laugardagur, 1. júlí 2017

Af bleyðu

Það er eitthvað sérlega fullnægjandi að fara í hring. Það skilar meiru í sálina að fara hringinn frekar en að fara fram og tilbaka. Það er bara þannig. Þetta að finna hringleiðir situr orðið algerlega í sálinni minni, og þá sérílagi vegna þess að ég bara get ekki fundið hring. Allar hringleiðir sem ég hef farið hef ég fylgt öðrum. Þegar ég er ein út að hjóla enda ég alltaf á að verða hrædd og þræða sömu leið tilbaka.

Ég er núna búin að leggja í hann í nokkra laugardagsmorgna í röð, harðákveðin í að finna hringleið frá Rhosllannerchrugog að Minera og aftur til Rhos í hring. Ég veit að þetta er hægt, ég hef séð og skoðað hundrað kort á MapMyRide og Strava, gúgglað þetta til helvítis sjálf, og dánlódað og skrifað hjá mér leiðina.

Það var ekkert öðruvísi í morgun. Hér er búið að vera rok og rigning í rúma viku en virkaði aðeins hægar um sig í morgun. Fullkomið hjólaveður.  Ég skoðaði kortið enn einu sinni og lagði svo í hann. Málið er að ef ég fer upp Rhos fjall og beygi svo til hægri á ég lógískt að enda í Minera hvaðan ég svo beygi aftur til hægri og enda þá aftur í Rhos. Þetta er augljós mál. Færi ég til vinstri enda ég í Pen Y Cae. Ég veit það, hef prófað það. Og það er reyndar hringleið en of stutt.

Uppleiðin er erfið, en ekki of erfið. Maður stendur á öndinni þegar á toppinn er komið en bara þannig að það er gefandi. Nett high five handa manni sjálfum og svo heldur maður áfram. Ég tuðaði í sjálfri mér að þetta væri einfalt, ef ég héldi alltaf í það sem væri lógísk leið hlyti ég að lokum komast á réttan stað. Vandamálið er að ég er svo áttavillt að það er ekkert lógískt við áttir að mínu mati. Ég heyrði einhvern tíman á einhverju vísinda podcasti sem ég hlusta á að rannsóknir hafa sýnt að fólk er fætt með mismunandi hæfileika til að finna áttir, þetta er genatískt. Og sömu rannsóknir sýndu að fólk af norrænum uppruna er með mælanlegri betri hæfileika til að átta sig á áttum en aðrir þjóðflokkar. Víkingar eru semsé náttúrulegir navigators. Þetta að vera áttavillt er þessvegna eins og tvöfalt feil hjá mér.

Þegar ég var komin þangað sem ég hélt að væri toppur var um tvennt að velja, halda áfram upp slóða eða fylgja veginum í smá sveigju til hægri. Ég var einhvernvegin sannfærð um að slóðinn upp væri sá rétti. Hélt því áfram alla leið, upp og upp og upp. Það endaði svo í að vegur breyttist í slóða, svo stíg og að lokum var ekkert eftir nema kindaslóði þakinn kindaskít. Ég snéri því við. Var samt nokkuð ánægð, þetta var jú hreyfing. Valdi að fara til hægri og fannst eins og hér væri eitthvað að gerast. Hjólaði heillengi þarna uppi á fjallinu, sá fugla og íkorna og kindur. Endalausar kindur. Eftir þónokkuð var ég farin að efast um allt í lífinu. Eins gaman og það var að hjóla þarna um í náttúrunni var ég bara ekki viss um hvert ég væri að fara. Þegar ég svo sá að það var ekkert nema svakaleg brekka niður á við sem ég sá ekki hvar endaði stoppaði ég. Hugsaði mig um í smástund og vissi að ef ég færi niður myndi ég ekki komast aftur upp, hún var það brött. Kannski væri hringurinn sem ég leita svo stíft að við brekkurætur en ég þorði ekki. Kannski ef ég væri ekki ein myndi ég vera hugrakkari að prófa, kannski er þetta myndlíking fyrir allt mitt líf. Ég stend á toppnum og þarf að treysta í blindni að það sé rétt að láta sig bara gossa en ég þori ekki að sleppa. Þori ekki láta af öllum gömlum vönum.

Ég snéri við. Ég var búin að hjóla í tæpa tvo tíma og upp á við mest megnis af þeim tíma þannig að hvað hreyfingu varðaði var ég búin að fá gott út úr túrnum. Ég var samt smávegis svekkt út í sjálfa mig fyrir að þora ekki. Ég afsakaði mig með að við þurfum að stússast í dag þannig að ég þurfti að komast heim. Kannski um næstu helgi að ég ákveði bara að taka daginn í að villast, vera hugrökk og sjá hvað gerist. Í alvörunni, það er ekki eins og ég endi í Skotlandi. Og það er ekki eins og það væri svo slæmt mál hvort eð er.


Engin ummæli: