sunnudagur, 21. maí 2017

Af pasta

Það verður að segjast að ég var hálffegin þegar dagur 30 var liðin. Sumar spurningarnar voru erfiðar og vöktu upp allskonar hugsanir sem ég bara hreinlega nenni ekki að díla við eða pæla of mikið í. Núna samt þegar nokkrir dagar eru liðnir og ég búin að hafa tíma til að melta hugsanir held ég að það sem upp úr standi sé þessi hugmynd að ég sé ekki nógu þakklát. Og ég á ekki við að ég sé ókurteis og segi ekki takk (þó það sé reyndar rétt líka) heldur að ég stoppa ekki við og nýt þess sem ég hef í mómentinu. Þetta er dálítið ný uppgötvun og ég þarf að hugsa þetta út og spökulera meira í því hvað þetta þýðir og sérstaklega hvað þetta þetta þýðir í samhengi við spikið. Þetta er þessi hugmynd að njóta þess sem er hér núna, frekar en að gera eins og ég á mikið til, að rjúka út í næsta og næsta og næsta, alltaf að leita að einhverju meira og betra.

Þetta kom til mín sem hugmynd í gær þegar ég var sveitt í eldhúsinu að hnoða pastadeig. Ég finn hvergi betur fyrir hvað það er gott að vera í mómentinu eins og þegar ég vinn að verkefni í eldhúsinu. Það nýjasta er pastavélin mín. Mig er búið að langa í svoleiðis í tvö eða þrjú ár núna. Sá svo á tilboði um daginn og lét slag standa. Er að fikra mig áfram með deig og aðferð en ég verð að segja að það er fátt sem færir mér heim þessa tilfinningu um að í fyrsta lagi að vinna fyrir matnum sem ég borða og svo það hvað það er mikilvægt að finna fyrir andartakinu, og það að búa til pasta.

Deigið er hart og óþjált og það tekur heilmikla vöðvavinnu að klambra því saman í höndunum. En þegar það er svo loksins orðið að mjúkum, gulum bolta gleymist harðræðið. Svo er svo ofboðslega gaman að renna því í gegnum vélina og búa til mismunandi form. Ég er búin að prófa ravíólí og svo það sem ég gerði í gær og fékk mig til að hugsa um þakklætið í andartakinu; lasagna.

Skal ég segja að þetta var besta lasagna sem ég hefi nokkurri sinni borðað? Já ég ætla að halda því fram. Takk fyrir mig.


miðvikudagur, 17. maí 2017

Dagbók í 30 daga -30

Mér tókst það! Hugleiðing daglega í mánuð. Ég þarf eiginlega að lesa yfir heila klabbið í góðu tómi og athuga hvort ég geti komist að niðurstöðu. Aðallega hefur þetta gert mig káta og jákvæða um framtíðina. Hvað geri ég næst!? 

þriðjudagur, 16. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 29

29 dagar. Ég er næstum búin með áskorunina, ég er búin að standa við loforð. Ég ákvað að gera þetta og það hefur staðist. Það er eiginlega bara heilmikið afrek akkúrat núna og ég hef í hyggju að halda uppi. Ekki að skrifa á hverjum degi en ég er algerlega aftur komin inn á það að skrifin hjálpa mér. Heilmikið.

Allavega. Í dag er ég spurð að því hvað ég myndi vilja heyra frá öðrum. Hvaða orð þætti mér best að heyra.

Kannski væri gott að heyra einhvern segja að "It's not over until the end. So if this isn't the end it's not over." Kannski væri næs ef einhver myndi segja mér að það sé bara allt í lagi með mig. Engin skilyrði, ekkert af né á, bara að ég sé fín eins og ég er. Kannski væri gott ef það gæfi mér einhver góð ráð, ráð sem ég gæti tekið heilshugar og fylgt eftir. Svo væri gott að heyra: komdu út að leika!

Svo væri líka voða gott að heyra: hér eru milljón pund handa þér.

mánudagur, 15. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 28

Hvað hefur farið vel?

Já, það hefur einmitt heilmikið farið vel. Ég er hér enn, ekki aftur orðin 140 kíló, hreyfi mig heilmikið (og mikið meira en ég gerði áður), spái enn og spökulera og er enn viss um að einn daginn fatti ég þetta og geti deilt svarinu með öllum hinum sem eru að spyrja þessara sömu spurninga. Hugsa með sér hvað það verður skemmtilegt!

En aðallega finnst mér velgengni hafa falist í að ég er hér enn.

sunnudagur, 14. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 27

Hvað vildirðu hafa gert öðruvísi og hverju hefði það breytt?

Mér finnst þetta bæði hræðileg og óréttlát spurning. Hún vekur upp það eina sem ég hef reynt að bæla niður með valdi og offorsa núna í nokkur ár. Þegar ég leyfi mér að hugsa til þess að ég hef leyft sjálfri mér að fitna aftur verð ég nefnilega máttlaus af reiði og sorg. Ég leyfi mér þessvegna mjög sjaldan að velta mér upp úr þvi. Einstaka sinnum sem ég dreg upp myndir frá 2012 þegar ég var tæp 90 kíló og geðveikislega fitt, og rosalega hamingjsöm. Og þegar ég leyfi sjálfri mér að fara þangað lyppast ég niður af reiði út í sjálfa mig fyrir að hafa leyft spikinu að laumast aftur að mér. Og ég spyr sjálfa mig hvað hefði ég getað gert öðruvísi, hvað gerði ég ekki nógu vel til að koma heilsusamlega lífstílnum það vel í rútínu að ég gæti bara haldið vigtinn við? Hvað meinsemd inni í mér lagaði ég ekki nógu vel til að geta hætt að misnota súkkulaði?

Og ég verð bara reið og pirruð og fæ engin svör. Ef ég fokkings vissi hvað ég myndi gera öðruvísi væri ég ekki feit núna andskotakornið! Það er ekki eins og ég hafi ekki gert þetta áður. 

Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvað ég hefði gert öðruvisi.

laugardagur, 13. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 26

Hvaða þrjá hluti er ég þakklátust fyrir? 

Auðvelt. Bjartsýnina. Ekkert hefur gert mér betra en þessi ódrepandi bjartsýni mín. Það er eiginlega alveg sama á hverju gengur ég get alltaf leitað inn í mig, fundið ylinn frá bjartsýnisröndinni minni, og strunsað svo áfram hress og kát. 

Fjölskylduna. Mamma mín og pabbi eru engum lík og ég verð klökk þegar ég hugsa um allt það sem ég hef lært af þeim, um hvað það er að vera góð manneskja. Og í stuði. Þau komu líka af einstöku fólki sjálf og ég var nógu lukkuleg að fá að alast upp með allar ömmur og afa í kringum mig til fullorðinsaldurs. 

Hreystina. Ég er hrikalega feit akkúrat núna. En ég fer samt með nýju vinunum mínum í vinnunni í 50 km hjólatúr eins og ekkert sé. Ég er aldrei veik og þrátt fyrir hné og bak er ég hraust og vel byggð. Gæti ekki beðið um meira. 

föstudagur, 12. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 25

Á degi 25 get ég litið tilbaka og séð mynstrið í því hvernig ég misnota mat.

Eða get ég það? Ég er alls ekki viss um, hversu rólegri ég verð við að skrifa niður hvernig mér líður, að ég skilji betur hverevegna ég geri það sem ég geri. 

Ég veit fyrir 100% víst að ég borða til að dreifa huganum og að ég þarf að finna mér allskonar áhugaverð verkefni til að fylla gleði í sálina. Áhugamál sem ég svo má fá leið á og gefa upp á bátinn án þess að fá samviskubit. Ég þarf líka að læra aðeins betur að díla við stress. 

Ég nota spikið líka mjög mikið sem hentuga afsökun fyrir að þurfa ekki að gera mitt besta. Til að gefast upp. 

Skrifin veita mér jafnvægi og þau hjálpa til að greina á milli þess sem er mikilvægt og þess sem litlu máli skiptir. Ég fatta líka oft upp á hinu og þessu í gegnum skriftin sem veitir mér ofboðslega gleði. 

Mikilvægasta lexían er að nýr dagur er nýr dagur og að hver nýr dagur þarf ekki að vera merktur af mistökum gærdagsins.