miðvikudagur, 16. mars 2016

Af hipsterasalati

Í London er gaman að vera og þar eru í löngum röðum litlar búðir sem selja allskonar dót og drasl sem maður hreinlega getur ekki verið án. Sjálf get ég réttlætt það að kaupa mér Marimekko servéttur, ítalska leðurpyngju og nestisbox þannig að ég hef ekki keypt mér föt núna í 3 mánuði og að það sé alveg nauðsynlegt að styðja við bakið á litlu sjálfstæðu verlsununum. Og nú þegar smá reynsla er komin á nestisboxið er greinilegt að það voru kostakaup.

Það er afskaplega smart og fallegt. 
Neðri dósin er fyrir morgunmatinn, í henni er að finna dýrindis ´´yfirnáttúrlega´´ hafrar eins og góð vinkona kallaði þá. Skeiðin sem smellt er á festinguna er ekki bara skeið, heldur gaffall líka og kemur sér því vel bæði í hafrana og í salatið sem leynist í efri dósinni. 
Ég var búin að sjá þónokkrar uppskriftir á Pinterest að salati í krukku en verð að viðurkenna að ég renndi alltaf hjá þeim uppskriftum. Fannst heldur mikið yfirlæti yfir svoleiðis, eins og það væri bara fyrir þóttafulla hipstera en að það væri engin ástæða fyrir að setja salatið sitt í glerkrukku annað en bara fyrir lúkkið. En svo datt mér í hug að þetta væri sniðugt að prófa aðferðina svona af því að ég er með hálfgerða krukku. Og kemur í ljós að það er alls ekki bara fyrir útlitið sem það er sniðugt að raða salat efninu svona upp.
Við sem erum skipulagsfasistar vitum nefnilega að þegar salat er búið til kvöldið áður og situr svo fram að hádegi í plastdós að maður fær lint salat í matinn. Það er ekki gott þegar maður er líka heltekinn af réttu áferðinni á mat. Lint salat er vont salat. En með krukkuaðferðinni aðskilur maður blautt frá þurru, krispí frá mjúku og þegar að áti kemur er eins og maður sé með nýlagað salat fyrir framan sig. Þvílík hamningja! Ég er búin að búa til allskonar ævintýraleg salöt í vikunni í gleðilátum miklum.
Hér sést í salatið mitt í hádeginu, undir stökku og brakandi kálinu leynist kjúklingur með suður-amerísku salsa ívafi, svartar ólífur og svartar baunir. Himnasæla ein. 
Afþví að þessi pinterest uppkrift tókst svo vel til ákvað ég að prófa aðra í kvöld og bakaði hvítkálsfleiga með beikoni og hvítlauk. Mikið var það gott, og fer kalt með í salat morgundagsins. 

Engin ummæli: