þriðjudagur, 25. apríl 2017

Dagbók í 30 daga -8

Hvaða 3 orð lýsa best sambandi mínu við mat? 
Samviskubit, kvíði, hatur. mánudagur, 24. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 7

Ég var að vona að það að þurfa að skrifa á hverjum degi myndi koma mér aftur í svíng, ásamt því að veita mér djúpan skilning á sjálfri mér og sambandi mínu við mat. Það er ekki að gerast, ég er hinsvegar að verða meira og meira pirruð á naflaskoðuninni og sjálfhverfunni. Nóg var nú víst fyrir. 

Ég er samt enn að vona að þetta hjálpi. Kannski ef ég væri ekki svona stressuð í vinnunni, og þreytt þegar ég kem heim, eða ef ég tímdi að sleppa dofanum sem kemur með að horfa á sjónvarpið hefði g meiri tíma til að í alvörunni velta spurningunum fyrir mér og komast að niðurstöðu sem hefur einhverja merkingu, 

Spurning dagsins snýr að mat. Hvernig lætur matur mér líða? 

Matur lætur mér líða vel og illa. Ég nota mat til að fagna, til að syrgja. Matur er stresslausn þegar ég hef tíma til að dúlla mér í eldhúsinu, matur veldur mér líka endalausu stressi því ég hugsa um fátt annað. 

Matur er líka bara matur og það er hegðan mín gagnvart honum sem hefur skapað þetta rugl ástand. Matur er ekki óvinurinn, ég er óvinurinn, 

sunnudagur, 23. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 6

Sjötta færsla er til að líta yfir fyrri færslur og sjá hvort eitthvert þema sé til staðar. Ég held það sé algerlega augljóst þemað; ég veit hvað ég þarf að gera til að auðga lif mitt en ég nenni því ekki eða geri það hálfshugar og mest til að halda í einhverja smávegis vanalíðan til að mega borða. Einfalt.

laugardagur, 22. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 5

Hvað get ég gert til að auðga líf mitt og heilsu, og gleði þetta árið?

Enn er stór spurt og ég hef svör á reiðum höndum. Hjóla meira, eyða meiri tíma með vinum, spila á gítarinn. Þetta kemur allt um leið. Allt þetta er eitthvað sem lætur mér líða eins og sál mín sé fyllri og ég þarf minni mat.

Hitt er svo að gera þetta. Taka upp gítarinn og eyða klukkustundum saman að æfa mig. Fara út á hjólinu og hjóla bara, ekki spá í tíma eða vegalengd, hjóla bara. Taka upp símann og hringja. gera plön og hittast. Gera þetta. En það er bara allt annað en að vita að þetta sé það sem þarf og svo að gera það í alvörunni. Mig stundum langar bara ekki til að fylla sálina mína. Hvernig á ég þá að afsaka ofátið?

föstudagur, 21. apríl 2017

Dagbók i 30 daga - 4

Í ár vil ég helst...

Spurning dagsins fór alveg með mig. Í fyrsta lagi þá er bara ekki hægt að setja sér árs markmið núna; það er nánast hálfnað árið! Fyrir fólk eins og mig sem byrja bara á nýjum hlutum á mánudögum, eða um mánaðarmót er útilokað að ætla að ana út í ársplan í lok Apríl, hvað rugl er þetta eiginlega?

En svo sljákkaði aðeins í mér, kannski að þetta sé lexían, að ég læri að slaka á kröfunum sem að lokum eru svo bara til að ég slæ öllu á frest hvort eð er og reyna að setja mér markmið fyrir árið, Þó svo ég hafi bara helminginn af þvi núna til að ná þeim.

Það eru nokkrir mismunandi þættir sem spila hér inn í markmiðin og ég er stundum ekki alveg viss hvað er meginmarkmið og hvað er skref í áttina.

Ég vil vera sátt. Þetta hinsvegar er svo óskilgreint að það er nánast ekki hægt að nota sem markmið. Ég verð að setja inn í þetta ákveðin skref, eða verkefni sem ég get afgreitt sem gera mig sáttari. Inn í það fléttast að taka starfsframann af meiri ákveðni, gera meira úr að ferðast almennilega, rækta betur vinasambönd, spila meira á gítarinn, lesa meira,skrifa meira, horfa minna á sjónvarpið, hjóla meira, fara oftar í klippingu. Allt þetta get ég sett í plan og gert eitthvað í því. Og tjékkað svo á því hvort ég sé sáttari.

Spurning dagsins fékk mig til að hugsa. Og til að langa til að skrifa betur, ekki bara kasta út nokkrum orðum einfaldlega til að standa við loforðið. Kannski að þetta sé að virka?

fimmtudagur, 20. apríl 2017

Dagbók i 30 daga - 3

Hver er mín stærsta hindrun? Og get ég unnið eitthvað með það?

Innri mónólógurinn minn er mín stærsta hindrun. Engin spurning. Hvernig raunveruleikinn stenst ekki samanburð við söguna sem ég bý til í huganum. Þar á eftir er það svo innri mónólogurinn sem segir setningar eins og "þú er ógeðsleg". Hver segir svoleiðis eiginlega? Aldrei myndi ég vera vinur einhvers sem kallaði mig ógeðslega. En ég má segja það við sjálfa mig!? Verstu dagarnir eru svo þegar ég trúi sjálfri mér og finnst ég vera ógeðsleg. Ekki fallegt, en satt.

miðvikudagur, 19. apríl 2017

Dagbók í 30 daga- 2

Hvað vil ég mest í lífinu og hvað er ég tilbúin að gera til að ná því?
Ef ég hefði verið spurð fyrir nokkrum áratugum síðan hefði svarið verið kærasti. Og að verða mjó. Og að verða lögfræðingur. Ekki bara einhver lögræðingur heldur Jill Clayburgh, attorney at law, sjasamm! Svo var það að verða mjó, og fræg söngkona. Svo var það einhverskonar starfsframi og að vera mjó.  Svo var það bara að vera mjó.
Núna myndi ég helst segja að ég vil bara vera sátt. Og ég á við eins og orðið á ensku: Content. Mér finnst sátt ekki ná yfir það sem ég á við. Ég myndi helst nefnilega geta hætt að lifa í þarnæsta mómenti, mómentinu sem kemur ekki fyrr en eftir eitthvað skilyrt, og geta bara verið ánægð í mómentinu núna.
Fyrir einhverju siðan hefði ég líka sagt að ég myndi gera heilmikið, leggja mikla vinnu á mig til að ná markmiðinu en akkúrat núna er bara þetta, að skrifa í 10 mínútur nánast of mikið á mig lagt. En ég veit að það gerir mér gott að lokum, hversu klén skrifin svo sem eru. Það eitt að hafa þetta sem punkt, eða rútínu er byrjun.