föstudagur, 30. apríl 2010

Ég sit hérna með snyrtilegt tagl í sléttuðu hárinu, í svakalega smart kjól úr puppytooth efni, með snyrtilega dag málningu á andlitinu. Fyrirlesturinn tilbúinn og ég get farið með hann nokkurnvegin án þess að líta á blaðið, og ég er með tilbúin svör við hvaða spurningu sem er. Ég held að það sé lítið meira sem ég get gert til að undirbúa mig. Nú er bara að krossa fingur. Mikið svakalega verð ég svekkt ef ég fæ ekki þessa vinnu.

Að öðru leyti er allt fínt hérna. Löng helgi framundan með ýmiskonar skemmtilegu plönuðu og allt snýst það um að halda mataræðinu í sama fari og það hefur verið þessa vikuna. Veðrið búið að vera sumarlegt undanfarna daga og vonandi að það haldi yfir helgi. Meira á morgun.

mánudagur, 26. apríl 2010


Það er bara hálfgert fríkát í gangi hjá mér núna. Ég fékk boð í atvinnuviðtal og það er loksins vinna sem ég hef áhuga á. Viðtalið er byggt þannig upp að ég á að halda 15 mínútna fyrirlestur um hvernig ég myndi stjórna teymi sem á í vandræðum með gæði. Svo er viðtal þar sem ég verð spurð spjörunum úr um hæfni mína á mismundandi sviðum. Ég er alveg að springa úr spenningi enda er þetta svakalega spennandi fyrirtæki og vinnan alveg það sem ég vil gera. Og ekki skemmir fyrir að fyrirtækið er á Wrexham Industrial Estate við hliðina á Rowan Foods þar sem Dave vinnur. Við gætum því farið saman í og úr vinnu og ég sparað mér 30 pund á viku í lestarmiða. Ég er því á fullu að búa til fyrirlesturinn minn og æfa mig í að vera æðisleg. Og það akkúrat í vikunni sem ég er að taka mataræðið algerlega fyrir með smásjá. Allt vigtað, mælt og útpælt. Sem er tímafrekt og smávegis stressandi enda er ég stödd í sykurþokunni minni sem gerir allt aðeins erfiðara. En það skiptir litlu máli hvaða óvæntu atburði lífið fleygir að mér, ég get ekki frestað því að taka á mataræðinu í eina mínútu. Það er nú eða aldrei. Ég ætlaði eitthvað að verða svakalega stressuð áðan þegar ég kom heim úr vinnunni, það átti eftir að gera smá húsverk ásamt því að ég hafði planað að búa til eggjamúffur tilbúnar í morgunmat og var búin að setja kjúklingabringur í marineringu sem þurfti að grilla tilbúnar í salat. Svo þurfti að strauja skólabúning, finna til nesti, finna til föt og æfingargalla fyrir morgundaginn og vinna að fyrirlestrinum. Svo andar maður bara í smástund, útdeilir þeim verkum sem aðrir geta gert fyrir mann, forgangsraðar og tekur svo verkefnin eitt af öðru. Ég þarf ekki endilega að vera súperkona. Og svona kom það, fyrirlesturinn tilbúinn, viku matseðill tilbúinn, skólabúningur tilbúinn. Allt hitt bara sallast svona einhvernvegin. Er ekki öllum sama þó það sé ryk í hornum hjá mér?

laugardagur, 24. apríl 2010

Kílóið sem fór og kom svo aftur er hér enn en aðeins minna um sig. Ég hugsa að ég leyfi greyinu bara að vera hér áfram og losa mig bara við einhver önnur kíló. Mér er farið að þykja vænt um skarið.

föstudagur, 23. apríl 2010

Enginn er hann svo dimmur sá táradalur að ég sjái ekki til sólar fyrr en síðar. Ég er að kljást við smá krísu en ég verð líka að segja að þrátt fyrir andartök þar sem allt virðist ómögulegt þá veit ég alltaf að ég finn leiðina út aftur. Það sem hefur verið að angra mig; Ég er búin að vera lengi núna föst í þessari sömu þyngd. Og ég sakna svo vímunnar sem maður er í þegar maður fyrst fer í "lífstíl" og kílóin fjúka á ógnarhraða. Og þegar ég segji að það sé alveg sama hvað ég reyni, ég bara virðist ekki geta lést þá vitum við öll að ég er að ljúga. Hvað er ég oft búin að segja að ég borði of mikið um helgar? Ég æfi eins og moðerfokker alla vikuna og borða rosalega hollar 1500 kalóríur í fimm daga og fríka svo út um helgar. Þessu fylgdi gífurlegt samviskubit. Samviskubit var eitthvað sem ég var búin að banna. Og þess vegna fór mér að líða illa, þannig illa að ég leyfði sjálfri mér að haga mér á "gamla mátann" þar sem maður er hvort eð er aumingji og getur þess vegna allt eins bara borðað meira. En það sem samviskubitið leyfði mér ekki að sjá var að ég hélt alltaf áfram að æfa. Gamli mátinn hefði þýtt að ég hefði bara gefist upp á þessu öllu. En ég borðaði kex á kvöldin og var svo mætt í ræktina daginn eftir til að brenna þessum auka kalóríum. Þannig léttist maður ekki, en maður þyngist heldur ekki. Og þetta gat ég ekki séð fyrir vanlíðaninni. En þegar Dave benti mér á að ég væri ekki að haga mér á gamla mátann, þetta væri alveg ný hegðun þá rann upp fyrir mér ljós. Ég er í alvörunni breytt manneskja. Áður fyrr hefði ég ekki haldið áfram að æfa og reynt að bæta upp átið með salati hér og þar. Ég hefði bara látið undan öllum mínum djöflum og stungið mér til sunds í súkkulaðibaði. Áður fyrr væru öll kílóin 30 löngu komin aftur, en núna, ókei ég er ekki að léttast akkúrat núna, en ég þyngist heldur ekki. Og það skiptir meira máli. Ég er loksins búin að sjá og sanna fyrir sjálfri mér að mér bara getur ekki mistekist héðan í frá. Ég má verða eins döpur og niðurlút og mér sýnist en ég gefst samt ekki upp í alvörunni.

Það þýðir samt ekki að ég sé að skjótast undan ábyrgðinni með að ég þarf að taka á mataræðinu. Ég borða enn of mikið og ég haga mér alltof mikið eins og eiturlyfjasjúklingur um helgar. Og ég gerði eitt á mánudaginn sem bara má alls ekki gerast aftur. Ég laug að Dave. Ég faldi umbúðir utan af kexpakka undir kartöfluhýði og jógúrtdósum í ruslinu. Það er gamli mátinn. Kaupa þrjú súkkulaði, borða eitt á leiðinni heim, þykjast svo hafa keypt eitt handa honum og eitt handa mér. Er von að ég kalli mig eiturlyfjasjúkling. Þetta er hegðun sem bara alkar og dópistar kannast við. Hvað um það. Hvað ætla ég að gera til að laga þetta? Ég ætla að hætta að vorkenna sjálfri mér, ganga í gegnum stutt tímabil þar sem ég þarf að biðja um hjálp til að komast í gegnum fráhvarfseinkennin, og svo ætla ég bara að hlaupa, lyfta og borða 1500 góðar kalóríur sjö daga vikunnar. Ég hef alltaf sagt að þetta sé einfalt mál.

(Ástarþakkir, ástar, ástarþakkir neðst neðan úr útspörkuðu rassgatinu fyrir kveðjurnar, stuðninginn, hell ástina sem ég finn fyrir frá ykkur. Á meðan að ekkert ykkar getur gert það sem ég þarf að gera fyrir mig, þá gerir það verkefnið óneitanlega auðveldara að vita af ykkur við hliðarlínuna æpandi "áfram Svava!")

miðvikudagur, 21. apríl 2010


Ég er á voðalega skrýtnum stað inni í hausnum á mér. Á dimmum, vondum stað. Einhverstaðar sem ég var að vona að ég myndi ekki lenda á aftur. I´m off my game and I can´t get back. Öll trixin mín, allt sem hingað til hefur svínvirkað á mig, er bara ekki að virka. Ég ákvað fyrir löngu síðan að það sem væri sérstaklega mikilvægt að ég hætti að líta á sjálfa mig sem fórnarlamb. Að ég væri ekki viljalaust verkfæri matarlystar minnar. Og það virkaði, ég tók stjórnina, var algerlega við stjórnvölinn. En mér líður akkúrat núna eins og ég bara nái engum tökum á sjálfri mér. Ég sting einhverju upp í mér og í heilanum æpi ég á sjálfa mig nei,nei, nei, nei, nei! en hendin heldur áfram að skófla upp í mig. Nánast eins og ég horfi á utan frá og ráði ekki neitt við neitt. Stjórnlaus. Hvað breyttist? Og hvað á ég að gera til að ná tökum aftur áður en enn einu sinni sitji ég eftir með 30 kíló aftur í plús? Eða jafnvel 40? Af því að það er það sem kemur til með að gerast, og það á rosalega stuttum tíma. Eins og ég hef áður bent á þá erum við að tala um að einungis 3% af fólki sem fer í megrun og léttist er enn í kjörþyngd 5 árum síðar. Og akkúrat núna? Núna líður mér eins og ég sé 97%.

mánudagur, 19. apríl 2010

Stætó kom of seint í morgun sem þýddi að ég náði ekki lestinni til að mæta í rækt í morgun. Og ég er í fríi á morgun til að fara til læknis. Eftir laugardag þar sem ég úðaði í mig grilluðum kjúkling og drakk bjór í lítravís og svo sunnudag sem sá mig klára upp undir 2 lítra af ís með hnetusmjöri og góð 2 kíló af "tiger chest" brauði og núna tvo daga í órækt geri ég fyllilega ráð fyrir að kílóið sem hvarf á laugardag sé nú búið að koma sér makindalega aftur fyrir á mallakút. Svona er þetta, maður uppsker sem maður sáir. Ég er enn í vigtunarbanni og ætla að reyna aftur að reiða mig bara á skynsemina í sjálfri mér. Það sem ég þarf að taka á og hef verið að reyna að ná tökum á núna lengi er helgarneyslan. Þetta er eitthvað sem ég er búin að skrifa um og hugsa um lengi en virðist enn ekki alveg geta stjórnað. Nú ætla að ég velta þessu aðeins meira fyrir mér og koma upp með gott plan. Mér hefur tekist það hingað til að koma upp með plön sem virka og ég get ekki séð afhverju þetta ætti að vera eitthvað öðruvísi. Mig grunar að ég sé fórnarlamb eigin velgengni. Ég er orðin allt of hrokafull og þarf að taka aðeins á því. Ég segi orðið aðeins of oft; "ég byrja bara aftur á morgun." Ég þarf að láta daginn í dag vera aðalmálið.

laugardagur, 17. apríl 2010

Hér vöknuðum við í morgun við glampandi sólskin og greinilegt sumar í lofti. Himinninn heiður og blár og fólk á ferli með morgunblaðið sitt og mjólkina út í te á stuttbuxum og léttum skyrtum. Þetta er augljóslega dagur fyrir mig að fara til Tony´s og kaupa þykkari garðhanska til að klára að klippa burtu afganginn af rósarunnanum. Svo ætla ég að slá grasið, stinga kant og sópa burtu drullu og drasli sem veturinn skildi eftir sig á göngustígnum. Þá ætti að vera hægt að dusta af garðhúsgögnum og gasgrilli til að setja upp tilbúið fyrir langar setur úti í garði. Já, 18 stiga hiti og brakandi sólskin er aldeilis til að létta lundina. Best að drífa sig í verkin. Ó, já og ég gleymdi næstum að segja að ég sté á vigt eftir vikupásu frá henni og var mjög ánægð að sjá 1 kíló týnt og tröllum gefið. Ég er núna 24% minni að rúmmáli en ég var fyrir rúmu ári. Ekki slæmt.

miðvikudagur, 14. apríl 2010


Mikil dásemd sem grísk jógúrt er. Ég kaupi alltaf 0% Fage sem er flutt inn frá Grikklandi og ég sá svo í matvöruverslun á Krít. Ég ætla því að segja að Fage sé það sem Grikkir myndu kalla "jógúrt" og er rétt og sönn grísk vara. Fage er þykkara en annað jógúrt og mun súrara. Það minnir mig helst á skyr en ég verð nú samt að segja að ég myndi ekki nota skyr eins og ég nota jógúrtið. Ég set múslí út á það og borða í morgunmat. Ég set hvítlauk í það og nota sem hvítlaukssósu. Ég set hnetusmjör og sultu í það og borða sem nammi. Ég set döðlur út í það og nota sem sósu á ávexti. Ég hæri það við túnfisk og bý til túnfisksalat. Ég set það út í sósu, út í smoothie, út á chili í staðinn fyrir sýrðan rjóma. The possibilities are endless. Og ekki er hægt að rífast við næringarinnihaldið, fitulaust, nánast bara prótín og bara 75 kal í 150 gramma dós. Fage er þykkt, þannig að það er hægt að smella því úr dósinni og það heldur dósalaginu. Linast svo aðeins upp þegar það er hrært. Kannski að það líkist mest sýrðum rjóma. Það er allavega ekki eins og það sem er selt sem grísk jógúrt hér og er bara eins og náttúrleg jógúrt. Það er ekki sama varan. Fage jógúrtið er númer eitt á listanum sem ég tel upp þegar ég hugsa um hlutina sem ég á eftir að sakna héðan þegar við flytjum loks heim aftur. Ég veit ekki alveg hvað ég geri án jógúrtsins míns. Ég er á leiðinni inn í eldhús að ná mér í eina dós, ég ætla að setja nokkrar rúsínur og smávegis af kókós spæni út á. Himnasæla í dós.

þriðjudagur, 13. apríl 2010


Það er eitthvað æsandi við að stíga á vigt. Ef maður hefur verið að passa sig er óttablandin vonin um að maður hafi lést eins og fiðrildi í maganum. Fara úr öllum fötum, pissa hverjum síðasta dropa, draga inn andann og stíga svo niður eins léttlega og maður mögulegast getur. Kreista aftur augun á meðan maður bíður þessi sekúndubrot eftir niðurstöðunni og vona og vona og vona. Og ef maður hefur lést er eins og maður hafi unnið lottó, en ef maður hefur þyngst frá síðustu talningu fær maður hnefahögg í magann, allt erfiðið er fyrir bý og fyrsta hugsun er hversu tilgangslaust verkefnið sé. Það sér það hver heilvita maður að fólk sem fer á vigtina eftir hvern kaffibolla og setur sjálft sig á svona tilfinningarússibana upp undir sex sinnum á dag, þarf að hugsa sinn gang. Líkaminn sveiflast í þyngd yfir daginn þannig að það er ekki hægt að fá "rétta" þyngd svona frá klukkutíma til klukkutíma. Nú er dagur tvö í þyngdarleysi og á sama tíma og ég sakna þess að vigta mig (þetta er jú bara enn eitt dæmið um fíkilshegðunina mína) þá er ég líka sannfærð um að þetta hafi verið besta hugmynd sem ég hef fengið lengi. Ég er svo nojuð yfir því að hafa ekki aðhaldið frá vigtinni að ég er búin að skrifa allt niður og spá og spekúlera í mataræðinu eins og ég á að gera alltaf. Og komst að því að ég er að borða of lítið. Ekki nema von að ég léttist hægt og illa. Líkaminn er í starvation mode. Þannig að ég þarf að smá auka neysluna núna til að koma brennslunni aftur í gang. Simple!

Ég er líka búin að koma æfingaprógramminu í gott form. Skipti dögunum í HIIT hlaup, sem er jafn erfitt og það er skemmtilegt; ég meina ég er að hlaupa á 8km/klst hraða á 8% halla! og svo beint úr því í heila mínútu af 11 km sprett. Svo hleyp ég líka fyrir þol, þá held ég mér á 8 km og 2% halla og reyni bara að lafa eins lengi og ég get. Við ætlum að reyna 30 mínútur á morgun. Og svo eru það lyftingar tvisvar til þrisvar í viku. Ég er pjúristi, vil engar vélar, bara lóð og stangir. Og veit bara ekkert skemmtilegra. Tók 40 kíló í réttstöðulyftu í morgun og það rumdi hreinlega í mér. Varð að taka á öllum mínum til að hnykla ekki vöðvana eftir á og segja eitthvað um að vera Íslendingur, strong and beautiful, svona til að hræða ekki Bretana. The strongest men and the beautifullest women. Það held ég nú.

sunnudagur, 11. apríl 2010


Ég er hætt með vigtinni minni. Búin að segja henni upp, við erum ekki á föstu lengur, ég er laus og liðug. Ég gerði mér grein fyrir að samband okkar var ekki eðlilegt, hún hafði yfirhöndina, það var ekkert jafnvægi. Ég elska hana ennþá en ég gerði mér grein fyrir því að sambandið var ekki að gera mér neitt gott. Hún liggur inn á baðherbergi og lokkar mig og laðar með fögrum fyrirheitum en slær mig svo utanundir nánast undantekningarlaust og lætur mér líða eins og aumingja. Þetta er samband þar sem ég fæ lítinn stuðning. Ég er líka heltekin af henni og henni er alveg sama um mig. Ég stíg á hana fjórum til fimm sinnum á dag og stika svo um í þráhyggju minni þess á milli. Þetta gengur ekki lengur. Ég er búin að láta Dave fá hana til varðveislu og hún kemur bara út á laugardagsmorgnum. Ég verð að hætta að hugsa svona mikið um hana. Hætta bara cold turkey. Ég veit að þetta á eftir að vera erfitt, ég er með nagandi kvíða um að án hennar verði ég kærulaus og aðhaldslaus, en málið er að hún er ekki að gera mig hamingjusama. Ég ætla að treysta að ég sé búin að læra nóg um hvað ég má og hvað ég á að gera til að láta þetta virka án þess að refsa sjálfri mér á tveggja tíma fresti.

Öllu skemmtilegri fréttir eru svo að lærin á mér eru líka hætt saman. Eftir áratugi þar sem þau hafa legið utan í hvort öðru, nuddað sér saman og verið óaðskiljanleg, oft með sárum afleiðingum, (bókstaflega) eru þau smá saman að standa á eigin fótum, ein og aðskilin með engan stuðning frá hvoru öðru. Það sér í dagsbirtu á milli þeirra.

laugardagur, 10. apríl 2010

Ég léttist um hálft kíló. Og mér finnst það bara ekki passa. Fyrir 6 vikum var ég 95 kíló. Fyrir fimm vikum var ég 97.5. Og svo er það búið að taka mig síðan þá að komast aftur niður í rúm 95. Plugging away. Málið er að þegar ég var 95 keypti ég mér voðalega fínan kjól í vinnuna. Hann var aðeins of þröngur yfir magann en ég hugsaði með mér að það væri bara fínt að kaupa hann og eiga svona sem metnaðarkjól. Og ég mátaði hann í morgun og hann smellpassar. Samt segir vigtin að ég sé þyngri núna en ég var þegar ég keypti hann. Hmmm... Ég veit að vöðvar vega meira en spik. En sjálfri finnst mér það hljóma eins og afsökun þegar fólk sem er enn svona mikið of feitt eins og ég er fer að tala um að það sé að bæta á sig vöðvaþyngd. Vöðvar flýta fyrir brennslu en þegar það er enn af svo miklu spiki af taka þá hlýtur að fara meira af fitu en maður hefur undan að byggja upp vöðva. Ég lyfti þrisvar í viku og ég veit að ég er að auka þyngdirnar og ég hef tekið eftir greinilegum vöðvum á upphandleggjum og kálfum. En ég trúi enn ekki að vöðvar útskýri afhverju ég léttist svona lítið og hægt. Ég borða 1500 gæða kalóríur á degi hverjum. Ég borða sterkju kolvetni einungis eftir æfingar. Ég borða 6 litlar máltíðir á dag. Ég hleyp samkvæmt HIIT (high intensity interval training) og ég lyfti samkvæmt prógrammi þrisvar í viku. Ég svindla á sunnudögum. Og ég gefst bara ekki upp. Hvað ég léttist í viku hverri skiptir í alvörunni ekki svo miklu máli. Ég vil miklu frekar einbeita mér að því hversu hraustari ég er og mæla það eins og t.d að setja mælistiku við hverja mínútu sem ég hleyp lengur, og mæla sjálfa mig svo samkvæmt fatastærðum. Og mæla sjálfa mig með hamingjustuðli sem ég hef sjálf fundið upp. I will just keep plugging away. Það sem er að angra mig er að ég á að vera að léttast meira. Ég hef greinilega skemmt eitthvað með öllum þessum endalausu jójó megrunarkúrum síðustu 25 árin. Og mig langar svo að komast að því hvað ég á að gera til að lagfæra þessu hægu brennslu. Vigtin er nefnilega sú mælistika sem ég á auðveldast með að skilja og sammerkja með. Þetta skiptir í alvörunni ekki máli, ég held ótrauð áfram. En mikið þætti mér nú samt gaman ef ég sæji vigtina verðlauna mér aðeins meira. Þetta er í alvörunni eins og að færa fjall með teskeið.

fimmtudagur, 8. apríl 2010

Ef sálfræðingur væri af einhverjum ástæðum staddur í baðherberginu mínu á fimmtudagsmorgni myndi hann, og það án þess að tvínóna við það, sjúkdómsgreina mig með akút OCD (obsessive compulsive disorder). Ég ætla nú ekkert að fara nánar út í ritúalið en get sagt að það tekur mig rétt undir sjö mínútum að vigta mig fyrir utan þann tíma sem það tekur mig að fylla svo töluna mína inn í fallega excel skjalið mitt. Allt þetta þýðir bara eitt; það er ekki hægt að hafa vigtunardaga á fimmtudögum. Ég bara hef ekki tíma áður en ég þarf að hlaupa í lest. Þannig að héðan í frá ætla ég að vigta mig á laugardagsmorgnum. Og þannig get ég velt mér upp úr túrettinu alveg út í eitt og notið þess. Þessi vika verður þessvegna smá svindl með nokkrum aukadögum, en svo jafnast það út. Og það er líka svo gaman að hrista aðeins upp í lífinu. Smá krydd í tilveruna! Ji minn eini.

miðvikudagur, 7. apríl 2010


Eins og ég borða mikið grænmeti og veit og skil hversu mikilvægt það er að hafa það sem aðaluppistöðu þess sem maður borðar, þá á sama tíma gleymi ég oft að nota það. Í hvert sinn sem ég borða grænmeti hugsa ég alltaf með mér hvað það er gott á bragðið en á sama tími langar mig aldrei í það. Eins og t.d núna í dag. Ég hafði tekið út nautahakk vegna þess að Dave var búinn að biðja um chili í matinn. Vanalega myndi ég borða nachos-flögur með chili og sulla yfir það heilli dós af sýrðum rjóma. En nachos er nú ekki lengur á boðstólum, háunnin vara, stútfull af salti, sykri og lélegum kolvetnum sem ég bara tími ekki nú orðið. Og ég hugsaði um þetta í allan dag. Hvað átti ég að setja í staðinn fyrir flögurnar? Mér finnast grjón bara ekkert góð, mig langaði ekki í bakaða kartöflu, mér finnast of miklar hitaeiningar fyrir litla fyllingu í brauði, fyrir utan að brauð gerir ekkert nema að kveikja í mér sykurlosta og einhvern vegin var ég bara ekki í stuði fyrir quinoa. Svo allt í einu laust lausninni niður! Kínakál! Gamla, góða kínakálið. Ég bjó þess vegna til þetta líka svaðalega chili sem reif í háls og tungu, slett ofan á hrúgu af kubbuðu kínakáli og ofan á það fór svo góð slumma af 0% grískri jógúrt. Þetta fannst mér gott. Ég fékk "kröntjs" áferðina sem mig vantaði með kálinu og sleppti hundruðum af innihaldslausum kalóríum. Lukkan yfir mér alltaf hreint.

þriðjudagur, 6. apríl 2010


Ég tók mitt lengsta og harðasta hlaup hingað til í morgun. 1.5 incline, 8.5 km/klst og þrír 30 sekúnda 10 km/klst sprettir, 25 mínútur allt í allt. Það lak af mér svitinn og ég fór í 10 mínútur á cross trainer (er það skíðavél á íslensku?) bara til að kæla mig niður. Ég er farin að hafa smá áhyggjur af að hlaupin séu að taka yfir lyftingum í uppáhaldi þau eru svo skemmtilegt. Hitt er svo að ég er í hálfgerðum vandræðum með íþróttafötin mín, ég á bara tvenna shock absorber brjóstahaldara og það er útilokað fyrir mig að æfa í neinu öðru án þess að skaða mig og aðra í kringum mig. Og svo eru allar joggingbuxur orðnar of víðar (jebb, of víðar!) og það er útilokað að hlaupa í víðum buxum. Ég nota þessvegna þessar leggings sem ég keypti sem tískufatnað en aftur á bara tvennar þannig að þvottavélin bara hefur ekki undan. En það er með að fara í ræktina eins og allt annað; ég vil eiga flottan búning. En einar Nike hlaupabuxur kosta nú bara 20-30 pund! Ruglið.

Ein kjellingin sem er í ræktinni er alltaf að kvarta við mig undan einum kallinum sem hún segir að sé svo vond svitafýla af. Mér finnst þetta nú bara hálfvandræðalegt. Hún kemur á hverjum degi og er bara eitthvað svona að pusast, gerir aldrei neitt, ekki nema vona að hún svitni ekki. Kallinn er á fullu allan tímann og ekki nema von að hann svitni. Svo er náttúrulega bara mismunandi lykt af fólki. Það er reyndar alveg rétt hjá henni, það er vond lykt af honum en mér líður bara illa þegar hún er að væla þetta við mig því ég er rennandi blaut af svita og þó ég segji að það sé hreinn sviti og engin lykt þá er ég kannski ekki dómbær um það. Er hún kannski að reyna að segja mér að hætta að svitna svona? Ég sé nú lítinn tilgang í að mæta ef maður svitnar ekki. Maður bræði mörinn og hann lekur út sem sviti. Það held ég nú.

mánudagur, 5. apríl 2010


Ljómandi góðir páskar að lokum komnir. Við fórum í bíó að sjá How to Train Your Dragon, sem var ljómandi skemmtun, rölt um Wrexham, rölt um Rhos-fjall, skinny latté á Neró, svaðalegt páskalamb og aaaalllt of mikið af súkkulaði. Ég var líka dugleg að hlaupa og í pilates þannig að ég geri bara ráð fyrir einu kílói eða svo í plús í refsingu. Ég er líka búin að taka góða ákvörðun og horfi núna björtum augum fram á veginn. Ég ætla að byrja upp á nýtt. Hætta að vera að velta þessu of mikið fyrir mér, hætta að spá í kolvetnum og próteini, hætta að hafa svona miklar áhyggjur. Bara gera það sem virkaði best í byrjun. Reyna að halda mig við 1500 kalóríur á dag og æfa eins mikið og ég get. Og leyfa sunnudögum að slafra upp í 2000. Svo er ég að vinna að því að losa mig við 10 pund fyrir 1. maí. Sem stendur er ég að vinna það veðmálið hands down því bara tilhugsunin um að hætta að reykja þeytir Dave í þvílíkt stresskast og kvíðahnút að hann reykir helmingi meira til að reyna að róa taugarnar. Meðan aftur á móti er ég búin að borða og æfa eins og ólympíufari í dag. Og mér líður svo vel núna. Ég ætla bara að slaka á. Þetta er ekki kapphlaup.
Ævintýri í grænu hafa beðið örlitla hnekki. Ég er hætt að kaupa lífræna grænmetiskassann minn, ég hef því miður þurft að skera niður svona ýmsa smáhluti eftir að hafa lækkað svona í launum. Og af því að ég fer aldrei í búð, kaupi bara allan mat á netinu, þá kaupi ég alltaf bara sama draslið. Hef þessvegna ekkert nýtt prófað í langan tíma. En sá svo þessi auglýst um daginn og bíð spennt eftir að þau komi í verlsanir. Pineberry var nánast útdautt í Suður-Ameríku þegar hollenskir bændur byrjuðu að gera tilraunir með að rækta þau. Hvít með rauðum kornum og bragðið víst meira eins og ananas en jarðaber. Ævintýralegt ekki satt?

föstudagur, 2. apríl 2010

Nú er lag að hífa sig upp á rassagatinu og fagna vorinu með góðum skurki. Hreinsa til í sálinni og skoða hlutina eins og þeir eru í alvörunni. Hlusta á góðar ráðleggingar þeirra sem þykir vænt um mig. Staðreyndin er að ég er búin að léttast um 30 kíló. Ég er langt frá byrjunarreiti þrátt fyrir að ég hafi verið að hugsa að undanförnu að ég hafi engu áorkað. Ég er 30 kílóum betur sett núna en ég var í mars í fyrra. Ég hleyp í hálftíma á hverjum virkum degi og lyfti svo þungum lóðum. Þetta geri ég án þess að spá mikið í það. Ég er hraustari og sterkari en ég var í mars í fyrra. Ég kann að elda ótrúlega góðan mat sem er samt hollur og góður. Ég kann mikið meira en ég kunni í mars í fyrra. Akkúrat núna er ég að borða fleiri kalóríur en ég ætti að borða. En ég hreyfi mig það mikið að það þýðir að ég er ekki að þyngjast. Ég sé að fyrr en síðar þarf ég að minnka matinn en það er ENGIN ástæða til að örvænta eins og ég er búin að vera að gera síðustu daga. Ég hef áður skrifað um viljastyrk og allt sem ég sagði þá stendur. Mig vantar ekki mojo, hvatningu eða viljastyrk. Ég þarf einfaldlega að hætta að taka slæmar ákvarðanir og fara að taka góðar ákvarðanir. Og hætta svo þessu djöfulsins væli. Ó, já og ég ætla að taka þátt í áskorun sem var beint að mér. Pick up the gauntlet. Dave hættir að reykja og ég léttist um 10 lbs fyrir 1. maí. Þetta er svakaleg áskorun og verðlaunin eru að hætta að reykja og léttast um tæp 5 kíló og hver vill ekki svoleiðis? Þetta allt saman hefur minnt mig á bjartsýnisröndina mína. Hér er ég, búin þessum ótrúlega eiginleika að geta séð endalausar bjartar hliðar á öllum málum, og gleymi því svo sjálf. Koma svo!


Lúkas hefur frá nánast fæðingu verið heillaður af volcanos. Hann var sannfærður um að fjallið sem við búum við væri eitt slíkt og hann hefur alltaf verið sérlega ánægður með að Ísland væri fullt af volcanos. Hann býr sér til ímyndunarheim þar sem "lava" rennur stríðum straumum og hann á fótum fjör að launa. Það má þessvegna ímynda sér að hann er búinn að vera með á nótunum í fréttaflutningi frá Íslandi að undanförnu. Við horfðum saman á fréttirnar frá í gærkveldi núna í morgun. Þar á meðal var tekið viðtal við Ásmund Stefánson að mig minnir sem var titlaður Eldfjallafræðingur. Sá var með forláta loðhúfu á höfðinu. Ég segi við Láka að það væri nú flott að vera Volcano specialist; eldfjallafræðingur, fyrst hann sé svona spenntur fyrir jarðhræringum. "Yes," svarar barnið, "after all I´ve already got the hat!"

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Og ég gleymdi að segja að ég hef staðið í stað. Djöfuls pirringur núna.