þriðjudagur, 1. júlí 2014

Það er aldeilis að maður þarf að raða mikið í hillur. Eitthvað verður þetta snyrtilegt hjá mér.

sunnudagur, 1. júní 2014

 Ég eyddi síðustu helgi í London við dans, drykk og daður. Það fannst mér nú heldur skemmtilegt. Og ekki skemmdi fyrir að hitta þar og eyða helginni með góðum vinkonum sem ég hitti allt of sjaldan.

Í London keypti ég mér lítið plaststykki sem hefur heldur betur fengið mig til að hugsa. Þetta er ósköp einföld lítil plasthilla sem maður hengir á hleðslutækið og svo getur síminn legið á hillunni í snyrtilegu ró og næði á meðan hann hleðst. Svo einfalt. Svo áhrifaríkt.

Svona nokkurn vegin eins og heilbrigð rútína ætti að vera. Einföld og áhrifarík.  Í rúman mánuð núna er ég búin að mæta í ræktina, best 3 sinnum í viku, verst einu sinni en ég hjóla á hverjum degi. Að mæta í ræktina er bæði einfalt og áhrifaríkt en af einhverjum ástæðum get ég ekki sett það á litla snyrtilega plasthillu í heilanum og komið ræktarferðum algerlega fyrir í daglegu rektsri lífsins. Sama með matinn, kolvetni og prótein, prótein og kolvetni, prótein og fita. Einfalt og áhrifaríkt og virkar fínt fimm daga vikunnar. Um helgar breytist ég svo í eitthvað brenglað nagdýr og allt sem ég hafði áorkað yfir vikuna fýkur út um gluggann.

Ég tók þessvegna aðeins til í heilanum í dag og setti það sem þarf á snyrtilega plasthillu. Það sem þarf til er að búa til hugsanaakkeri, eitthvað sem festir vana og hegðun svo það gerist á hverjum degi. Setning eða orð sem ég nota og segi upphátt þegar ég finn upp afsökun til að fara ekki í ræktina. Ég þarf líka að hugsa um minningu sem færir mig aftur að tilfinningunni sem hreysti færði mér og á sama tíma slæ ég með fingrunum á viðbeinin. Allt þetta er akkeri, festing við vana.

Smáatriði eins og að kaupa nokkra nýja boli og nýjar buxur, skrifa niður nýja lyftingarútinu og gera vikumatseðil eru svo lokaþættirnir sem festa rútínuna í sessi.

Og já eitt í viðbót.

Just do it.

miðvikudagur, 7. maí 2014

Mér þykir alltaf jafn skrýtið þegar talað er um að það þurfi bara að gera smávægilegar breytingar til að ná varanlegum árangri í heilsusamlegu líferni. Skipta út einhverju óhollu fyrir eitthvað hollt, hreyfa sig smávegis, halda sig við heilsusamlegri kostinn 95% tímans.

Ef maður spáir aðeins í því þá er það bara heilmikið átak að vera heilsusamlegur 95% tímans. Við getum til dæmis sett þetta upp í einfalt reiknisdæmi. Gefum okkur að í vikunni séu sjö dagar og að ég borði 3 máltíðir á dag. Það gefur mér 21 máltíð ef ég man þrisvar sinnum töfluna rétt. 95% af 21 er 19.95. Sem þýðir að til að vera heilsusamleg 95% tímans yfir vikuna þá get ég tekið verri ákvörðun hvað mat varðar 1.05 sinnum yfir þá viku. Það er ein máltíð. Ein máltíð. Það er allt og sumt. Allar hinar máltíðarnar þurfa að halda sig innan marka sem eru annaðhvort minna magn en mig langar í eða eru ekki djúpsteik pizza.

Fyrir fólk sem er vant að taka betir ákvörðun 70% tímans, er semsagt meira heilsusamlegt en ekki, þá er breytingin einar 6 máltíðir. Ef maður er heilsusamlegur 70% tímans getur maður semsagt borðað rugl 6 sinnum. Að breyta frá 70% til 95% er semsagt breyting á einum 5 máltíðum. Þannig að við erum ekki einu sinni að tala um að fara frá 0% til 95% og það er samt heilmikið mál.

Á nákvæmlega sama hátt og mér finnast það vera lygar þegar það er sagt við fólk að það þurfi bara að gera smávægilegar breytingar á hreyfingu til að ná fram árangri. Það er bara ekki rétt. Það þarf að gera gífurlegar breytingar á öllu hugarfari til að ná árangri og til að viðhalda honum. Með smávægilegum breytingum nær maður einungis tímabundum árangri og svo fer allt í sama farið aftur. Ef ég hef í hyggju að vera hraust og halda spikin af mér þá þarf ég að breyta mér í íþróttamann, manneskju sem hreyfir sig á hverjum degi, Og það er gífurleg breyting á öllu hugarfari, allri hegðun sem þarf til að ná svoleiðis fram.

Það er ekki nema von að það eru bara einhver 3% útvaldra sem ná að halda af sér spikinu í einhvern tíma.

Þetta er sko meira en að segja það.

Maður þarf að nota stærðfræði og allt.

miðvikudagur, 30. apríl 2014

Mikið voðalega finnst mér gaman að lyfta lóðum. Og skórnir eru alveg að gera sig.

sunnudagur, 27. apríl 2014

Alla vikuna er ég búin að vera að gramsa í gegnum íþróttafataskúffuna mína - já, ótrúlegt en satt, ég á skúffu fulla af íþróttafötum. Sem er meira en ég get sagt um flestan annan fatnað. Hvað um það, gramsið hefur fært það heim sanninn um að öll íþróttafötin mín í téðri skúffu er of lítil, of slitin og götótt eða hafa þróað með sér sérlega aðlaðandi ilm sem getur einungis verið lýst sem þvegnum svita. Ég sá í hendi mér eftir síðustu viku þar sem ég lenti ekki einu sinni og ekki tvisvar í því að vera hálfkjánaleg við lyftingarnar út af gati á vandræðalegum stað á innanverðu læri eða því sem einungis getur verið lýst sem magabol að ég þyrfti eitthvað að taka til í skúffunni.

Ég er núna búin að flokka þetta til og sýnist að ég geti komist í gegnum viku án þess að þurfa að kaupa neitt nýtt. Nema reyndar skó. Ég hef alltaf bara notað hlaupaskóna mína i ræktinni, fer bara úr þeim þegar ég er að lyfta þungu. Það er nefnilega vont að lyfta í skóm eins og mínum sem eru svona mikið dúðaðir. En núna þegar ég er komin í svona kallarækt þar sem ég er bara ein á meðal allra þess steramassa finnst mér eitthvað skrýtið að rífa mig alltaf úr skónum á milli. Ég fór þessvegna í dag og varð mér úti um alvöru strigaskó. Þeir eru reyndar svo sætir að ég á örugglega bara eftir að vera í þeim við gallabuxur og litla sumarkjóla í allt sumar.


miðvikudagur, 23. apríl 2014

Fjórar vikur mínus tveir dagar. Sykurvímu fylgir sykurþunglyndi.

þriðjudagur, 15. apríl 2014

Mikið sem þetta er góður sársauki þessi sem kemur eftir góða törn í ræktinni. Það er aðeins öðruvísi stemning þetta að fara eftir vinnu, mér finnst einhvernvegin eins og ég sé ekki að leggja jafn mikið á mig eins og þegar ég lyfti eldsnemma. Svona eins og það væri eitthvað meira kúl að vera mætt og búin áður en flest venjulegt fólk var komið á fætur. Samt er ég í raun að gera meira núna en hér áður fyrr af því að núna þarf ég líka að hjóla heim. Það var ekki með áður. Ég er enn algjör tappi.

Tappar taka líka þátt í Iron Man keppnum. Ég er nú kannski ekki alveg komin á það stig að geta synt 3.8 km, hjólað 183 km og hlaupið svo 42 km á tólf klukkutímum, en ég gæti nú kannski gert það ef ég fengi aðeins lengri tíma. Einn mánuð til dæmis. Hvernig væri að taka þátt í Iron May fremur en Iron Man?

Mér datt þetta í hug um daginn og er núna búin að setja þetta upp fyrir sjálfa mig. Maí er aðeins meira en fjórar vikur. Ef ég syndi einn kílómetra á hverjum laugardegi í maí, fer út að labba einn og hálfan kílómetra á næstum hverjum degi og hjóla tæpa sjö kílómetra þá eftir mánuðinn ætti ég vera búin að safna mér í einn járnkarl.

Það væri nú skemmtilegt. Að vera járnkarl.