venjulega myndi ég elda átta. Tveir kjúklingaleggir. Einn á mann! Láttu mig fá þrjá eða fjóra! Tvöhundruð grömm af kjöti, 80 grömm af hrísgrjónum, 80 ml af rjóma og þannig eftir götunum. Ég elda samt og rembist við að bæta ekki við, skammta fallega á diska og ber svo fram. Og undantekningarlaust er nóg á disknum handa mér. Ég er södd og sátt að máltíð lokinni. Græðgin segir meira en þegar ég hlusta á líkamann er komið nóg. Og ég læri á hverjum degi.

Reyndar ekki arða eftir handa hungruðum heimi.

Saffran kjúklingur - einn leggur á mann. 

Kínverskur - uppvartaður og fínn. 

þriðjudagur, 23. júlí 2013

Það er sko meira en að segja það að vera ekki í megrun. Það er óneitanlega strembið verkefni á margan hátt. Frelsinu fylgir nefnilega ábyrgð sem ég á erfitt með að höndla. Grunnhugmyndin er að ég á að sannfæra sjálfa mig um að það komi enginn "fullorðinn" (sem er núna ekki mamma heldur rödd í hausnum á mér) og skammi mig fyrir að borða "bannaðan" mat og taki hann af mér. Þegar mig langar í eitthvað þá á ég að fá mér það. Og þannig á ég að gera mér grein fyrir því að ég hef vald og leyfi til að gefa sjálfri mér það sem mig langar í og þannig verður bannvara ekki lengur freistandi. Og lotuát þar með óþarfi. Án lotuáta þarf ég ekki að kljást við samviskubit og niðurrifstarfsemi ásamt því að borða það sem líkamann vantar í réttu magni. Það að ná kjörþyngd ætti að vera nánast óhjákvæmilegur fylgifiskur.

En eins og ég segi þá fylgir frelsinu ábyrgð sem ég get ekki ráðið við. Ef einhver hefði spurt mig fyrir ári síðan hvort ég myndi valda ábyrgðinni hefði ég sjálfsagt bara móðgast. "Hvurslags er þetta eiginlega? Er ég ekki dæmi um sökksess!? Það er ekkert sem ég veit ekki um holla lifnaðarhætti, ekkert sem ég get lært meira hefði ég sagt. Ég er orðin seif."

Þessvegna á ég ekki að sitja hérna og klóra mér í skallanum yfir því að ég sé aftur búin að þyngjast. Ég vildi óska að ég gæti borið við fáfræði, eða heimsku, gleymsku eða jafnvel geðveilu. Ég vildi óska að ég gæti æpt upp fyrir mig; "Já, en ég bara VISSI ekki að ef ég borða of mikið þá fitna ég!!" Ég vildi óska að ég væri að upplifa þetta í fyrsta skipti. En sannleikurinn er að þetta er ekki í fyrsta sinn. Þetta er ekki einu sinni i annað eða það þriðja. Ég ætti að vita betur.

En ég er líka að skilja að ég ber ábyrgðina og ég hef valdið, valið og frelsið. Það að ég er hvorki illa upplýst, heimsk né geðveik þýðir að ég verð bara að axla þessa ábyrgð og halda áfram að rembast.

Ég er eiginlega alveg viss um að síðast þegar ég léttist um töluvert magn kilóa þá tók ég ekki eftir því þegar ég glutraði því svo niður aftur. Ég var "allt í einu" orðin 150 kíló upp á nýtt. Eigum við ekki að kalla það gott að ég tók að minnsta kosti eftir þessu núna og að ég er að gera mitt besta til að snúa þróuninni við?

Frelsinu fylgir ábyrgð. En hugsið ykkur líka allt frelsið sem felst í því að vera laus við helvítis megrunina? Við sjálfshatrið og vanlíðanina sem því fylgir þegar manni mistekst? Frelsið sem felst í því að vita að ákvarðanirnar sem ég tek eru gerðar með mina vellíðan í huga?

Ég ætla þessvegna að halda áfram að vera ekki i megrun. Ég hef svo rosalega mikla trú á sjálfri mér. Ég er alveg viss um að ég eigi eftir að valda ábyrgðinni sem frelsinu fylgir fyrr en síðar.


mánudagur, 22. júlí 2013

Mikið er nú alltaf skemmtilegt að skunda héðan úr sveitinni og sjá stórborgina í öllu sínu veldi, með sinn ys og þys. Ásta mín er flutt, frá menningarsuðupottinum Brixton, og alla leið norður til Islington og þessvegna vel við hæfi að heimsækja hana og sjá hvernig hvíta fólkið í London býr.

Mér fannst Islington æði, kaffihús út um allt og allt svona fínna og hreinna en í Brixton. Islington höfðaði til lattemiðstéttarsnobbarans í mér. Þó ég verði nú að segja að mér finnist fátt betra en yfirlætislausu veitingahúsin í Brixton. Þegar ég er komin hingað heim og get hugsað málið þá er ég í raun hrifnari af því að hafa hlutina bara alvöru organíska, ekki svona þvingaða "kúl" eins og mér finnst svo oft gerast á Íslandi til dæmis. Þegar meira er lagt í lúkkið en í innihaldið.

 Við fengum syrlenskan mat á rölti um Shoreditch, og þar með talið eitt besta falafel sem ég hef smakkað.
 
 Í City of London þar sem við fjármálafólki ráðum örlögum almúgans var ég alveg á heimavelli, svona rétt um það leyti sem ég fékk "synjað" á kortinu.
 Það er náttúrulögmál að keyra um í double decker og sitja fremst.

 Meira að segja í St. Pauls er lögmál dagsins að vera SLIM og ekkert að gera en að breyta ósigri í sigur!
 St. Paul´s í þessa átt; Millennium Bridge í hina.

 Búin að fá smá cider í sólinni og farin að brosa nett.

Listrænt skot í Spitalfields.
C
 Luis selur Suður-Amerískan mat í Brixton, hvert sem maður lítur má sjá framandi og skemmtilega þjóðarrétti sem mig langaði til að prófa.
 Komnar á heimaslóðir í Brixton þar sem reggí hljómar og graslyktin liðast yfir í þungu skýji.
 Ég get ekki lýst því hvað mér finnst gaman að koma til London, sjá allt fólkið, matinn, fötin, stemninguna, allt það sem skapar borgina. Best er náttúrulega bara að vera með Ástu, við gætum sjálfsagt skemmt okkur hvort sem það er London eða Laugarvatn. En borgin óneitanlega kryddar hittinginn.

miðvikudagur, 17. júlí 2013

Ég er alltaf til í að gera og prófa eitthvað nýtt og fátt veit ég skemmtilegra en að prófa nýjar matartegundir. Oftast er það nú undir yfirskriftinni heilsusamlegt en í kvöld var það meira bara svona upp á skemmtilegheitin.


Ég keypti smokkfisk og fékk nokkra dropa af bleki með og þessvegna við hæfi að prófa Linguine al Nero di Seppia.
Smokkfiskurinn mallaði niður með lauk og hvítlauk og tómötum á meðan pastað sýður.
 Út á pönnuna fer svo blekið þannig að sósan varð bleksvört. Svona eins og við er að búast.
Lokaútgáfan þannig að smokkfiskurinn týndist í svörtu blekinu og því miður þá var rétturinn meira skemmtilegheit en bragðmikill. Eiginlega alveg bragðlaus. Og ekki fyrr en ég var búin að borða og staðin upp þegar ég fattaði hvað vantaði. Sítrónu. En það var of seint og eftir sitja svona nett vonbrigði.

En svona er nútíminn. Maður heldur að maður sé ægilega smart lattelepjandisúshiétandijógastundandi hipster sem borðar blek en í raun er ekkert eins kúl og töff og maður heldur.

sunnudagur, 14. júlí 2013

Ég las um daginn grein sem spyr hvort það sé í raun nauðsynlegt að sannfæra ljótar konur um að þær séu fallegar. Innihald greinarinnar var ekki það að tala illa um meðalmyndarlegar eða ljótar konur, heldur frekar að setja spurningarmerki við þetta hvort það þurfi endilega að einbeita sér að því að segja að við séum allar fallegar. Væri ekki bara miklu sniðugra að segja; "Ókei, svo þú ert ekki Beyoncé, en það er bara svo margt meira sem skiptir meira máli en að vera falleg."

Mér finnst þetta svakalega áhugavert. Það er svakalega miklu púðri eytt í það að láta alla vita að það sé í lagi að vera öðruvísi og að við séum öll falleg á okkar hátt og þar fram eftir götunum. En væri í alvörunni bara ekki sniðugra að einbeita sér að því að láta alla vita að það skiptir bara ekki máli hvernig við lítum út, að það að vera fallegur sé bara ekki nauðsynlegt?  Ég get náttúrulega ekki að því gert en að hugsa þetta út frá því að vera feit. Ég man ekki eftir sjálfri mér öðruvísi en helupptekinni við þá iðju að sannfæra sjálfa mig um að ég væri sæt þrátt fyrir að vera feit. Svo þegar ég mjókkaði fannst mér ég vera súper sæt. Og það sem ég er búin að vera að berjast við að undanförnu er að finnast ég vera svo ljót nú þegar ég er aftur feit.

Lúkas tók þessa mynd af mér í dag. Og það eina sem ég gat hugsað var "gvuð minn góður sjá á mér lærin! Sjá yfirmagann! Sjá upphandleggina! GVUÐ MINN GÓÐUR HVAÐ ÉG ER LJÓT!!"

Málið er hinsvegar að það skiptir bara engu máli. Það sem er miklu verra en að vera ljót er að mér líður illa í líkamanum. Mér er aftur svo illt í hjánum. Ég er sveitt og heitt og á erfitt með að þola hitann. Ég er farin að nudda saman lærunum. Mér líður illa líkamlega. Það er það sem ég á að einbeita mér að, ekki hvort ég sé ljót eða sæt. Það skiptir engu máli. Þetta á allsekki að snúast um hversu mikið pláss ég tek upp í heiminum, þetta á að snúast um að ég skipti máli í honum. Að ég hafi eitthvað fram að færa, að ég láti ljós mitt skína. Ég get það ekki á meðan ég hef áhyggjur af appelsínuhúð.

Þegar ég hugsa tilbaka til þess að vera 86 kíló þá er ég alveg sannfærð um að mesta vellíðanin kom frá því hversu hraust ég var. Hversu vel mér leið í líkamanum, ekki hversu sæt mér fannst ég vera.

Mig langar til að vera manneskja sem bætir heiminn, sem leggur eitthvað gott til málanna. Það að velta mér í angistarkasti yfir bingóvængjum bætir ekki neitt. Þeir einfaldlega skipta ekki máli. En að tala fyrir um mikilvægi þess að vera heilsuhraustur er hinsvegar mannbætandi og það ætla ég því að gera.