mánudagur, 16. janúar 2017

Af auðmýkt

Ég lagði af stað í rækt klukkan fimm þrjátíu í morgun, hjólaði galvösk í gegnum velska rigningu til að hitta á Paddy klukkan sex. Tíminn með honum var svo betri en ég þorði að vona. Hann hafði ekki sent mér prógrammið mest megnis vegna þess að hann vildi fara í gegnum það með mér. Sýna mér allar hreyfingarnar og passa að ekkert væri of mikið fyrir bak og hné. Svo var hann líka með vitlaust netfang. Allt fyrirgefið og ég hlakka núna bara til að vinna með honum. 

Hann vill að ég haldi líka út matardagbók. Ég ætlaði fyrst um sinn að malda í móinn. Hvað gæti hann, þvengmjór drengstaulinn sagt mér til um mataræði? Það er EKKERT sem ég veit ekki um hvernig á að borða mat í aðhaldi! En svo mundi ég að mottóið í ár er auðmýkt. Ég er að reyna að hætta að vera svona hrikalega hrokafull. Þannig að ég ætla samviskusamlega að hripa allt niður fyrir hann og sjá hvað hann segir.  Ég hef reyndar haldið úti myndamatardagbók með vinkonu minni á FB um nokkurt skeið en kannski verður áhugavert að heyra hvað 25 ára strákpjakkur segir um matinn minn?

Kjúklingaleftovers með grænmeti

Túnfisksalat, nachos og skyr

Bananni og 20 g af hnetusmjöri

Yfirnáttúrulegir hafrar með rúsínum, kanil og grískri jógúrt.sunnudagur, 15. janúar 2017

Nýtt, allt nýtt.

Þessi vika er búin að vera heldur annasöm. Ég hitti nýja þjálfarann minn síðasta mánudag í fyrsta sinn og líkaði vel. Hann var heldur blíðlegur að mínu mati, vildi taka öllu mjög rólega til að kanna hvernig brjósklosið og hnén myndu standa sig. Ég hafði líka á tilfinningunni að hann sé ekki vanur að gamlar kellingar eins og ég vilji bara lyfta þungum lóðum. Hann sagðist þurfa að skoða vel og vandlega hvernig hann myndi setja upp plan fyrir mig sem taki bak og hné inn í dæmið. Þetta er eflaust allt mjög skynsamlegt en ég verð að viðurkenna að ég var smávegis svekkt, ég vil bara djöfulgang og testesterón og svita. Ég bjóst svo við að hann myndi senda mér prógram í vikunni en ég hef ekkert heyrt í honum síðan á mánudag. Er dálítið svekkt en verð að gefa honum tækifæri. Við eigum að hittast aftur í fyrramálið. Og ég er loksins tilbúin í að gefa mig í verkefnið.

Ég var nefnilega líka smávegis fegin að hafa ekki prógramm. Það var allt vitlaust að gera í vinnunni. Ég þurfti að setja saman skýrslu fyrir fjármálaeftirlitið sem þýddi gífurlegt stress og mikla yfirlegu. Og ég hafði bara engan tíma til að hugsa um ræktina eða matinn sem ég var að borða. Ég reyndi einsg og ég gat fram eftir vikunni en ég skal bara viðurkenna að á fimmtudagskvöld gafst ég upp og þurfti algerlega að nota alla orku sem ég átti í vinnuna. Gat bara ekki eytt tíma í að plana matseðil, búa til nesti eða hnykla viljastyrksvöðvann. Og það bauð heim sérlega smekklegu ofáti um helgina. Fínt, búið. Byrjum aftur.

Dagurinn í dag bauð svo fallega upp á nýjar og ferskar byrjanir. Ég þreif allt húsið og tók þvottahúsið í gegn þar sem ég var að fá nýja þvottavél. Fórum svo með allskonar drasl í endurvinnslu og fékk svo matarsendinguna fyrir vikuna frá ASDA. Það er því allt hreint og fínt, í röð og reglu með nýja þvottavél og fulla skápa af fallegum mat. Og þannig er það. 

Skinny kjúklingabaka, gulrætur og grillaðar nípur. 

miðvikudagur, 11. janúar 2017

Samanburður er dauði gleðinnar

Það er ekki hægt að snúa sér við án þess að rekast utan í einhvern sem er að dítoxa, eða í átaki eða er að breyta lífstíl í vinnunni akkúrat núna. Kannski óhjákvæmilegt á þessum árstíma, fólk gerir sífellt betur og meira við sig yfir aðventuna sem líka virðist lengjast stanslaust og því meiri ástæða til að reyra sultarólina eftir veisluna í desember,
Teymið sem deilir hæðinni með mínu teymi er búið að setja upp keppni sín á milli um hver getur lést mest á næstu vikum. Svona Biggest Loser dæmi eitthvað. Ég var að spjalla við eina úr því teymi í dag þegar hún sagði mér hvað hún er þung, hversu mikið henni brá við að sjá upphafstöluna sína. "93 kíló! stundi hún. Ef hún væri Íslendingur hefði þetta verið sagt á innsoginu. "Ég er 93 kíló! Ég er skrímsli!" kveinaði hún.
Ég var alveg rosalega hissa. Í fyrsta lagi að hún skildi segja mér hversu þung hún er. Það er vanalega algert tabú að segja upphátt hversu þungur maður er hérna, ég held ég hafi bara aldrei heyrt aðra breska konu segja mér raunþyngd. Í öðru lagi þá var ég hissa á hversu þung hún er. Ég hélt í alvörunni að ég væri eina manneskjan sem er þyngri en ég lít út fyrir að vera. Ég hefði aldrei giskað á að hún væri mikið yfir 80 kílóum. Ekki að það skipti máli, það er alltaf að verða augljósara að meðalþyngd og staðlar bara virka ekki á manneskjur. Engu að síður þá rak mig í rogastans. Kannski að hér væri einhver loksins sem ég geti borið mig saman við til að reyna að sjá utan frá hvernig ég lít út í alvörunni. Mig vantar alltaf einhvern sem ég get borið mig saman við til að reyna að lækka í mér rostann. Ég nefnilega held að ég haldi bara að ég líti út fyrir að vera mjórri en ég er.


Alltaf sami hrokinn í mér. Málið er nefnilega að hér er ég 102 kíló en engu að síður í hné háum leðurstígvélum og Boss kjól (einn af 5 flíkum sem ég ætla að kaupa í ár) og mér finnst sjálfri ekki eins og ég sé 102 kíló. Ef mér væir ekki svona illt í hnjám og baki myndi ég í alvörunni bara segja fokk it og gleyma þessu vafstri. En mér er illt og ég verð að taka á því. 

En djöfull var gott að vita að það eru fleiri hlussur þarna úti en bara ég. 

sunnudagur, 8. janúar 2017

Af marglyttum

Ég mætti aftur í vinnu eftir alveg hrikalega gott jólafrí. Satt best að segja var þetta eiginlega of gott jólafrí. Eftir geðsjúklegt stress í desember gat ég eiginlega ekkert gert nema legið í sófanum og dormað á milli þess sem ég raðaði súkkulaðimolum eins og tetris kubbum upp í mig. Þetta var alger slökun og algerlega það sem mig vantaði .Ég núllstillti alveg. Jólin voru yndisleg, og áramótin hrikalega skemmtileg þar sem við fórum í nett partý til Coventry.

Ég er samt að díla við mikla togstreitu núna. Ég nefnilega þyngdist all svaðalega á þessu tímabili, fyrst í stressinu í desemberbyrjun og svo í slökuninni í desemberlok. Og hreyfði mig ekki rassgat allan mánuðinn. Það hefur skilað sér í aunum hnjám, töpuðu þreki og 102 kílóum. Semsagt aftur yfir hundrað sem átti enn einu sinni að vera algert nó nó. Ég er þessvegna alveg í mínus yfir þessari gengdarlausu spiksöfnun en á sama tíma hefði ég ekki breytt einni mínút af fríinu. Ó fokk it. Það þýðir ekkert að grenja um þetta.

Í stað þess að grenja fór ég í ræktina fyrir helgi og fann mér einkaþjálfara. Ætla að hitta Paddy núna vikulega næstu þrjá mánuðina svona alla vega. Hann ætlar að hjálpa mér aftur inn á beinu og breiðu og setja smá stefnu í þetta hjá mér. Við ætlum að einbeita okkur að lyftingum og að koma bakinu í betra lag. Hann er með prógram sem miðar að ná persónu meti á mánaðarfresti sem hentar mér mjög vel. Ég þarf nefnilega að taka smá fókus af vigtinni. Þegar ég fattaði að ég var orðin 102 kg féllust mér nefnilega hendur. Og í stað þess að fíleflast og þruma þessu af mér varð ég bara leið og niðurdregin og kláraði Mackintoss dósina. Og keypti svo meira súkkulaði.

Já, ég er stefnulaus og ringluð akkúrat núna og vantar hjálp. Ég þarf á þjálfaranum að halda og ég þarf á stuðningi frá vinum. Sem betur fer fékk ég þessa litlu fartölvu í jólagjöf og get núna farið að skrifa almennilega aftur. Það er bara allt annað líf að hafa lyklaborð!

Nýja árið byrjað því svona hálf álappa-og silalega. Kominn áttundi janúar og ég enn bara búin að hugsa um stefnu, en hef ekkert enn gert í málunum. Ég er hinsvegar ákveðin í að láta ekkert ná mér niður, ekki einu sinni að fara aftur yfir hundrað. Ég ætla að vera þakklát, auðmjúk og hugrökk. Það er það sem ég ætla að gera.

laugardagur, 10. desember 2016

Af ullarsokkum

Í biflíunni stendur einhversstaðar að "this too shall pass." Ég hef setninguna reyndar úr Julia Roberts myndinni My best friend's wedding, en hvað sem því líður er hún sönn og falleg. Flest líður hjá. Líka ofát. Ég geri eins og alltaf og held mínu striki á mánudagsmorgni. Tók viku í að fyrirgefa sjálfri mér og svo er ég eins og nýsleginn túskildingur. 

Síðust tvær vikur hafa svo verið algerlega út úr kú hvað stress í vinnu varðar. Þannig að ég hef ekki tíma til að fara á klósettið hvað þá að spá í hvað ég er að borða, ef ég þá næ að setja eitthvað í mig. Öll æfingin í að borða eftir hungri kemur sér vel núna og þegar ég lít tilbaka er ég nokkuð ánægð með magn þó gæði hafi verið í klénni kantinum. Hitt er svo að ég er lika ánægð með hversu vel mér tekst að fríka ekki út í samviskubiti eða rugli yfir að hafa ekki tíma í að hugsa almennilega um sjálfa mig, ég veit að þetta er tímabundið ástand. 

Ég hef til að létta á stressi fundið fró í sýndarheimsinnkaupum, virtual shopping. Það er mikil stresslausn fyrir mig að versla. Föt, mat, snyrtivörur, skó, skiptir litlu, mér líður betur þegar ég kaupi eitthvað. Ég hef svo líka komist að því að það virðist vera nóg að safna myndum a pinterest. Ég skoða og vel allskona dót sem mig langar í og það virðist veita nánast sömu áhrifin og að kaupa drasl í alvörunni. Nánast. En ekki alveg.

Um síðust áramót ákvað ég að draga úr neyslu í 12 mánuði. Mér hreinlega blöskrar ruglið sem er í gangi hvað varðar þessa einnota tísku. Ofneyslan, umhverfis-og félagsleg áhrif, allt. Og þetta gekk ljómandi vel. Í apríl eða maí sat ég svo við morgunverðarkaffibolla með íslenskt tískutímarit fyrir framan mig og sá auglýsta íslenska ullarsokka. Ég man ekki hvernig ég réttlætti en sokkana keypti ég.
Ég var hæstanægð og sá ekki mikið að að eyða í sokka. Ég á núna reyndar bara einn, hinn farinn hvert svosem það er sem hinir sokkar fara. 

Svo varð ég mjó. Ég var sko orðin 109 kíló í Septmeber 2015 en í maí 2016 var ég komin niður í 95. Og mig hreinlega vantaði nýtt. Ég ákvað að reglan væri að ég mætti kaupa mér dýra, vel gerða flík. Designer kjól sem væri alvöru. Og ég keypti mér æðislegan kjól frá Warehouse, helmingi dýrari en ég vanalega eyði í kjól og ég var í honum annanhvern dag í sumar. Og fékk hrós í hvert sinn. Hann er líka æðislegur við sokkabuxur og hnéstígvel nú þegar er kominn vetur. Algjört uppáhald og sannfærði mig um réttmæti þess sem ég var að gera. 

Síðan þá er ég búin að kaupa einn svartan einfaldan vinnukjól fyrir ráðstefnu sem ég fór á, diskógallann fyrir verðlaunaafhendinguna, eina skyrtu og nú síðast æðislegan Jigsaw ullarkjól í vinnuna. Þrisvar sinnum dýrari en það sem ég keypti áður en ég sver þetta er kjóll sem ég á eftir að nota í langan tíma.
Ullarkjóllinn næst á myndinni. Hitt er allt sem ég hef keypt í ár. Þetta er ágætis árangur af áramótaheiti.
Síðast þegar ég fór til London ákvað ég svo að bæta mér upp ullarsokkinn tapaða og keypti þessa á Borough Market: 
Glæsilegar mörgæsir og ég fer í þá á hverjum degi um leið og ég kem heim úr vinnu. Væri helst til í að fara aftur til London og kaupa annað par. 

Ég ber saman myndina hér að neðan, tekin á klósetti í lest á leið á ráðstefnu, við myndir teknar í September árinu á undan, og ég réttlæti auðveldlega nýjan kjól. Ég átti hann skilið. Ég er þvengmjó!

Ég tel svo ekki með föt sem eru gjafir eins og forláta lopapeysa sem mamma prjónaði handa mér og ég nota við öll tækifæri.
Ég er ekki búin að ákveða nýtt áramótaheit en ég ætla að tvímælalaust að endurnýja þetta gamla og kaupa eins lítið af drasli og mögulegt er 2017. Ég er tvímælalaust kátari manneskja fyrir þetta. 

sunnudagur, 27. nóvember 2016

Af ofáti

Ég er búin að vera í greipum ofátkasts (binge) núna í rúma viku. Ég byrjaði að plana það með nokkurra daga fyrirvara og sanka að mér allskonar gúmmilaði. Og svo byrja ég að borða. Með stjörnur í augum og berjandi hjartslátt af spenningi byrja ég að troða í mig af jafn mikilli ákveðni og ég á sama tíma leyfi " mér er sama um allt" taka yfir hugann. 
Binge leyfir mér að setja allt annað til hliðar. Binge leyfir mér að bara taka pásu frá öllu sem er að angra mig. Áhyggjum, stressi, þreytu, spiki, leiðindum. Allt hverfur á meðan ég einbeiti mér bara að því að borða. Þetta er eins og að fá frí, eða langa pásu frá sjálfum sér. Eins og maður sé bara í einangrunarkúlu þar sem ekkert kemst að nema matur.
Ég hafði aldrei hugsað þetta svona áður. Það er ótrúlegt hvað gerist þegar maður reynir að komast að því hvað er að gerast þegar maður hagar sér svona fremur en að verða bara reið út í sjálfa sig. Ókei, ég ætla að binge-a, hversvegna? Hvaða coping mechanismi er það? Hverju er ég að reyna að ná fram með að borða svona?  Og ég kemst að því að ég er þreytt og eg er stressuð. Mig vantar pásu frá lífinu. Og það er ekkert betra til að stöðva allt, til að algerlega stíga út úr vandamálum hversdagsins en að éta sér til óbóta. 
Þetta er í raun ótrúleg hugljómun. Því nú get ég reynt að finna aðrar leiðir til að veita sjálfri mér þessa pásu frá lífinu þegar ég þarf á henni að halda. Þó það sé ekki nema að einfaldlega setjast niður og anda inn og út í fimm mínútur á dag. 
Og núna er ekki tími til að hata sjálfa mig eins mikið og mig langar til þess. Núna er einmitt tími til að sýna sjálfri mér eins mikla ástúð og umhyggju og ég mögulega get. Dugleg stelpa segi ég við sjálfa mig. Þig vantaði pásu og þú gafst sjálfri þér það sem þig vantaði. Næst manstu bara að prófa eitthvað annað en mat. Gítarinn, lyftingar, heimsókn til vina, klipping eða nudd. En vel gert að reyna þitt besta til að hugsa um sjálfa þig. 
Næst ætla ég líka að reyna að muna að finna bragð. Ef ég er að borða á annað borð allt uppáhaldið mitt þá get ég allt eins reynt að njóta þess.

sunnudagur, 6. nóvember 2016

Ristað brauð með marmelaðiÉg tók þessa mynd á fimmtudagskvöldið síðasta. Ég var á hótelherbergi í Edinborg, við að fara á verðlaunaafhendingu í vinnunni. Ég er 97 kíló á myndinni og hefur sjaldan eða aldrei þótt ég jafn sæt. Ég er búin að skoða þessa mynd síðan ég tók hana til að reyna að skilja afhverju mér líður svona vel með sjálfa mig. Við vitum öll að 97 kíló er allt of þungt fyrir konu sem er 167 centimetrar að hæð og það er ekki eins og ég sé grönn. Ég hef líka bæði verið grennri og í betri þjálfun en ég er núna en engu að síður held ég að mér hafi sjaldan liðið betur, í líkamanum. Mér finnst ég vera "powerful". Ég get ekki þýtt orðið því ég á ekki við að ég sé kraftmikil en heldur ekki valdmikil. Kannski að þróttmikil sé besta orðið? Powerful að því leytinu að ég hef kraft inni í mér, ég hef vald yfir sjálfri mér og ég er full af þrótti. 

Það eina sem mig hefur alltaf langað er vera venjuleg. Mig langaði svo til að geta bara fengið mér að borða án þess að "líða" einhvernvegin með það. Að það að borða væri bara það; matur í munn, orka í kropp, búið bing bing bing bong. En allur tíminn sem ég hef eytt í að setja orthorexiu reglur hafa kannski skilað árangri á vigtinni en venjulega markmiðið fjarlægðist stöðugt. Ég held að núna þegar ég er búin að fjarlægja allar reglur sé eins og þetta markmið sé í sjónmáli. Ég þarf stanslaust að minna mig á hvað ég er að reyna að gera. Minna mig á að athuga hvort ég sé svöng, spurja sjálfa mig hvað ég er að reyna að fylla þegar ég borða þegar ég er ekki svöng og vinnan sem fer í að fyrirgefa sjálfri mér þegar ég borða er gífurleg. En þetta er allt að koma. 

Ég ristaði brauð í morgunmat. Tvær brauðsneiðar, af því að það er pláss fyrir tvær sneiðar í vélinni og það er asnalegt að gera bara eina. Setti marmelaði og ost á sneiðarnar, hellti upp á kaffi og settist við eldhúsborðið til að borða. Borðaði hægt og róleg og naut hvers bita. Þegar ég var byrjuð á seinni sneiðinni datt mér allt í einu í hug að það að rista tvær sneiðar væri kannski bara eitthvað sem fitubollur gera. Kannski finnst mjóu fólki í lagi að hafa eitt ristiplássið autt? Hvað ef ég rista alltaf tvær og borða svo tvær bara af því að brauðið er núna fyrir framan mig? Ég byrja að þreifa fyrir mér í smá panikki til að tjékka hvort ég sé enn svöng. Jú, tvær sneiðar virðast vera rétta magnið en hvað ef ég ætti bara að gera eina sneið fyrst og svo aðra ef ég væri enn svöng? Hvað gerir mjótt fólk??? Spáir það í þessu???? Ég reyni að róa mig niður, slakaðu á segi ég við sjálfa mig. Njóttu sneiðarinnar, manst að þú er sátt, þú veist hvað þú ert að gera. 

Jú, þetta er allt að koma en samt. Það er erfitt að stanslaust þurfa að spá svona í þessu. Ég horfi á myndina af sjálfri mér og hugsa með mér að þetta allt, þessi vinna hlýtur að vera þess virði fyrir að smá saman líða betur, og að lokum vera sátt við mig eins og ég er núna.