laugardagur, 15. maí 2004

Maður er alltaf að sjá einhvern sem maður þekkir hérna, Munda á Klöppinni býr aðeins neðar í götunni, Steinar Örn spilar á gítar úti á götu í Chester og Tóti Óskars var að kaupa sér reykta síld í kauffélaginu í gær. En mér varð eiginlega um og ó þegar Helgi Hjörvar byrjaði að keyra strætóinn minn. Er hann ekki blindur?

Við Ceri fórum með strákana í sund í gær og Lúkasi líkaði bara vel. Ég er því alveg orðin sannfærð um að vandamálið með sundtímana var hversu kalt vatnið var. Hann kippti sér ekkert upp við klórinn. Verra var þegar að við fórum aðeins heim til Ceriar. Eftir um það bil hálftíma þar inni byrjaði að leka úr nefi og augum og hann varð allur rauður og svo alveg svakalega pirraður. Ég get ekki dregið neina aðra ályktun en að hann sé með ofnæmi fyrir dýrum. Ceri er með fugla inni hjá sér og svo virðist sem fjaðrir séu engu skárri en hunda-og kattahár. Ofnæmisgepill sem sé. Ég get nú reyndar samt strax fundið einn góðan punkt við þetta og þar er að þá þarf ég ekki að vera vonda mamman þegar og ef Lúkas biður um gæludýr. Í staðinn fyrir að segja "nei það er svo vond lykt af hundum og mikill drulla sme fylgir þeim" þá get ég bara sagt "elsku kallinn minn þú ert með svo mikið ofnæmi". Frábært.

Hvað er þetta svo eiginlega með breta og dýr og drullu? Ég er nú búin að koma inn á nokkur heimili og allstaðar í þessum pínkulitlu, teppalögðu, veggfóðruðu herbergjum eru hundar, (og hár og fýla), risastór fuglabúr sem taka helminginn af stofunni (og fjaðrir og fýla) og risastór fiskabúr (og sull og fýla). Hér virðist ekki nokkur maður nokkurntíman taka upp ryksugu eða afþurrkunarklút. Mér líður bara illa inni hjá fólki. Eins og hjá Ceri í gær. Yndisleg stelpa en ég átti erfitt með að fara á klósettið vegna óhreininda. Á tannburstaglasinu var 3 cm þykkt lag af ryki. Hvernig stendur á þessu. Ekki nema von að ég sé skrýtin, ryksuga 3var í viku. Fyndnast er að Bretar tala um skítuga útlendinga, allt sé skítugt á Spáni. Ég hef komið inn á nokkur heimili á Spáni og þar var allt glansandi hreint. Verst er að ég virðist bara ekki ætla að jafna mig á þessu. Ég gerði ráð fyrir að tilvonandi tengdamóðir mín væri undantekning, að hjá henni væri bara skítugt, og svo að það væri skítugt hjá Tracy af því aðmamma hennar kenndi henni ekki að þrífa, og svo að það væri skítugt hjá Ömmu hans Dave af því að þar hefði hegðunarmynstrið byrjað. En nú er bara skítugt hjá öllum, allir eiga skítuga hunda og ég er bara ekki að höndla þetta.

Hvað um það, mitt hús er hreint og júróvisjón í kvöld. Allir í stuði.

Engin ummæli: