sunnudagur, 15. apríl 2012

"Tár, bros og keiluskór."
Það var náttúrulega ekki annað hægt en að halda upp á nýju vinnuna. Fyrir einhverju síðan hefði ég fengið mér í glas, farið fínt út að borða, gert eitthvað þannig. En nú er ég gömul kjélling og fjölskyldumanneskja þannig að maður þarf að sníða stakk eftir þeim vexti. Við ákváðum að prófa að fara í keilu. Lúkas og Dave hafa aldrei farið, ég kannski einu sinni eða tvisvar og það fyrir fimmtán árum. Enn og aftur verð ég agndofa yfir því hvað allt er auðveldara þegar maður er í betra formi. Meira að segja einfaldur leikur eins og keila verður léttari og skemmtilegri. Allar hreyfingar auðveldari. Við Dave skemmtum okkur konunglega, Lúkasi fannst þetta aðeins of erfitt. Hann er allt of mikill fullkomnunarsinni. Ég er svo allt of mikil keppnismanneskja, það sauð á mér af því að ég tapaði. (Næ honum næst.)

"Lífstílsbloggari gripinn við að graðga  í sig hammara!"
Við fórum svo á Frankie & Benny´s og fengum okkur djúsí borgara. Frankie & Benny´s er fjölskylduvænn ítalsk-ammrískt þemaður diner þar sem maður fær risa skammta af skyndibita í fínni kantinum. Akkúrat það sem mig langaði í. Ég fékk mér ægilegan kjúklingaborgara og franskar og naut í botn. Og þó að eftirréttirnir þar séu alveg svaðalegir þá langaði mig frekar í kaffi þannig að við enduðum skemmtunina á Starbucks með skinný latte. Ég var hæstánægð með að langa ekki í East Coast Sundae, enda búin með dagskammtinn af hitaeiningunum með borgaranum. Kvöldmaturinn var harðfiskbiti og vatn. Ég get bæði talið hitaeiningar og lifað góðu lífi. Þetta snýst um að finna þetta jafnvægi þar á.

Ég skrifaði um daginn um þetta fyrirbæri að fatta ekki að maður sé að fitna aftur. Maður hefur séð þetta milljón sinnum, fólk grennist, er súper ánægt og með allt á hreinu en svo sér maður það næst og það er búið að fitna aftur. Og meira til. Maður hugsar með sér hvernig gat þetta gerst, hvernig gat hún leyft þessu að gerast? Ég hef gert þetta sjálf. En ég er búin að fatta þetta núna. Það er einhvern vegin með þetta að maður þarf stanslaust að læra sömu hlutina upp á nýtt aftur og aftur. Það er eins og viskan og uppgötvanirnar sem maður gerir og öll þessi "aha!" andartök bara stoppi ekki við í heilanum á manni. (Hugsanir um súklaði taka of mikið pláss.) Þegar ég byrjaði fyrst í mars 2009 taldi ég hitaeiningar. Í fyrstu borðaði ég það sem ég hélt að mér þætti gott en hélt mér bara innan vissra hitaeiningamarka. Svo fór ég að velja hitaeiningarnar mínar af meiri kostgæfni og svo enn betur og svo komu allar þessar pælingar um næringarefni og súperfæði, sykurleysi og allt það. Um daginn ákvað ég að byrja aftur að telja hitaeiningar. Ég hafði týnt mér aðeins eftir sykurleysið og vantaði fastan byrjunarpunkt. Ég ákvað að borða bara hvað sem mig langaði í, en innan vissra hitaeiningamarka. Fór og keypti mér ægilega fínt granóla með súkkulaði og macadamia hnetum. Næstum fjögur pund pakkinn, lífrænt og mannvænt og endurunninn kassinn og fairtrade og ég veit ekki hvað. Ég taldi út að 30 gramma skammtur myndi kosta mig 170 hitaeiningar. Með 200 grömmum af fitulausu grísku jógúrti væri ég komin með fínan morgunmat, prótein og kolvetni. Í þrjá morgna borðaði ég þetta. Og engdist um að hungri. 30 grömm af granóla með súkkulaði og macadami hnetum er nefnilega ekki upp í nös á ketti. Þetta er rétt um ein matskeið. Á fjórða degi gafst ég upp. Vigtaði út 30 grömm af haframjöli, eldaði með vatni og saltklípu, bakaði eplasneið með kanil og setti út í. Kældi niður og setti jógúrt út á. Gamli góði hafragrauturinn minn. Og hugur, magi og hjarta sungu englasöng af hamingju. Ég södd og fullnægð langt fram yfir hádegismat og hafði notað sama hitaeiningamagn og hina þrjá dagana. Þetta hafði ég sko uppgötvað snemma í mars 2009. En þurfti að fatta þetta upp á nýtt. Og þannig förum við af því að fitna aftur. Maður fyllist hroka og heldur að maður viti þetta allt. Að það sé ekkert sem maður hafi ekki prófað. Að það sé ekkert sem enginn getur sagt manni eða kennt manni. En svo kemur í ljós að það er endalaust hægt að læra eitthvað nýtt. Meira að segja það sem maður hafði lært áður.

1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

oh, ert svo klár stelpa! Ég hef ekki nennu í að telja kcal en ætti klárlega að fara að gera það. Vikufrí hjá mér frá æfingum og mataræði þýðir 2 kg í plús! Bara rugl!

Verð að fara að finna leið til að léttast rólega en samt leyfa mér hitt og þetta líka. finnst ekkert gaman að horfa á vigtina fara upp á við..

Áfram þú og þú ert svooo að standa þig frábærlega