sunnudagur, 12. mars 2017

Plan, plan, plan.

Ég er að hugsa um að hætta með Paddy. Hrokinn sem í upphafi lét mig hafa efasemdir um hversu vel við myndum vinna saman virðist hafa verið á rökum reistur. Paddy er einfaldlega of ungur, of óreyndur til að geta dílað við svona kellingu eins og mig. Og ég er bara ekki að fá það út úr sambandinu sem ég óskaði eftir. Eiginlega alveg öfugt.

Nú er ég alveg með á hreinu hvert mitt hlutverk í sambandinu er, það er ekki eins og ég sé haldin einhverjum villigrillum um að það eitt að borga einkaþjálfara þýði að ég þurfi ekki að gera neitt og að ég vakni bara mjó að morgni til. Ég veit að ég þarf að mæta í ræktina, gefa 100% í hverja æfingu og standa algerlega skil á minu af hreinskilni og natni. Það sem ég ætlaðist síðan af honum fyrir peninginn sem ég borga honum var gott æfingaprógramm sem héldi mér við efnið og tæki mið af brjósklosinu en aðallega var ég að sækjast eftir "accountability". Frá honum til mín það er að segja. Ég ætlaðist til að hann myndi krefjast ábyrgðar frá mér á athöfnum og ákvörðunum mínum. Að hann myndi fá mig til að verða aftur kappsöm. Að hann myndi hjálpa mér til að finna markmiðið með þessu.

Þess í stað hefur hann mætt illa, og þegar við vinnum saman er það ég sem þrýsti á að vinna meira, þyngra, hraðar. Hann er eins og smávegis hræddur við mig. Hann frestaði svo alveg síðustu tveimur tímum sem þýðir að ég er ekki búin að mæta núna í tvær vikur. Eins og áhugaleysi hans hafi smitast yfir í mig og ég sé lítinn tilgang í að mæta sjálf.

Ég er ósköp leið yfir þessu. Mig langaði svo að fá smá innspýtingu, eitthvað sem myndi koma mér í gang aftur og upp úr þessu "sjá allt sem ég hafði áður en hef glutrað úr greipum mér" hugsanahætti, en það virðist sem ég sé aftur komin aftan fyrir byrjunarreit.

Mig vantar bara svo eitthvað konkret að vinna að. Áfangastað og endapunkt sem ég get svo endurskoðað þegar þangað er komið. Ég borgaði fyrir 3 mánuði með Paddy þannig að ég ætla að klára það dæmi og á meðan það rennur sitt skeið ætla ég að hugsa mitt mál. Nú er komið vor og tilvalið að fara að huga t.d. að lengri hjólatúrum og lengri göngutúrum. Það hlýtur að vera markmið að setja. Hvað með að geta hjólað frá Wrexham til Liverpool? Ég get auðveldlega hjólað til Chester og mér skilst að þaðan sé hjólastígur alla leið til Mersey. Setja mér að gera það einhvern ákveðinn dag. Í Júní kannski? Það er ágætis hugmynd. Svo er ég líka búin að kaupa flugmiða heim í Ágúst. Kannski að ég geti sett sem markmið að geta labbað upp eitthvert fjallið á Íslandi?

Sko! Þetta var nú ekki svo erfitt svona þegar ég set smá hugsun í það. Og svona kemur byrjun á plani. Og það vita allir að planlaus kona er glórulaus kona. Nú er það bara að setja endapunkt á binge-ið sem ég er búin að leyfa mér að undanförnu og byrja að hugsa vel um sjálfa mig. Hálfnað verk þá hafið er og allt það.

fimmtudagur, 23. febrúar 2017

Áróður


Lúkas er í vetrarfríi og við mæðginin ákváðum að nota tækifærið og smella okkur í nokkra daga til London til að skoða svona helstu mann-og menningarvirki. Lúkas er mikill söguáhugamaður og þá sér í lagi um styrjaldirnar fyrri og síðari. Hann var því einna kátastur í Imperial War Museum þar sem hann drakk í sig upplýsingar um hrylling stríðsreksturs. Að sjálfsögðu fann ég þar í minjagripaversluninni þessa eftirprentun af áróðursplakati sem talaði til mín. Skilaboðin skýr þó nánast aldargömul og eiga vel við þó af öðrum ástæðum en þá.

Hugsunarleysi er sjálfsagt eitt af mínum stærstu vandamálum hvað mat varðar. Ég er búin að missa tökin á því sem ég var orðin svo flink við; að eyða einum degi vikunnar í að skipuleggja matinn fyrir komandi viku, elda og plana. Núna fer ég í búðina á leið heim úr vinnu, gríp eitthvað rugl með mér og er svo ekki með neitt skothelt í nesti daginn eftir. Ég er líka hætt að gefa mér tíma í að stússast í eldhúsinu og sakna þess.

Ég ætla þessvegna að leggja áherslu á þetta núna næstu vikurnar. Koma mér aftur inn í skipulagið þar sem ég setti up vikumatseðil, fékk allt í hann sent heim vikulega og eyddi svo tíma í að undirbúa eldamennskuna svo það var ekkert mál að koma heim á kvöldin og elda góðan og hollan mat. Hitt er svo að það að minnka kjöt og hveiti og nýta afganga kemur svona ósjálfrátt þegar maður skipuleggur sig vel.

Það er með þetta eins og allt annað í lífstílnum; bara það að taka ákvörðunina að gera eitthvað lætur mér líða betur. Þetta snýst jú, allt um að taka ákvörðun og standa við hana, einn dag í einu.

föstudagur, 17. febrúar 2017

Úff

Það er alkunnugt meðal okkar heilsuáhugafólks að það að færa sig út fyrir þægindaramma (comfort zone) er lífsnauðsynlegt ef maður ætlar að gera lífstílsbreytingar af einhverri alvöru. Það er augljóst að ef maður ætlar að gera varanlegar breytingar til hins góða er varla hægt að halda áfram að hjakka í sama farinu.

Fyrir mér eru litlar, óvæntar breytingar í rútínu það sem ég á hvað erfiðast að díla við og það sem ég þarf einna helst að taka á. Það er voðalega lítið mál að skrá sig í eitt fallhlífarstökk, hoppa úr flugvél og segja svo frá því það sem eftir lifir. Jú, út úr bókstaflegum þægindaramma í þær mínútur sem hoppið varar en hvað með það? Í alvörunni? Ég er frekar að tala um þægindarammann sem t.d. fyrir mér gerir það nánast útilokað að mæta í ræktina eftir vinnu.

Ég hef reynt áður en á miðvikudaginn var svo komið að ég hafði bara ekkert val. Það var annaðhvort að mæta eftir vinnu eða sleppa æfingu í heila viku. Og það er bara of mikið. Ég mælti mér því mót við Paddy og krullaðist svo um í angist allan daginn í ofan á lag við stressið í vinnunni. Reyndi að senda honum skilaboð tvisvar eða þrisvar yfir daginn til að afboða komu mína en þröngvaði mér alltaf til að ýta ekki á send. Ég yrði bara að mæta.

Þetta var jafn hræðilegt, ef ekki hræðilegra en ég hafði ímyndað mér. Ég var þreytt og júskuð eftir daginn. Ræktin var algerlega stútfull af fólki og við þurftum að bíða eftir öllum lóðum og/eða breyta æfingum. Svitalyktin var svo megn að ég þurfti að anda í gegnum munninn sem er ekki gott lúkk fyrir mig. Ég var orkulaus og það leið næstum yfir mig í lok æfingar ásamt því að þurfa að gubba af áreynslu. Þetta var ömurlegt. Klukkan var svo orðin sjö þegar ég loks komst heim og þá átti ég eftir að gera mig tilbúna fyrir daginn eftir, elda kvöldmat, sturta mig og sinna léttum heimilstörfum. Ég var ekki kát. 

En, ég mætti, ég gerði æfingarnar mínar og er því enn í takt við prógrammið mitt. Ég drapst ekki, og ég náði að gera allt sem ég þurfti að gera þó ég hafi verið dálítið þreytt. Ég drapst ekki.

Spurning er hvort ég hafi lært það sem maður á að læra á að fara svona út fyrir þægindarammann sem er einmitt það að gera tekist á við svona misfellur í litla, daglega lífinu. Ég veit að ég á eftir að mikla það fyrir mér ef ég þarf einhvern tímann aftur að gera þetta. Ég get líka bent á að praktíkin að mæta klukkan 6 að morgni fremur en 6 að kveldi er miklu meiri, ef ekki nema bara fyrir það að það er meira pláss í ræktinni.  En ég veit núna að ég drepst ekki og að þetta er hægt. Það er náttúrulega alltaf sjéns á að ég þurfi að endurtaka þetta á einhverjum álagstímanum. Ég ætla bara að gera allt sem í mínu valdi stendur til að passa að svo verði ekki.

sunnudagur, 5. febrúar 2017

Þetta verður allt í lagi. Allt.

Mér datt í hug um miðjan daginn á fimmtudag, þar sem ég var að troða þriðja pain au chocolat stykkinu upp í mig að ég hefði átt að taka myndir af öllu sem ég borðaði þann daginn. Svona eins og ég tek myndir af haframúffum, grísku jógúrti og grænmetisréttum væri bara rétt og gott að mynda líka bestíuna. En ég fékk mig ekki til til þess. Meira að segja ég er ekki tilbúin til að sýna sannleikann svo hráan. Ekki heldur á föstudaginn þegar veislan hélt áfram.

Ég reyndi af fremsta megni að njóta. Ég reyndi að "eiga" ákvörðunina að borða svona. Í stað þess að gera díl við sjálfa mig (þú mátt borða svona núna af því að á mánudaginn færðu bara vatn) reyndi ég að segja við sjálfa mig: ef þú borðar svona þá veistu að þér á eftir að líða illa í maganum, fá verki í liði, þjást af samviskubiti og sjálfshatri og skemma alla vinnuna sem þú hefur lagt í ræktina með Paddy sem kostar 120 pund á mánuði en það er allt í lagi því þetta er þín ákvörðun, þú átt hana og þetta er greiðslan sem þú ert tilbúin að borga.

Málið er að ég er ekki tilbúin í gjaldið. Ég rorraði um í samviskubiti í gær. Mér leið hræðilega. Vaknaði snemma, fór í ræktina og reyndi að hugsa ekki um þetta. Það hefur ekkert upp á sig að analýsera þetta neitt frekar. Ég er rebel. Það er bara þannig. Ég var að garfa um síðustu helgi í tækni sem stoppar binge át. Og að sjálfsögðu hafði það í för með sér að ég binge-a. Ég var ein heima í tvo daga að vinna að sérstaklega stressandi verkefni. Auðvitað leggst ég í smjördeig. Ég er búin að setja mér óraunhæft kílóamarkmið fyrir 1. mars. Auðvitað geri ég uppreisn gegn því.

Þetta er djöfull pirrandi þetta að vera ekki í alvörunni fullorðin. Að ég skuli enn gera uppreisn gegn reglum sem voru settar á mat þegar ég var barn. Ég ræð núna. Ég er fullorðin. Ég á að vita það. En ræð ekki við neitt. Það er líka hrikalega pirrandi þetta sambandsleysi á milli heila og hjarta. Allt sem ég veit og skil í heilanum segir mér að það sé vont að borða þrjú pain au chocolat í einu. Að það sé vanvirðing við líkama minn. En hjartað mitt segir mér að ofát sé eina leiðin til að vera "góð" við sjálfa mig. Að einu verðlaunin fyrir stress, leiðindi, hamingju, reiði, allt sé að borða þar til ég verð veik.

Ég vældi aðeins í mér í gær um að þessi mánuður með Paddy væri í raun sóun, það væri engin tilgangur í að mæta í ræktina ef ég ætla svo bara að naga mig í gegnum nammirekkann á sama tíma. En um leið og ég hugsaði þetta kom upp í mér hugsunin að það væri í raun þveröfugt. Það hafi verið sérstaklega mikilvægt að mæta fjórum sinnum í ræktina á viku á þessum tíma. Því með því að gera það veit ég að þetta ofát er tímabundið. Ræktin og hreyfing hefur staðið sína pligt. Ég er ekki óalandi og óferjandi. þvert á móti, ég er enn íþróttamaður. Ég á einn daginn eftir að skilja hvað það er sem lætur mig haga mér svona, ég á meira segja kannski einn daginn eftir að ná tökum á þvi. Þangað til ætla ég bara að lyfta þungum lóðum og hafa gaman að því.

laugardagur, 28. janúar 2017

Árla morguns

Ég hef alltaf verið mikill morgunhani. Ég man þegar ég var í 8.bekk byrjaði Stöð 2 að sýna teiknimyndir á laugardagsmorgnum og þó ég hafi tæknilega verið of gömul til að horfa var ég alltaf komin á ról og gat horft á Jem and the Holograms í friði. Þetta hefur svo haldist allt í gegn, ég er alltaf búin með heilan vinnudag rétt um 10leytið. (Ekki að horfa á Jem and the Holograms). Mér þótti nú samt heldur um of í morgun þegar ég var komin fram úr klukkan hálf sex á laugardagsmorgni.

Josie, kisan okkar, er nefnilega heilmikill veiðiköttur, kemur með tvær til þrjár mýs inn á viku. Í morgun kom hún með eina sprelllifandi og fannst við hæfi að ég kæmi niður til að dást að veiðifærninni. Greyið litla músin skalf og hristist og var eins og límd við gólfið af hræðslu einni saman. Ég kem sjálfri mér á óvart með að geta tekið hana varlega upp og haldið á henni aftur út í grasið. Ég veit ekki hvort hún var eitthvað slösuð innra með sér, og kannski hef ég bara  framlengt einhverjar kvalir en hún var farin þegar birti og ég fór aftur út í garð. Sjálfsagt étin af uglu eða eitthvað.Allavega, ég var á fótum og gat allt eins farið í húsverk. Smellti í kanilsnúða og spilaði CandyCrush á meðan ég beið eftir að deigið hefaði sig og mér finndist ég nógu mjó til að vigta mig. Þaes væri búin að pissa tvisvar eða þrisvar. Ég tvísteig reyndar aðeins við að vigta mig. Ég er nefnilega búin að vera geðveikislega mjó og sæt í vikunni. Ég veit ekkert afhverju, en þannig leið mér. Ég er alla vikuna búin að vera að berjast við þessar andstæðu tilfinningar sem halda aftur af mér að sættast við sjálfa mig eins og ég er og þessa þrá að léttast. Ég get bara alls ekki sleppt þeirri löngun og von. Kannski ef ég bara umfaðma það sem hluta af sjálfri mér líka, svona eins og ég er búin að sættast við að ég hef enga þolinmæði í langtímaverkefni, kannski er það bara besta lausnin. Ég bara viðurkenni að ég eigi alltaf eftir að langa til að vera mjó, og það er bara ég, en það þýði ekki að ég geti ekki glöð og sátt lifað í þessari samtíma fullvissu minni um að ég sé einmitt geðveikislega sæt og mjó núna.


Svona morgunpælingar skila kannski ekki miklu. En samt, ef ég er einu skrefi nær að finna jafnvægið var það kannski þess virði að bjarga einu músagreyi. Kanilsnúðarnir er tvímælalaust þess virði. Ég trúi staðfastlega á að matur sem maður hefur smávegis fyrir sé bestur. Og að það skipti litlu máli þó það sé þá eitthvað sem flokkast sem "óhollt". Það er nefnilega allt of auðvelt að verða sér úti um nammi. Ég labba framhjá nokkrum búðum á leið heim úr vinnu og tók þessa mynd bara svona í bríaríi án þess að miða sérstaklega á nammið;

Súkkulaðikexpakkar, Oreokex, snakk, hlaup... allt á 50 pence. Hundraðkall. Það eina hollt sem mér dettur í hug sem kostar 50 pence er gúrka. Ein gúrka eða stór pakki af oreos? Ekki nema von að við séum öll rorrandi um í spiki. Þetta er ódýrt, innan seilingar, auðvelt og í ofgnótt. Ég veit að þetta gerir mér erfitt fyrir. Að grípa stóran maltesers poka fyrir hundraðkall? Ekki málið, ég er meira segja ekki viss um að það geti verið svo margar hitaeiningar í hundraðkalli. Mín lausn er að forðast sem mest að labba framhjá svona búðum. Og setja mér svo það verkefni að vinna inn fyrir ljúfmetinu. Ef ég þarf að standa í eldhúsinu, fara út í búð að kaupa hveitið, hnoða, blanda, fletja, skera, nú þá á ég gúmmelaðið meira skilið. Svo er ég líka frelsishetja í músasamfélaginu.

fimmtudagur, 26. janúar 2017

Af vinnu

Því er ekki að neita að ég hef verið afskaplega lukkuleg með starfsframa minn hér í Bretlandi. Ég eyddi nokkrum árum í gleraugnaverslun, starf sem átti sérlega illa við mig. En um leið og ég fór í MBA námið fékk ég vinnu hjá skattinum sem var sérstaklega vel til fundið því vinnutíminn var þannig að ég náði að koma af stað hreyfingu og betri hugsun um mataræði. Ég er enn alveg viss um að stór þáttur í velgengni minni til að byrja með að léttast var að ég hafði allan morguninn út af fyrir mig til að stússast, planleggja og hreyfa mig.
Deildinni minni hjá skattinum var svo lokað og ég tók fyrstu vinnu sem bauðst, hjá Lloyds Banking Group. Ég byrjaði alveg á botninum, var ekki einu sinni fastráðin. Eftir nokkra bið losnaði þó staða þar sem ég hafði nokkur mannaforráð og komst inn í deildina sem sér um skuldara. Síðan hef ég unnið mig upp og er núna í deild sem sér um leiðréttingar á mistökum, hvor sem þau eru af manna völdum eða vegna tölvukerfis. Mér finnst ferlega gaman í vinnunni og sérstaklega búið að vera gaman núna undanfarna mánuði. Bæði vegna þess að nýjir yfirmenn mínir eru öll á mínu bandi, vinnan sjálf er fjölbreytt og ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi og svo vegna þess að ég er að gera hluti sem ég er flink við. Ekki skemmir að ég er loksins á ágætum launum og svo það sem nýjast er; ég get unnið heima. Ég er búin að fá fartölvu og örugga línu svo ég get tengst bankakerfinu heiman frá mér. Svo sit ég bara í náttfötunum og stjórna "conference" símtölum og ráðgeri og skrafa við samstarfsfólk í Chester, Brighton, Edinborg, Glasgow, Halifax, Andover, Birmingham, London, Manila og Bangalore. Þetta gerir það að verkum að það er eins og maður sé að vinna fyrir sjálfan sig.

Nýjasta verkefnið er mér sérstaklega hugleikið þar sem ég hef tækifæri til að halda fyrirlestra og vinna í að vinna "hearts and minds" eins og það er kallað. Ég veit ekkert skemmtilegra en að halda pistla fyrir áhorfendur og ég hlakka til að þróa skilaboðin. Þar sem ég sat hér heima við að búa til fyrirlesturinn datt mér skyndilega í hug að um daginn hafði ég lesið viðtal við konu sem sagði að eftir að hafa grennst þorði hún loksins að gera allskonar hluti. Ég hugsaði með mér að það væri eitt, ég hefði aldrei látið spikið hindra mig neitt sérstaklega. En núna verð ég að viðurkenna að tilhugsunin um að líða vel með sjálfa mig hvað útlitið varðar á tvímælalaust eftir að skila sér í öruggri og skemmtilegri flutningi á fyrirlestrum. Meira segja þó ég geri það í náttfötunum.

sunnudagur, 22. janúar 2017

Stream of consciousness

Það grípur mig stundum alveg gífurlegt eirðarleysi. Þar sem ég stika um í leit að einhverju áhugaverðu til að eyða tíma mínum í en á sama tíma er ég líka lömuð af leti og einbeitningarleysi og nenni alls ekki að gera nokkurn skapaðann hlut. Þetta eru erfiðir dagar. Sér í lagi á sunnudegi þar sem mér finnst að ég eigi að slaka á. Og ef ég get ekki slakað á nú þá ætti ég að vera að nýta tímann í að hreyfa mig eða taka til eða skipuleggja vikuna eða gera eitthvað worthwhile. En ég nenni engu. Álpast bara um með sífellt meiri áhyggjur að dagurinn sé að sleppa frá mér og að áður en ég viti af sé kominn mánudagur og ég sóað heilum sunnudegi í að vera löt og eirðarlaus.

Mér finnst skrýtið þegar svona gerist. Sérstaklega um helgar þar sem ég eyddi laugardeginum bara í að gera gott við sjálfa mig. Morgunmatur á kaffihúsi, svo á beauty parlour að láta flikka aðeins upp á mig. Hádegismatur á bistró, og svo bíó og dinner á deit með manninum um kvöldið. Ég ætti að vera alveg sátt og fullnægð í sálinni.

En í dag virkar ekkert. Ekki stúss, ekki jóga, ekki þrif ekki skrif. Mér bara leiðist í sálinni. Ég get ekki útskýrt það betur. Ég eyddi morgninum í að búa til dásemdar marrókkóskan tagine rétt til að dreifa huganum, horfði svo á Casablanca í eftirmiðdaginn og er að reyna að lesa, reyna að skrifa, reyna að hreyfa mig en kemst ekki áfram með neitt.

Mig langar ekki einu sinni til að borða neitt svakalega. Kannski er það að trufla mig. Venjulega þegar mér leiðist í sálinni er það undanfari ofátskasts. En mig langar ekki einu sinni neitt sérstaklega til að borða. Það er dálítið sérstök tilfinning fyrir mig, að langa ekki til að borða. Ég ætti kannski að hætta að væla og hætta að pæla og njóta frekar bara þessarar tilfinningar að langa ekki í mat?

Sko! Mér líður alltaf betur við að skrifa.