sunnudagur, 6. júní 2004

Í dag er ákkúrat ár síðan að ég flutti hingað til Wales. Við Dave sumsé búin að búa saman í heilt ár. Þetta er það lengsta sem ég hef verið í útlöndum; hálft ár í Bandaríkjunum, 11 mánuði í Belgíu og 2 mánuðir í Madrid voru hinar "löngu" utanlandsferðirnar. Ég á ekki alveg heima hérna ennþá, en þetta er allt að koma.

Ég horfði á vináttuleikinn í gær og varð bæði sár og svekkt. Það er einhvernvegin erfiðara að taka því þegar litla landið okkar verður undir þegar maður er búsettur erlendis. Sem betur fer er Dave ekki Englendingur því ég hefði þurft að drepa hann. Ég sagði við hann að leik loknum að ég vonaði að Frakkar tækju Englendinga í rassgatið í leik þeirra í Evrópumeistaramótinu. Og ég meinti það. Mig langaði til að þeim yrði refsað og að þeim liði illa og að þeir meiddu sig. Út af fótboltaleik! Mér er eiginlega ekki farið að standa á sama. Dave var voða glaður því núna skil ég hvernig honum líður gagnvart enska liðinu. Hann vill ALLTAF að þeir tapi og líði illa og meiði sig og verði sér til skammar. Hann er enn sár yfir því að Wales hafi ekki komist inn í þessa keppni. Ég sem betur fer verð sjálfsagt búin að gleyma þessu á morgun. Það er ekki sniðugt að vera svona hatursfullur.

Greyið strákarnir okkar. 6-1. Þetta er ekki fallegt.

Engin ummæli: