miðvikudagur, 24. júlí 2013

Þetta er hálfvandræðalegt vandamál þetta með ofátið. Svona þegar maður spáir blákalt í það þá er bara vandræðalegt að rorra um í spiki þegar fólk annarstaðar í heiminum á ekki hreint vatn, hvað þá mat. Það er bara græðgi að troða svona í andlitið á sér og þegar maður spáir í það þá er hægt að lifa af, og það alveg hreint ljómandi vel, á miklu minna magni af mat en maður heldur.

Ég borða allt of mikið. Hollt og gott (og stundum hrikalega óhollt) en mestmegnis allt, allt of mikið. Hluti af þessari þjálfun minni í að skilja hungur og seddu og hvað er nógur skammtur handa venjulegri manneskju er að notast við Gousto þjónustuna. Ég borga 40 pund á viku og fæ sendan heim hráefni í mat sem dugar í þrjár flottar máltíðir handa tveimur. Í kassanum eru uppskriftir og akkúrat hráefnið sem passar í hverja uppskrift, krydd og meðlæti.

Í hvert sinn sem ég elda rétt herpist saman í mér heilinn í angistarkasti yfir því hvað það er lítill matur á borðinu. Tvær kartöflur. Tvær!? Það er ein kartafla á mann! Venjulega myndi ég elda átta. Tveir kjúklingaleggir. Einn á mann! Láttu mig fá þrjá eða fjóra! Tvöhundruð grömm af kjöti, 80 grömm af hrísgrjónum, 80 ml af rjóma og þannig eftir götunum. Ég elda samt og rembist við að bæta ekki við, skammta fallega á diska og ber svo fram. Og undantekningarlaust er nóg á disknum handa mér. Ég er södd og sátt að máltíð lokinni. Græðgin segir meira en þegar ég hlusta á líkamann er komið nóg. Og ég læri á hverjum degi.

Reyndar ekki arða eftir handa hungruðum heimi.

Saffran kjúklingur - einn leggur á mann. 

Kínverskur - uppvartaður og fínn. 

Engin ummæli: