þriðjudagur, 11. júlí 2017

Af ákvörðun

Við hjónakornin fögnuðum 12 ára hjónabandi núna á sunnudaginn með góðum göngutúr um Idwal vatn í Snowdonia þjóðgarðinum. Við höfum nokkrar síðustu vikur unnið markvisst að því að ganga úti í náttúrunni og bætum við í vegalengd og/eða klifur við hverja göngu. Við skemmtum okkur konunglega við þetta og í hvert sinn sem við förum út bætum við í drauminn um nokkurra daga langa göngu.

Mitt eina vandamál er hversu þung ég er núna. Hnén eru bara ekki að höndla þetta alveg. Og ég verð að gera eitthvað í því ef ég ætla að halda áfram að njóta útivistarinnar og bæta í vegalengdir.

Og á sama tíma þarf ég að sætta innri orðræðuna sem svona hálf bannar allar hugsanir um "átök". Ég þarf svona hálfvegis að réttlæta fyrir sjálfri mér að það sé í lagi að taka á mataræðinu og á sama tíma halda áfram að elska mig einsog ég er. Að þetta tvennt sé ekki mutually exclusive. Að það að hugsa betur um mataræðið sé einmitt sjálfsást. Að það þýði ekki að ég sé að segja sjálfri mér að ég sé ljót, löt og leiðinleg manneskja.

Málið er að það fer bara eiginlega alltaf út í vitleysu hjá mér, endar í einhverskonar keppni við sjálfa mig um að sýna mér og umheiminum að ég sé ekki viljastyrkslaus aumingi, að ég sé einhvers virði, að ég sé jafn góð og dugleg og allt mjóa fólkið.  Og áður en ég veit af er ég komin út í höft og boð og bönn sem síðan bresta og ég enda útmökuð í súkkulaði sem gerir sjálfshatrið ekkert sætara. 

Ég held að það sé rétt hjá einkaþjálfaranum sem lenti upp á kant við líkamsvirðingarfrömuðinn um daginn; allt feitt fólk vill vera mjótt. Ekki eitt einasta okkar myndi segja nei takk ef í boði væri að vakna mjór á morgun. Sum okkar myndu meira segja skipta alheimsfriði út fyrir það ef enginn kæmist að því. Þar sem einkaþjálfarinn hinsvegar hefur rangt fyrir sér er þegar hann vill meina að við hlussurnar bara vinnum ekki nógu hörðum höndum að markmiðinu. Við gefumst allt of auðveldlega upp. Við höfum engan viljastyrk. Og í hljóði segir hann að við séum aumingjar. 

Þar tapar hann rökstuðningnum. Ég hef unnið staðfastlega að þessu núna í 33 ár, og af einstökum einsettum einbeittum vilja í  átta ár. Og ég hef enn ekki komist nálægt neinu markmiði. Ég hef ekki eytt jafnmiklum tíma, orku, peningum, sál, blóði og tárum í nokkurn skapaðan hlut og ég hef lagt í að verða mjó. Og ég er ennþá feit. 

Og þetta er það sem einkaþjálfarinn skilur ekki; fyrir þau okkar sem höfum lagt allt okkar í verkefnið en erum enn feit er svo komið að það er betra að hætta að eyða frekari tíma í draum sem rætist ekki, hversu mikla vinnu við leggjum í hann, og reyna frekar að eyða orkunni í annað. Og það er síðan hitt sem einkaþjálfarinn skilur ekki og það er að þegar við segjumst ætla að "gefast upp" þýðir það ekki að við ætlum héðan í frá að liggja í kleinuhringjabaði. Það þýðir að við ætlum að einbeita okkur að því að ná öðrum markmiðum en tilviljunarkenndri tölu á vigtinni. 

Auðvitað er til feitt fólk sem grennist og heldur spikinu af sér, auðvitað er þetta hægt. En staðreyndin er sú að um 97% þeirra sem reyna mistekst. Af einhverjum ástæðum gengur það svo illa hjá þetta mörgum að einkaþjálfarinn og milljón manns sem vinna í heilsubransanum hefur lifibrauð sitt af því að selja drauminn um að hamingja fylgi því að vera mjór til milljónanna sem eru feitir aumingjar. 

Ég verð pirruð yfir hringsólinu sko. Málið er að við eigum öll að hafa rétt til að vera og gera eins og okkur sjálfum sýnist. Ég verð trítilóð þegar drengstauli sem veit ekkert nema að það er gott að vera tanaður í drasl og músklaður og að það er vont að vera feitur og var ekki einu sinni glampi í augunum á pabba sínum þegar ég var sett í mínu fyrstu megrun, segir mér að ég sé ekki að vinna nógu hörðum höndum. En á sama tíma veit ég að mér líður ekki vel í líkamanum núna. Hnén þola ekki gönguna. 

Það er á þessum forsendum sem ég er núna að vinna að betri hnjám. Ekki til að verða mjó, ekki til að byrja aftur að hatast við hlussuna í mér, ekki til að þóknast samfélagi (og einkaþjálfurum) sem segja að feitir séu annars flokks þjóðfélagsþegnar. Heldur vegna þess að við höfum öll rétt til að gera það sem lætur okkur líða sem best. 

Á göngunni á sunnudaginn ákváðum við hjónin því að leggja smá meiri vinnu í að laga á mér hnén, úthaldið hjá honu og verða betri göngugarpar en við erum núna. Næstu mánuðina ætla ég því að skrásetja hérna það sem við stússumst og hvernig gengur.

1 ummæli:

Ása Dóra sagði...

Nákvæmlega!!