sunnudagur, 27. nóvember 2016

Af ofáti

Ég er búin að vera í greipum ofátkasts (binge) núna í rúma viku. Ég byrjaði að plana það með nokkurra daga fyrirvara og sanka að mér allskonar gúmmilaði. Og svo byrja ég að borða. Með stjörnur í augum og berjandi hjartslátt af spenningi byrja ég að troða í mig af jafn mikilli ákveðni og ég á sama tíma leyfi " mér er sama um allt" taka yfir hugann. 
Binge leyfir mér að setja allt annað til hliðar. Binge leyfir mér að bara taka pásu frá öllu sem er að angra mig. Áhyggjum, stressi, þreytu, spiki, leiðindum. Allt hverfur á meðan ég einbeiti mér bara að því að borða. Þetta er eins og að fá frí, eða langa pásu frá sjálfum sér. Eins og maður sé bara í einangrunarkúlu þar sem ekkert kemst að nema matur.
Ég hafði aldrei hugsað þetta svona áður. Það er ótrúlegt hvað gerist þegar maður reynir að komast að því hvað er að gerast þegar maður hagar sér svona fremur en að verða bara reið út í sjálfa sig. Ókei, ég ætla að binge-a, hversvegna? Hvaða coping mechanismi er það? Hverju er ég að reyna að ná fram með að borða svona?  Og ég kemst að því að ég er þreytt og eg er stressuð. Mig vantar pásu frá lífinu. Og það er ekkert betra til að stöðva allt, til að algerlega stíga út úr vandamálum hversdagsins en að éta sér til óbóta. 
Þetta er í raun ótrúleg hugljómun. Því nú get ég reynt að finna aðrar leiðir til að veita sjálfri mér þessa pásu frá lífinu þegar ég þarf á henni að halda. Þó það sé ekki nema að einfaldlega setjast niður og anda inn og út í fimm mínútur á dag. 
Og núna er ekki tími til að hata sjálfa mig eins mikið og mig langar til þess. Núna er einmitt tími til að sýna sjálfri mér eins mikla ástúð og umhyggju og ég mögulega get. Dugleg stelpa segi ég við sjálfa mig. Þig vantaði pásu og þú gafst sjálfri þér það sem þig vantaði. Næst manstu bara að prófa eitthvað annað en mat. Gítarinn, lyftingar, heimsókn til vina, klipping eða nudd. En vel gert að reyna þitt besta til að hugsa um sjálfa þig. 
Næst ætla ég líka að reyna að muna að finna bragð. Ef ég er að borða á annað borð allt uppáhaldið mitt þá get ég allt eins reynt að njóta þess.

sunnudagur, 6. nóvember 2016

Ristað brauð með marmelaðiÉg tók þessa mynd á fimmtudagskvöldið síðasta. Ég var á hótelherbergi í Edinborg, við að fara á verðlaunaafhendingu í vinnunni. Ég er 97 kíló á myndinni og hefur sjaldan eða aldrei þótt ég jafn sæt. Ég er búin að skoða þessa mynd síðan ég tók hana til að reyna að skilja afhverju mér líður svona vel með sjálfa mig. Við vitum öll að 97 kíló er allt of þungt fyrir konu sem er 167 centimetrar að hæð og það er ekki eins og ég sé grönn. Ég hef líka bæði verið grennri og í betri þjálfun en ég er núna en engu að síður held ég að mér hafi sjaldan liðið betur, í líkamanum. Mér finnst ég vera "powerful". Ég get ekki þýtt orðið því ég á ekki við að ég sé kraftmikil en heldur ekki valdmikil. Kannski að þróttmikil sé besta orðið? Powerful að því leytinu að ég hef kraft inni í mér, ég hef vald yfir sjálfri mér og ég er full af þrótti. 

Það eina sem mig hefur alltaf langað er vera venjuleg. Mig langaði svo til að geta bara fengið mér að borða án þess að "líða" einhvernvegin með það. Að það að borða væri bara það; matur í munn, orka í kropp, búið bing bing bing bong. En allur tíminn sem ég hef eytt í að setja orthorexiu reglur hafa kannski skilað árangri á vigtinni en venjulega markmiðið fjarlægðist stöðugt. Ég held að núna þegar ég er búin að fjarlægja allar reglur sé eins og þetta markmið sé í sjónmáli. Ég þarf stanslaust að minna mig á hvað ég er að reyna að gera. Minna mig á að athuga hvort ég sé svöng, spurja sjálfa mig hvað ég er að reyna að fylla þegar ég borða þegar ég er ekki svöng og vinnan sem fer í að fyrirgefa sjálfri mér þegar ég borða er gífurleg. En þetta er allt að koma. 

Ég ristaði brauð í morgunmat. Tvær brauðsneiðar, af því að það er pláss fyrir tvær sneiðar í vélinni og það er asnalegt að gera bara eina. Setti marmelaði og ost á sneiðarnar, hellti upp á kaffi og settist við eldhúsborðið til að borða. Borðaði hægt og róleg og naut hvers bita. Þegar ég var byrjuð á seinni sneiðinni datt mér allt í einu í hug að það að rista tvær sneiðar væri kannski bara eitthvað sem fitubollur gera. Kannski finnst mjóu fólki í lagi að hafa eitt ristiplássið autt? Hvað ef ég rista alltaf tvær og borða svo tvær bara af því að brauðið er núna fyrir framan mig? Ég byrja að þreifa fyrir mér í smá panikki til að tjékka hvort ég sé enn svöng. Jú, tvær sneiðar virðast vera rétta magnið en hvað ef ég ætti bara að gera eina sneið fyrst og svo aðra ef ég væri enn svöng? Hvað gerir mjótt fólk??? Spáir það í þessu???? Ég reyni að róa mig niður, slakaðu á segi ég við sjálfa mig. Njóttu sneiðarinnar, manst að þú er sátt, þú veist hvað þú ert að gera. 

Jú, þetta er allt að koma en samt. Það er erfitt að stanslaust þurfa að spá svona í þessu. Ég horfi á myndina af sjálfri mér og hugsa með mér að þetta allt, þessi vinna hlýtur að vera þess virði fyrir að smá saman líða betur, og að lokum vera sátt við mig eins og ég er núna.

fimmtudagur, 27. október 2016

Og algjört sökksess

Oprah Winfrey veldur mér ægilegu hugarangri. Ekki svona hún sjálf per se, en samt. Hún er holdgervingur þess sem má kalla Oprah paradox, eða Oprah þverstæðuna. Þverstæðan er að hér er kona sem hefur unnið hörðum höndum til að komast í mikla áhrifastöðu innan síns geira og allt sem hún gerir er gert afskaplega vel og af miklum metnaði. Það er ekki hægt að segja neitt um Opruh annað en að hún sé dugleg, vel gefin, hörð af sér, útsjónarsöm og sterk en samt hefur hún líka eytt síðustu 30 eða 40 árum í að berjast við að vera feit og mjó og feit og mjó. Og hún lætur spikið angra sig. Þverstæðan því tvíþætt í raun. Hversvegna lætur kona sem að öllu leyti flokkast sem sigurvegari, láta það fara í taugarnar á sér að vera feit? Og hversvegna nær kona sem að öllu öðru leyti er við stórnvölinn ekki stjórni á átinu? 
 Ég var beðin um að halda lítinn fyrirlestur í vinnunni um daginn. Ég hafði vakið athygli eins hátt setts manns og hann bað mig um að taka saman lítinn pistil og flytja svo fyrir nokkurn hóp áheyranda. Og þó ég segi sjálf frá þá tókst þetta alveg hreint með ágætum. Ég hef nefnilega fullvissuna um að vera virkilega flink við framsögn. Það er einfaldlega eitthvað sem ég geri afskaplega vel, finnst hrikalega skemmtilegt að gera og á auðvelt með. Svo mikið að ég myndi helst kjósa að vera fyrirlesari að atvinnu.
Mér datt svo í hug eftir á hvað það er gott að finna þetta sem maður er einfaldlega virkilega flinkur við. Og hvernig þessi vitneskja spilar inn í sjálfstraust. Mér datt svo reyndar líka í hug að kannski er það bara sjálfumglatt og sjálfhverft fólk eins og ég sem veit að það er flinkt við eitthvað. Allir aðrir kannski bara gera hluti án þess að spá í því. Ég allavega fyllist sjálfstrausti þegar mér tekst vel upp og fíleflist og geri síðan fleiri hluti vel.
Ég kýs svo að setja minn eiginn mælikvarða á hversu vel mér gengur í lífinu. Þannig kýs ég að telja bara upp hluti sem ég geri vel og nota þá sem mælistiku. Ég meira að segja tel sjálfa mig sem success sögu hvað spik varðar; ekki vegna þess að ég er ægilega mjó eftir að hafa verið ægilega feit, heldur vegna þess að ég er enn að hugsa, spá og spekúlera.
Hvað er það svo annars sem maður telur til þegar maður mælir velgengni? Er það launin sem maður vinnur inn, útlitið, makinn sem maður eignast eða ekki, draslið sem maður sankar að sér? Innri friður, samhyggja, vinafjöldi? Hvað myndi Oprah segja um sitt líf? Myndi hún segjast hafa verið sökksess? Eða myndi hún telja sjálfa sig sem failure af því hún borðar stundum of mikinn mat?

miðvikudagur, 26. október 2016

Af breytingarskeiðinu

Ég held að á þessum tæpu fimmtán árum sem ég er búin að skrifa hafi aldrei liðið svona  langur tími á milli pósta.  Ýmislegt kemur þar til; mestmegnis tæknilegt þar sem fartölvan mín gafst upp fyrir nokkru og mér finnst hreinlega erfitt að skrifa pistla á ipaddinn. Ég er búin að prófa að kaupa lyklaborð með blátönn fyrir paddinn en er sem komið er búin að skemma tvö. Ég ætti náttúrulega að kaupa nýja fartölvu. Ég var búin að segja að mig langaði til að skrifa meira og ef það er bara aðgangur að tækni sem er að stoppa mig nú, þá hlýtur lausnin að vera fersk fartölva. Hitt er svo alvarlegra sem mig grunar að ég noti tölvuleysið til að hylma yfir og það er blessuð ritstíflan. Ég tek nefnilega paddinn upp á hverju kvöldi og ýti á "new post" en enda alltaf í Candy crush eða á Pinterest og ekkert gerist. 

Ég er smávegis þreytt líka. Ég fékk stöðuhækkun um daginn, er komin í nokkra ábyrgðastöðu í bankanum sem ég vinn hjá og því fylgdi dálítið stress tímabil á meðan ég var að átta mig á stöðuháttum. Ég ferðast líka snöggtum meira núna og er bara þreyttari. Ég veit hinsvegar að það er tímabundið og innan skamms verður þetta orðið normal og ég get beint orku að fleiru en bara vinnunni. Mig langar til að standa mig vel þar og hef auga á að komast aðeins hærra í metorðastiganum þannig að það er betra að eyða púðri í vinnuna núna og koma ár minni vel fyrir borð.

Ritstíflan kemur svo til af því að það er erfitt að skrifa það sem er að gerast hjá mér núna hvað spik varðar án þess að hljóma vúvú. Öfugt við fegurðardrottningar er ég þvengmjó akkúrat núna. Eftir þónokkurn tíma þar sem ég taldi hitaeiningar og macros er ég smá saman búin að vera að treysta líkamanum meira og meira. Þetta er búið að vera svona smávegis eins og að sleppa stýrinu á hjóli. Hitaeiningarnar eru svona ómeðvitað alltaf í bakgrunninum en á hverjum degi verð ég færari í að treysta á að finna til hungurs og láta það stýra magni sem ég borða. Og ég borða nammi og beikon og allskonar "óhreint" og virðist að mestu leyti ráða við það.
Það var nefnilega þannig að ég var aftur að verða klikk. Mætti í ræktina til að brenna hitaeingum. Stóð æpandi á vigtinni. Gólaði á sjálfa mig um að ég væri ómöguleg, ég myndi aldrei breytast, aldrei, aldrei breytast. Og það var í miðri svona ræðu sem ég þrumaði yfir sjálfri mér að ég gerði mér skyndilega grein fyrir að þetta er bara ekki rétt. Ég hef breyst svo mikið síðustu árin að ég er nánast óþekkjanleg að innan og utan. Það sem ég skildi ekki var að þessar breytingar hafa gerst á skriðjöklahraða, með örlitlu mynstri breytinga á hverjum degi í rúm átta ár. Á hverjum degi í allan þennan tíma gerði ég eitthvað agnarsmátt sem svo smá saman er orðið vani og eðlileg hegðun. Ég hætti að ljúga. Á hverjum degi sagði ég sjálfri mér og öðrum sannleikann. Og með hverjum deginum var það eðlilegra að segja satt þangað til að núna myndi mér ekki detta í hug að reyna að fela át. Alveg sama hversu hrikalegt það er. Ég gerði það að vana að hrósa sjálfri mér fyrir eitthvað. Það varð að vana að vera forvitin um líkamann. Það varð að vana að vera skipulögð, búa til nesti, finna til ræktargallann á kvöldin, að elska að hreyfa mig. Allt þetta eru breytingar sem tóku öll þessi ár að koma á og bara með að vinna að því á hverjum einasta degi. Vani tekur 21 dag my arse! 

Á hverjum degi núna vakna ég og minni sjálfa mig á að í dag ætla ég að vera sterk og falleg og umburðarlynd gagnvart sjálfri mér. Og ég minni mig á hversu mikið ég hef breyst. 
Þessi uppgötvun hefur eiginlega umturnað öllu og mér finnst eins og ég sé kominn inn á þetta næsta level sem ég er búin að vera að leita eftir af svo mikilli örvæntingu í langan tíma. Ég sagði alltaf að ég skildi að þetta snýst ekki um tölu á vigtinni og að þetta væri eilífðarverkefni. Ég hélt að þetta myndi snúast um að geta hunsað það að ég misnota mat og að ég þyrfti einfaldlega að ná valdi yfir sjálfri mér. Ég skil það hinsvegar núna að ég á að þvert á móti að einbeita mér að þessu, og halda áfram að breyta hegðuninni dag eftir dag. Í hvert sinn sem ég borða þegar ég er ekki svöng eyði ég tíma í að skilgreina ástæðuna fyrir því og minni svo sjálfa mig á það næst þegar ég ætla að gera það aftur. Og breyting er í alvörunni möguleg. 

miðvikudagur, 3. ágúst 2016

Af tímaþröng

Vinur minn dó í gær. Hann var 43 ára, fékk hjartaáfall í gær og dó. Það væri kómískt ef þetta væri ekki svona sorglegt að síðasta færslan hans á Facebook var um að hann væri með stingandi verk í vinstri öxl. Svo ekki meir. Við vorum nýbúin að kynnast, hann kom í teymið mitt fyrir svona mánuði síðan en okkur kom strax vel saman. Áttum sameiginlega ást á að borða úti, bókmenntir, tónlist og ferðalög. Við eyddum einmitt mánudeginum í að spjalla um bók sem hafði lesið eftir ástralska konu um Agnesi og Friðrik og aftöku þeirra. 
Maður er stundum harkalega minntur á hversu stuttur tíminn er sem maður hefur hérna. Hversu mikilvægt það er að gera það sem skiptir máli, og sleppa öllum þessu vangaveltum um smámuni og vitleysu. Skiptir það í alvörunni máli að ég er enn með ljótan, grænan teppbleðil í milliherberginu? Ef ég myndi hrökkva upp af núna myndi fólk segja; "já, hún var nú alveg ágæt hún Svava Rán, en ég jafnaði mig bara aldrei á að hún skyldi ekki flísaleggja hjá sér millirýmið." Mér finnst það ólíklegt. 
Ég hugsaði skart um í dag hvað mér finnst mikilvægt. Hvað ég vil eyða tímanum mínum í. Og að flísaleggja var heldur neðarlega á listanum. Mig langar til að ferðast meira. Mig langar til að skrifa meira. Mig langar til að kynnast fleira fólki. Mig langar til að lyfta meira, lesa meira, syngja meira. Mig langar til að elska meira. En að eyða frekari tíma í að hafa áhyggjur af spiki er ekki eitthvað sem ég nenni.

Ég pantaði mér bikiní í kvöld. Mig er búið að langa í bikiní í nokkur ár núna en hef alltaf hugsað með mér að ég bíði til næsta sumars, og svo þess næsta og þess næsta. Þegar ég er orðin nógu mjó. En hvað ef það er ekkert næsta sumar? Hvað ef ég verð aldrei nógu mjó? Við erum að fara til Tenerife og ég ákvað í dag að í þetta sinnið að láta bara verða af því. Það er í alvörunni ekki eftir neinu að bíða. 

sunnudagur, 26. júní 2016

Af svekkelsi

Ég fór í minn fyrsta jógatíma í dag. Allt jógað sem ég hef gert hingað til er bara eftir myndböndum eða svo jóga studio appinu hér heima. Sciatica taugabakverkurinn er alltaf að hrjá mig og eftir því sem ég kemst næst er jóga upplagt til að lina verkinn. Það var svo af algerri tilviljun ég sá sunnudagsmorgun jógatíma auglýstann hérna í þorpinu og ákvað að drífa mig. Sé sko alls ekki eftir því, er bara eins og rjómi í bakinu akkúrat núna.

Er svo bara að reyna að jafna mig á sjokkinu af úrslitunum úr Brexit þjóðarkosningunum. Andrúmsloftið í kringum mig er vont, fólk er reitt og hrætt af allskonar ástæðum. Óvissa með framtíðina, reiði vegna lyganna sem nú eru að koma í ljós, hrætt vegna útlendingahatursins sem þetta hefur leyft að komast á yfirborðið. Vinnufélagarnir sem flestir eru enskir voru öll sýnilega í uppnámi, en að Breta sið reyndu að djóka með þetta. Nokkrir sögðu við mig að lokahnykkurinn yrði að Ísland ynni svo England í fótbolta og þar með væri þessu bara öllu lokið.  

Sjálf á ég erfitt með að djóka. Ég hef raunverulegar áhyggjur af uppgangi hægri öfgaafla. Það er stuttur vegur á milli þjóðernishyggju og nazisma. Ekk það að ég ætli svo að nota þessar áhyggjur mínar til að utskýra 3096 hitaeiningar innbyrtar í gær. Ég var einfaldlega svöng. Ég léttist lítið, um vart marktæk 200 grömm og var smá svekkt yfir því líka. Reyndi að vera það ekki en finnst endilega að vika af nánast engum kolvetnum eigi að skila meira þyngdartapi. Það er þannig hjá öllum öðrum, afhverju ekki hjá mér? Þýðir ekki að velta sér upp úr því, ég var búin að segjast ætla að prófa mig áfram með skiptingu næringarefna og þetta er ágætis ástæða til að prófa að borða meiri kolvetni. 
Og það er bara af hinu góða að borða fleiri kolvetni. 

sunnudagur, 19. júní 2016

Af tveimur kílóum

Það er núna rúm vika síðan ég kom heim frá Íslandi og þann tíma hef ég samviskusamlega talið macros (næringarefni) eins og ég hafði lofað sjálfri mér að gera. Það virðist vera að bera ágætis árangur því ég léttist um 2.1 kíló í vikunni. Ég finn það líka að þetta er alvöru fitutap, ekki bara vatn og prump. Innsta spikið mitt, þetta eldgamla sem umlykur minn innri við og er vanalega eins og storknuð hamsatólg, er allt að losast um og orðið mun stamara og skvapkenndara. Það er eitthvað að gerast.
Ég studdist við vefsíðu sem heitir IIFYM.com til að hjálpa til við að reikna út orkuþörf yfir daginn og hvernig er best að skipta macros niður til að ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér.  Þetta er einfalt kerfi, maður slær inn hæð, þyngd, aldri og kyni ásamt hreyfingu og byggt á þeim markmiðum sem maður vill ná (fitutap, vöðvaukning, viðhald osfrv), og kerfið reiknar út skiptingu næringarefna. Þannig eru rúmu 1700 hitaeiningunum mínum skipt í 20% (88 grömm) kolvetni, 40% (76 grömm) fitu og 40% (176 grömm) prótein yfir daginn. Þetta er rosalega lítið af kolvetnum og ég ströggla aðeins við að ná þessu. Er oftar að klára daginn í 30/35/35. Flaska líka aðeins á að ná nógu miklu af próteini. Hvað sem því líður virðist það samt duga til að léttast þetta mikið.
Mér finnst þetta bara skemmtilegt. Ég nota My fitness pal, sem er orðinn það, minn helsti félagi, til að telja og áætla macros yfir daginn. Maður þarf að hafa smá fyrirsjá og My fitness pal hjálpar óneitanlega þar til. Fyrir utan að þetta væri heilmikil vinna að gera í höndunum svona fyrst um sinn. Ég td vissi að ég ætlaði að fá mér sveittan borgara í gærkvöldi og snickers í eftirrétt. Hamborgarabrauð og snickers eru rúm 50 grömm af kolvetnum sem þýðir að það hefði verið erfitt að fá sér full 40 grömm af hafragraut í morgunmat. En ég planaði það bara og þá er það ekkert mál.
Þá daga sem ég náði að halda kolvetnum í 20% var ég hreinlega svöng. Það virðist ekki vera sannleikur fyrir mig að fita og prótein veiti meiri saðsamri tilfinningu en kolvetni. Ég virðist þurfa að fá alla vega 90 grömm af þeim yfir daginn til að vera södd. Sem er gott að finna út, ég hef engan áhuga á lágkolvetna fæði. Ég vil einfaldlega finna út hvar jafnvægið liggur þar sem ég er södd og sæl en er samt að missa fitu nokkuð örugglega. 
Ég ætla því að leggjast í smávegis tilraunavinnu. Halda kolvetnunum í 20% í aðra viku og tjekka á hvernig mér líður. Prófa svo að auka í 30% og althuga hvort það sé betra og hvort ég léttist enn. Og halda því svo áfram þar til ég kemst að skiptingunni sem þýðir viðhald, ekki fitutap. Og þá veit ég það. 
Eins og ég sagði þá finnst mér þetta hrikalega skemmtilegt. Ég nýt þess að upphugsa matseðla sem passa við dagsmarkmiðin og mér finnst lítið mál að eyða tímanum sem þarf í að undirbúa og gera þetta vel. Ég er hinsvegar enn aðeins að berjast við hugmyndafræðina. Ég er algerlega sannfærð um að þetta sveigjanlega matarval sé rétta valið. Ég vil búa í heimi þar sem ég get fengið mér beikonborgara og snickers. Og ég er líka alveg sátt við að þó matarvalið sé sveigjanlegt þá séu tölurnar það ekki. Það er ekki nóg bara að halda sér undir 1760 hitaeiningum, þetta þurfa að vera réttu 1760 hitaeiningarnar. Ég er sátt við það út frá vísunda-og vinnulegu sjónarmiði. En ég er enn að sætta mig við að þetta þýðir að ég er enn ekki tilbúin í intuitive eating. Að ég þurfi enn (og kannski bara alltaf) að skipuleggja mig, plana og telja. Kannski það komi seinna að sleppa talningu og ég viti bara af innsæji hvað er gott fyrir mig að borða, ég veit það ekki. En sem stendur er greinilegt að svona herskipulag hentar mér best. 
Það er rosalega góð tilfinning sem fylgir því að vera rétt nærður. Að fá mat sem mér finnst góður, er rétt blanda af hollu og óhollu, hafa orku til að lyfta, hjóla og vinna og líða eins og að ég sé að gera það sem er mér fyrir bestu. Þessi vika er búin að vera eins og ein risastór ástarjátning til sjálfrar mín.