mánudagur, 20. október 2014

Mér tókst svo ágætlega að ráða við mig í vikunni, er ekki alveg nógu meðvituð nógu oft, en reyni samt eftir bestu getu að hlusta eftir merkjum um að ég sé orðin nógu södd. Gleymi mér aðeins of oft, og oftast á kvöldin þegar ég er bara eitthvað að dingla mér og fæ mér óvart einhvern "mola" með kaffibolla. Alveg án þess að fatta það og algerlega án þess að vera svöng á neinn hátt. Það er þetta meðvitunarleysi sem er hættulegast og ég finn og veit að það snýst algerlega um þessa heimakæru værð og andleysi sem fylgir dofnu sjónvarpsglápi. Um leið og ég geri eitthvað sem hefur meiri meðvitund í för með sér kviknar á mér allri og ég þarf engan mola, eða hef nógu mikla skynjun til að fatta að ávarpa löngunina á annan hátt en að troða bara upp í mig.

Best er að spila á gítarinn. Ég get setið tímunum saman og glamrað. Meira af hamingju og gleði en af færni en það skiptir litlu máli. Samhæfing huga og handar heldur mér frá súkkulaðinu og mér er alveg sama. Á meðan ég spila er ég 100% í stundinni.
Sjallallallala ævintýri enn gerast.

sunnudagur, 12. október 2014

Ég vaknaði í morgun með gífurlega löngun til að "binge", oféta. Mig langaði til að ná mér í smjördeigshorn og súkkulaði og setjast svo niður og raða í mig, hverjum bitanum á fætur öðrum þartil ég hvorki finn bragð né tilfinningu. Í stað þess að reiðast sjálfri mér fyrir veikleikann og kalla mig öllum illum nöfnum eða einfaldlega láta eftir þessu og fara út í Kaupfélag og ná mér í góssið, ákvað ég að spyrja sjálfa mig hvað lægi að baki löngunarinnar.

Fyrsta svarið; "Mig langar bara svo í gott bragð og smjördeigshorn og súkkulaði eru svo bragðgóð" er afgreitt með: nú, þá þarftu bara eitt smjörhornsstykki og eitt súkkulaði til að fá góða bragðið og ef svo væri þá þyrftirðu ekki að borða þangað til þér er illt. Það er greinilega eitthvað meira hér að baki.

Næsta svarið kemur með hortugu þjósti; "Láttu mig í friði, ég má bara gera það sem mér sýnist!" Og það er auðveldega afgreitt með að minna mig á að ég hef gefið sjálfri mér óskilyrt leyfi til að borða og ég þarf ekki að troða í mig eins og á morgun sé dómsdagur. Ég hef samið um frið við mat, hvorki matur né ég erum núna skilgreind sem góð eða slæm eftir því hvernig ég haga mér. Ég hef samið um frið. Þannig að ef ég má borða smjörhornsstykki í hvert mál ef mér svo sýnist, hversvegna löngun til að borða átta í einu?

Þetta er næstum eins og líkamleg þörf frekar en sálræn og það ruglar mig í smástund. Mér dettur í hug að ég sé kannski bara með einhverskonar sníkjudýr inni í mér sem er svona ægilega hrifið af frönskum bakstri. En verð svo að viðurkenna að líkamleg þörf sem er svona "röng" hlýtur að koma frá einhverju sálrænu. Líkaminn veit hvað er honum fyrir bestu og myndi aldrei samþykkja ofát.

Hvað er það inni í mér, í sálinni sem telur að það að borða þangað til að spýjubökkum er komið sé það besta fyrir mig? Hvað tel ég að ég sé að "næra" með ofáti? Af því að það er það sem er að gerast. Sex ára Svava Rán er sannfærð um að hún sé að gera sér gott með þessu. Hún er að reyna að laga eitthvað.

Ég vaska upp, fæ mér ristað brauð, smelli í vél, spjalla við Ástu, hreinsa út úr herberginu hans Láka, endurskipulegg fataskápinn minn, spila á gítarinn og fer svo og kaupi súkkulaði.

Hugsa allan þennan tíma um hvað býr hér að baki, hvað drífur þessa löngun áfram. Kemst svo sem ekki að neinni niðurstöðu, ekki nema það að mér leiðist aðeins. Finnst það samt ekki fullnægjandi svar.

Kannski langar mig bara til að taka meira pláss í veröldinni?

sunnudagur, 5. október 2014

Það er í raun alveg merkilegt að það séu til feitar manneskjur nútildags. Ef við spáum í öllu sjálfshatrinu sem knýr mann áfram í hverri megruninni á fætur annarri, öll skiptin sem maður stendur fyrir framan spegil og hatast við það sem maður sér, í hvert sinn sem maður sér mynd af sér og sýpur hveljur af hryllingi, allt þetta niðurrifstal sem á að hvetja mann áfram til að bræða af sér spikið. Sko, ef niðurrifið virkaði vel til að grennast, nú þá væri ekki eina einustu fitubollu að finna. Við hefðum öll hatað okkur grönn fyrir löngu.

Nei, er ekki bara nokkuð öruggt að gera ráð fyrir því að hristast af hryllingi við tilhugsunina um sjálfan sig í sundbol er ekki leiðin til að grennast. Hinsvegar má gera að þvi skóna að með ást, umhyggju og natni er líklegt að maður nái að sættast við sjálfan sig.

Í tilraun til að finna aftur ástina á líkama mínum ákvað ég að finna upp nýja hreyfingu. Ég sá fyrir mér sambland af uppvaski, dansi og hugleiðingu á einhvern svona organískan hátt sem myndi svo vera bæði ægilega söluvæn tækni og áhrifarík að ég yrði svona organískur dansleiðtogi sem myndi frelsa heimsbyggðina innan skamms. Var ægilega ánægð með sjálfa mig. Kom heim úr vinnu um daginn, smellti tónlist á fóninn og greip uppþvottabursta. Lét svo líkamann ráða hreyfingunni algerlega. Reyndi, án þess að reyna, að komast í tengls við minn innri takt. Og vaska upp í leiðinni. Í miðju kafi kom Lúkas svo inn í eldhús og spurði furðulostinn hvað ég væri eiginlega að gera. Og hvort ég gæti orðið meira "embarrassing". Jú, ég hélt nú að ég gæti gert þetta verra og tvíelfdist öll. Hann sagðist ætla að "call security",

Rannsóknir síðan hafa reyndar sýnt að ég var ekki að finna neitt upp. Svona ómeðvitaður dans er velþekkt hugleiðsluaðferð og margreynd sem aðferð til að komast í snertingu við líkamann. Sjálf veit ég að mér leið voðalega vel. Ég var ekki að hreyfa mig af samviskubiti eða með hugann við hversu margar hitaeiningar ég var að brenna. Þetta var náttúrlegt og fallegt og mér leið vel á eftir. Á þetta ekki að snúast um það?

miðvikudagur, 1. október 2014

"Ég skil ekki afhverju maður þarf stanslaust að vera að fara út fyrir rammann" stundi ein af undirmönnum mínum þegar ég var að fara yfir frammistöðuna hennar nú nýlega. "Afhverju má ég ekki bara mæta í vinnunna, gera mitt og fara svo heim? Afhverju þarf ég stanslaust að vera að reyna eitthvað nýtt?". Ég skil alveg að fólk skuli spyrja svona en mér finnst líka skrýtið að það sjái ekki svarið blasa við. Ástæðan fyrir því að það er lífsnauðsynlegt að lifa utan rammans, og það í hvaða þætti lífsins sem er, er sú að ef maður situr stanslaust inni í rammanum þá minnkar hann. Að takast á við nýjar áskoranir stækkar ekki endilega rammann, það passar bara að maður minnki hann ekki stanslaust. Ef maður situr bara sáttur við sitt þá smá saman verður maður sáttur við minna og minna svæði. Maður fattar alltíeinu að maður hefur ekki hringt í neinn í langan tíma og svo verður asnalegt að hringja af því að maður hringir svo sjaldan og svo verður bara útilokað að hringja og svo allt í einu á maður einum vin færri. Maður afþakkar eitt partý af því maður vill frekar vera heima og slaka á. Svo afþakkar maður næsta boð af því að maður þekkir færra fólk í því partýi, eða maður er að forðast fólkið sem maður hringdi ekki í. Svo eru allt í einu liðin tíu laugardagskvöld og þá fattar maður allt í einu að maður er hættur að afþakka af því að manni er ekki boðið lengur.

Þessvegna þarf maður stanslaust að fara út fyrir rammann. Það er enginn að tala um endalaus fallhlífarstökk eða sund með hákörlum. Það er nóg að fara út að labba þegar þægindaramminn segir manni að það sé tilgangslaust af því að maður er ólæknandi fitubolla. Eða að lesa bók í staðinn fyrir að horfa á sjónvarpið.

Eða mæta í partý.