sunnudagur, 7. febrúar 2016

Af ástríðufullu fólki

Ég byrjaði í gær á fjögurra vikna lyftinganámskeiði. Næstu fjóra laugardaga hitti ég sérfræðing í lyftingum sem ætlar að fara yfir allt sem þungum lyftingum kemur, upphitun, næringu, formi og uppbyggingu sett, líffræði og hvað annað sem þarf að vita til að geta lyft þungu svo rétt sé og þannig að gagn sé að. Ég hef náttúrulega verið að lyfta í nokkurn tíma og veit eitt og annað en ég hef aldrei haft neinn sem getur sýnt mér nákvæmlega hvernig á að gera þetta og getur leiðrétt og kommentað á formið mitt. Mig vantar líka að fá smá sjálfstraust. Ef það er eitthvað sem er ógnvekjandi þá er það að labba inn í nýja rækt og að lóðasvæðinu og byrja að lyfta. Það er eitthvað sem ég get ekki gert án þess að vera búin að skoða svæðið vel og vandlega, finna út hvar allt er og hvernig allt virkar, finna út hvenær er minnst af öðru fólki og hver etikettan er hvað notkun lóða varðar. Um leið og allt þetta er komið er ég fljót að byrja að haga mér eins og ég sé heima hjá mér og get byrjað að rymja í testesterónfylltu gleðikasti.
Ég hafði séð fyrir mér að klára námskeiðið og byrja svo að lyfta af alvöru en ég fylltist svo miklum eldmóð við að fara á námskeiðið að ég er búin að ná í lyftingabiflíuna mína og er að skrifa niður prógrammið fír og flamme fyrir mánudagsmorgun. Það skiptir öllu að umkringja sjálfan sig með fólki sem er jákvætt og ástríðufullt um það sem það er að gera. Strákarnir tveir sem sjá um námskeiðið eru báðir þannig, uppfullir af ást á því sem þeir eru að gera og þrá ekkert heitar en að dreifa sem víðast ástinni á járninu. Þegar maður hefur svoleiðis fólk með sér er þetta allt saman auðveldara. Maður smitast af ákefðinni og jákvæðninni og getur ekki annað gert en að hrífast með og það er um að gera að nota það til að koma sér af stað. 
Bolludagur á morgun sem þýðir að langa fasta hefst svo þar á eftir. Er ekki alveg borðleggjandi að taka löngu föstu í þétt lyftingaprógramm fram að Páskadag?


föstudagur, 5. febrúar 2016

Af hálfvita

Ég lagði í ægilega tilraun í þessari viku. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir að tilraunin var kjánaskapur frá upphafi til enda en fór samt í málið. Kjánaprik sem ég og er. 
Ég hafði fyrir þó nokkru sett niður á blað nokkur markmið, og þar á meðal tímasetningar á ákveðnum kílóafjölda náð. Markmiðin voru sett niður þó nokkru fyrir jól og í fyrstu vímunni sem fylgir nýjum og ferskum megrunarkúr. Þar sem allt er mögulegt og allt er borðleggjandi og mánudagar eru bestu dagar vikunnar og allur sá pakki. Ýmis mistök voru gerð í markiðasetningunni og misalvarleg. Mér láðist til dæmis alveg að gera ráð fyrir jólunum. Þegar ég skoðaði svo planið í síðustu viku og sá að ég hafði sagt að ég ætlaði að vera orðin 95 kíló 5. febrúar, fór í gang eitthvert ægilegt keppniskap inni í mér. Vika til að léttast um 2.7 kíló? Hva! Með smá aga gæti ég það sko alveg! Þetta hugsaði ég þvert gegn öllu því sem ég sé og veit og skil og hef lært síðustu árin. 
Ég ákvað því að minnka hitaeiningaskammtinn niður í 1200 á dag og auka aðeins ákafann í hreyfingunni. Inni í mér kveinkaði skynsama Svava sem hefur gert þetta milljón sinnum áður og veit nákvæmlega afleiðingarnar, en keppnis Svava sagði henni nett að halda kjafti, í þetta sinnið myndi þetta sko virka. Ég er jú, margfaldur ólympíumeistari í megrun.
Ég reiknaði út að ég þyrfti að léttast um rúm 400 grömm á dag, sem væri geranlegt með því að brenna um það bil 3000 hitaeiningum yfir daginn. Ekkert mál! kvakaði keppnis Svava um leið og hún rak skynsömu Svövu roknarhögg á nefið svo úr blæddi og skynsemis Svava hljóp grenjandi í burtu. 
Mánudagur byrjaði á bodycombat af ægilegri ákefð eftir kröftugan hjólatúr í ræktina. Sama á þriðjudaginn, spin og magavöðvatími og allur matur af naumum skammti gefinn. Á miðvikudag var ég komin í svona heilagan trúarofsatrans. Ég hreinlega skil núna kaþólikka sem fá út úr því að berja sjálfa sig með svipu og lifa við eilíft samviskubit. Það er eitthvað ótrúlega fullnægjandi í sálinni að kvelja sjálfan sig fyrir æðri tilgang. Það er eitthvað fróandi við að vera betri en maður er í alvörunni.
Á fimmtudag vaknaði ég við drauma um rjómabollur og pönnukökur. Og eyddi deginum í hugaróra um allt það sem ég ætlaði að raða í mig á sunnudag. Frá sólarupprás til sólarlags hugsaði ég um mat. Og varð sorgmæddari og sorgmæddari. Í spin tímanum gat ég lítið lagt í, enda orðin orkulaus og sljó. Í vinnunni tók ég illa í uppástungur um að vinna verkefni aðeins öðruvísi og augun fylltust tárum. Á föstudag gat ég rétt svo tekið í hálftíma jóga. Hendurnar skulfu og sorgin farin að þrúga sálina. Ákvað að vigta mig til að peppa mig upp og það var eins og ég vissi; ég var búin að þyngjast um 400 grömm. 

Ég hef nefnilega gert þetta áður, þetta biggest loser kjaftæði. Og ég veit að það virkar ekki. Hversvegna geri ég það aftur? Það er ekki gott að segja. Þetta hefur eitthvað að gera með að setja sér markmið og standa við þau. Að sýna sjálfri mér að ég sé ekki viljalaus. Að ég sé sterk andlega. Að ég sé sko öngvinn vesalingur. Ég skýt sjálfa mig svo alltaf í fótinn og ég er með nógu mikla sjálfsvitund til að gera mér grein fyrir því. Og andlegi styrkurinn hverfur og ekkert situr eftir nema samviskubitið eftir veisluna sem svo óhjákvæmilega fylgir. Mig langar til að segja að ég sé búin að læra mína lexíu, en ég er bara ekki svo viss. Ég hef það á tilfinningunni að í þessu elífðarverkefni mínu komi alltaf svona dagar eða vikur þar sem skynsemi og sannleikur þurfi aðeins að víkja fyrir tímabundnu brjálæði. Kannski er það eðlilegt, kannski er það bara ég. 

Ég var svo 97.4 í morgun sem er opinberlegur vigtardagur. Hafði lést um 300 grömm þegar uppi var staðið. Ekki næstum 3 kíló eins og ég hafði séð í rósbaðaðri birtunni frá útsýninu sem ég hafði frá vonarhól í upphafi vikunnar. Á ég að segja að ég sé reynslunni ríkari? Sjálfsagt ekki, það er ekki eins og ég hafi ekki gert þetta áður. Ég verð bara að fyrirgefa sjálfri mér hálfvitaskapinn og halda svo áfram. 

sunnudagur, 31. janúar 2016

Af feitum konum


Ég hjó eftir um daginn að Ragga Nagli setti inn facebook status þar sem hún agnúast út í fyrirsögn á dönsku slúðurblaði. Fyrirsögin var eitthvað á þá leið að kona léttist um 92 kíló og varð sæt. Þetta fór fyrir brjóstið á Röggu og flestum lesenda hennar sem þótti þetta vera einelti í garð feitra og enn eitt dæmi um kynbundna árás á konur sem krefst þess að við séum grannar til að geta talist sætar. Að við séum öll falleg. Og vanalega er ég sammála Röggu, enda segir hún margt af skynsemi og prédikar sjálfsást sem ég er einmitt uppfull af. En í þetta skiptið gat ég ekki að gert en að finnast hún tala út um rassgatið á sér eins og við segjum hér í Bretlandi. Og það eru mýmargar ástæður fyrir því. 
Það er alþekkt fyrirbæri í sálfræðinni eitthvað sem heitir halo effect, eða geislabaugsáhrifin. Þetta er það sem gerir það að verkum að fallegt fólk er líklegar til að fá hærri laun, styttri fangelsisdóma, eignast fallegri maka og það sem er kannski órettlátast, lifa lengur. Þetta þýðir að burtséð frá einhverjum tískusveiflum þá er einfaldlega betra að flokkast í þann hóp fólks sem telst fallegt samkvæmt standard daglegum stöðlum. 
Það að léttast um 92 kíló hefur ótrúleg áhrif á sjálfið. Sjálfstraustið eykst sem þýðir að maður verður sætari. Maður sefur betur sem þýðir að maður er ferskur og rólegur og þar af leiðandi sætari. Maður getur keypt sér fallegri föt í mun meira úrvali sem þýðir að maður getur haft sig betur til og verið sætari. Maður getur æft af meiri ákafa sem gerir mann ánægðari svo það geislar af manni og verður sætari. Maður getur stundað kynlíf af miklu meiri krafti sem gerir mann sætari. Já, það eru mýmargar ástæður sem gera það að verkum að maður er sætari eftir að hafa lést um 92 kíló. Og ef satt er að segja þá finnst mér ekkert að því að segja það. Mér finnst ég vera rosalega sæt. En gvuð minn góður hvað ég var miklu, miklu, miklu sætari þegar ég var 84 kíló en þegar ég var 140. Það að banna það að leggja standard á fegurðarstuðul þegar maður er kominn upp í svona tölur er ekki bara barnalegt heldur heimskulegt líka.
Ég segi ekkert um að maður sé betri eða verðugri manneskja þegar maður léttist um 92 kíló. En að maður sé sætari? Já, ég ætla að halda því fram. Og mér finnst sigurinn sem finnst við að taka þetta verkefni svona vel nánast niðurlægður ef það má bara tala um að maður sé heilbrigðari eða hraustari, maður er sætari líka. 
Auðvitað er samfélagið klikk hvað útlit varðar, og það eru ótrúlegar kröfur á að konur líti út á einhvern vissan hátt. En ég tel að hér sé ekki um að ræða sama hlutinn þegar maður fordæmir tískuverslanir sem sýna bara gínur í mínusnúll stærð og þegar manneskja sem léttist um 92 kíló er talin sætari. 
Ef þú segir mér að þú sért feit kona vegna þess að það sé lífstíll sem þú velur þá er það fínt og þitt mál. En þegar sama manneskja segir líka að hún sé feit kona þrátt fyrir að borða hollan mat og hreyfa sig reglulega og ég eigi samt að meta líkama hennar sem fallegan renna á mig tvær grímur. Það er það sama og segja að einhver sé fallegur af því að hún sé hvít, eða ljóshærð.
Er semsagt alveg bannað að vera ljótur nú til dags? Og hversvegna þarf endilega að halda því fram að við séum öll falleg? Það hljómar eins og eitthvað sem ljótt fólk segir.

laugardagur, 30. janúar 2016

Af sokkaböndum

Þetta mjatlast.
Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð stolt af þessu kílói. Ég þurfti að ferðast fyrir vinnuna og var að heiman þriðjudag og miðvikudag sem hafði áhrif á allt. Á ferðir í ræktina, á matarplan og á valmöguleika. Ég planaði þessvegna eins mikið og ég gat og minnti svo sjálfa mig á að þegar ég hef ekki stjórn á umhverfinu mínu þá hef ég alltaf stjórn á hegðun minni innan þess umhverfis. Og ég hef greinilega gert eins vel og hægt var. 
Það var líka voðalega gaman að hitta vinnufélagana í Brighton. Ein þeirra hafði misst af mér siðast þegar ég kom og sá þessvegna heilmikinn mun á mér. Hún, eins og algengt er, vildi fá að vita "leyndarmálið". Mig langaði voðalega til að segja henni eitthvað hressandi og sexý en varð svo að viðurkenna að "leyndarmálið" er álíka sexý og sokkar í sandölum. Borða minna, hreyfa sig meira. Mér finnst voðalega leiðinlegt að þurfa að segja fólki frá þessu. Ætla þessvegna að fara að vinna í að pakka sannleikanum inn í sokkabönd og kloflaust nærhald og selja þannig. Kannski að þannig gæti ég hætt að vinna hjá Lloyds og unnið bara í að selja "leyndarmálið"? 

sunnudagur, 24. janúar 2016

Af heilindum

Ég fæ ennþá þónokkuð af tölvupósti frá fólk sem les bloggið mitt. Mér finnst það afskaplega gaman og reyni eftir bestu getu að svara spurningunum sem ég fæ. Ég held nú samt að mér hafi mistekist að svara aðal spurningunni; hvernig á ég að fara að því að ná tökum á spikinu? 
Ekki vegna þess að ég vilji ekki svara, eða að ég sé að halda "leyndarmálinu" fyrir sjálfa mig. Ekki vegna þess að svarið sé of langt eða flókið. Það er aðallega vegna þess að flestir vilja ekki heyra svarið og skilja ekki hvað ég reyni að segja. Ég hika líka við það af ótta við að hljóma hrokafull eða sjálfbirgingsleg. Ég ætla samt að láta á reyna hér og setja niður að hverju ég hef komist.

Það hefur tekið mig mörg ár að komast niður á að sannleikur er svarið. Andartakið þar sem maður hættir að ljúga og öðlast alvöru sjálfsmeðvitund er andartakið sem hægt er að byrja að vinna í breytingum af alvöru.

Ertu búin að "standa þig vel" alla vikuna? Ertu búin að vera "rosalega dugleg"? Ertu búin að afþakka köku í vinnunni? Ertu búin að fara í göngutúr? Og léttist samt ekki? Nú, þá ertu að ljúga. Aðallega að sjálfri þér, en lygi er það engu að síður. Þetta er mjög einfalt.

Ertu búin að skilgreina hvað það þýðir að standa sig vel? Er það huglægt, óskilgreint mat sem felur í sér að borða "hollt"  en gerir ekki neitt ráð fyrir að hollustan inniheldur hnetur og dökkt súkkulaði og kókósrjóma og döðlur og avókadó og allt holla dótið sem er hlaðið hitaeiningum? Ókei, hitaeiningar eru ekki skapaðar jafnar en þegar maður er komin upp í 3000 af þeim yfir daginn skiptir litlu hvort það var með BigMac eða hrárri kasjúhnetukókósolíuhrásúkkulaðihnetubombuköku. Hér er kjörið að hætta að ljúga og taka magnið saman af alvöru. 10 grömm, 10 grömm! af hnetum eru að meðaltali 60 hitaeiningar. Hnetur eða fræ sem maður stráir hugsunarlaust yfir meinhollann hafragrautinn eru oftast um 30 grömm. Það eru 180 hitaeiningar sem maður taldi eflaust ekki með. Númer eitt er þannig að skilgreina hvað er að standa sig vel og gera það svo í alvörunni.

Hvað er það að vera dugleg? Að afþakka köku í vinnunni en raða svo kexpakka í sig í einrúmi heima? Þá hefði verið betra að njóta kökunnar með vinnufélögunum frekar en að lifa með laumuátsskömminni. Þetta var minn akkilesarhæll árum saman. Að halda því blákalt fram að "ég borða ekki svo mikið!" Jú, fyrir framan aðra. Í einrúmi hinsvegar raðaði ég í mig af einurð, skipulagi og festu. Eitt það erfiðasta sem ég hef nokkrum sinnum gert að sýna Dave tóman kexpakkann í ruslinu. Ég þarf enn, eftir 7 ár, að passa mig að fela ekki pakkningar sem ég dæmi sem óhollar undir öðru rusli. Ég þurfti að æfa mig í að borða af ánægju fyrir framan fólk. Og það var heilmikið mál. En það var líka algerlega lausnin að þessu. Fyrsta skrefið að frelsi er að hætta að ljúga. Skýlaust. Allt, allt sem maður gerir í einrúmi, í skömm, allt þarf að draga fram og viðurkenna.

Þegar maður öðlast þessa sjálfsmeðvitund er svo næsta skref að vinna með sannleikanum. Sjálf geri ég það hér og svo með nokkrum öðrum tækjum og tólum. Ég held nokkuð nákvæma dagbók yfir hvað ég borða. Það tók mig langan tíma að þjálfa mig upp í að skrifa allt niður. Ef það er ekki skrifað niður gerðist það ekki gengur náttúrulega ekki upp í heimi sannleikans. Ég skrifa líka niður alla hreyfingu. Þannig veit ég hversu þungu ég lyfti í síðust viku eða hversu langt ég hjólaði og get bætt aðeins við í næstu viku. Ég hripa líka hjá mér hversu vel ég tók á. Af algerum sannleika gef ég mér % af ákefð. Lagði ég í alvörunni allt mitt í æfinguna? Ef svarið er nei þá veit ég það. Og geri betur næst.

Ég held líka heilindaskrá. Heilindaskráin er eitthvað sem ég reyni að gera reglulega. Þar skora ég á sjálfa mig til að koma með sönnun fyrir því sem ég held fram að ég sé að gera. Ég segist vera að borða hollt? Sannaðu það. 

Þessi sjálfsmeðvitund er algert lykilatriði að velgengni. Ef þú veist ekki hvað þú ert að gera þá geturðu ekki breytt neinu. Um leið og þú hættir að ljúga og mælir hegðun, hugsun og gjörðir í einhvern tíma getur sett baseline fyrir góða hegðun. Án sjálfsmeðvitundar og mælinga er ekki hægt að setja markmið, þú veist ekki hver raunveruleikinn er.


laugardagur, 23. janúar 2016

Af sálfræði

Ég var svo viss um að ég stæði í stað í þessari viku að ég eyddi þó nokkrum tíma á föstudagskvöldið í að upphugsa allskonar aðferðir sem myndu halda mér á góðu róli þegar ég myndi sjá sömu leiðindatöluna á vigtinni og í síðustu viku. Ég er ekki alveg viss um afhverju ég var svona viss um enga hreyfingu á spiki, ég hafði tvisvar sinnum verið stoppuð á gangi í vinnunni og verið hrósað fyrir sýnilegt fitutap og ég hafði farið í buxur sem ég hef ekki notað áður. Ég hafði einhverntíman tekið þær úr rekka á útsölu án þess að prófa og þegar heim var komið kom í ljós að þær voru aðeins of litlar. Ég nennti ekki að skila og setti bara inn í skáp. Datt svo í hug í vikunni að prófa þær og hey prestó! Smellpössuðu. Út frá því datt mér í hug að þó ég hefði kannski ekki misst nein grömm eða kíló þá gerist það oft hjá mér að spikið svona endurraðar sér utan á mér. Verður svona álitlegra eitthvað. Hvað ef ég kæmist núna aftur í buxur sem ég lagði hljóðlega til hliðar fyrir nokkru síðan þegar ég hætti að geta hneppt þeim? Það myndi nú vera hressandi og hvetjandi æfing, og það meira að segja þó engin hreyfing væri á vigtinni. Sjálfri finnst mér ótrúlegt að nokkrir spintímar og einn og einn pump tími geri það mikinn mun á vöðvamassa að maður léttist ekki. Fólk ofmetur hreyfingu sem þátt í þyngdartapi að mínu mati, það er.   Allt of auðvelt að fara tvisvar í viku og dóla sér á stigavélinni og borða svo tvöfalt meira í verðlaun. Og gapa svo í forundran og svekkelsi þegar vigtin sýnir meira en maður vill. Hreyfing er fyrir sálina, ekki fyrir líkamann, eins skrýtið og það nú er. 
Hvað um það, ég lét Dave ná í kassann með "vonandi einn daginn" fötunum mínum í morgun og dró upp buxurnar. Og mér til mikillar ánægju gat ég hneppt þeim. Ég myndi ekki segja að þær smellpössuðu en ég gat hneppt. Ég fór því salíróleg á vigtina. Skipti mig engu máli hvaða tala kæmi upp, ég var róleg í þeirri fullvissu að ég væri á réttri leið. Ég tók því þessvegna mjög rólega þegar ég sá að ég hafði lést um 1.2 kíló. Önnur kúla komin í marmaraskálina, 400 grömmum léttari en um jól og rétt rúm 10 kíló farin á fjórum mánuðum.
Hvernig er það? Á ekkert að fara að keep up with the Jones'?
 Aftur í buxurnar.

sunnudagur, 17. janúar 2016

Af holdafari

Ég léttisi ekki um eitt gramm í þessari viku. Og var nokkuð ánægð með hvað ég er orðin þjálfuð í að halda kúlinu. Ég auðvitað vonast eftir að sjá lægri og lægri tölu hverju sinni, en þegar það gerist ekki er ég líka alveg sallaróleg. Ég veit ég er að grennast, mér finnst ég slétt og hraust og vigtin er ekki be all and end all eins og þeir segja hér. Mér finnst gott og sjálfsagt að vigta mig til að hafa viðmið en hamingja mín veltur ekki einungis á tölunni. Mér finnst hinsvegar afskaplega skrýtið þegar fólk segir að holdafar tengist ekki hamingju. Nú veit ég að það er hroki einn að áætla að feitir séu ósjálfrátt óhamingjusamir og það er líka rugl að gera ráð fyrir að feitir séu algerlega óheilbrigðir. En það forðar því ekki að holdafar er einn þáttur, og það nokkuð stór, sem spilar inn í hamingju manns. Þannig myndi ég telja að góður nætursvefn myndi stuðla að almenni hamingju. Góður nætursvefn er ekki einfalt mál fyrir of feita. Sama gildir um að vakna og komast fram úr án liðaverkja, bakverkja og annarra slíkara kvilla. Að vera verkjalaus gerir mig allavega hamingjusamari. Svo er alltaf næs að geta farið inn í skáp og valið úr fötum sem eru sniðin og falla vel að líkamanum en eru ekki bara mismunandi útgáfur af tjöldum. Svo er gott að geta setið í lest án þess að fylla upp í tvö sæti, það er næs að enginn stari á mann með viðbjóðssvip og það er gott að geta tekið þátt í íþróttum, í leikjum með börnunum og lífinu yfir höfuð. Allt þetta er helmingi auðveldara með minna spik í farteskinu. Þessvegna finnst mér stórfurðulegt þegar fólk segir að holdafar tengist ekki hamingju. Nei, það er kannski ekki eini þátturinn en maður lifandi hvað það er auðveldara að vinna að hamingju ef maður þarf ekki líka að hafa áhyggjur af spikinu.