mánudagur, 9. febrúar 2009

Við fórum í bíó í gær að sjá Bolt. Disney mynd og hin ágætasta skemmtun fyrir 5 ára. Hann sat kyrr mestalla myndina, missti aðeins dampinn þegar svona 10 mínútur voru eftir og ég þurfti að hafa smá ofan af fyrir honum. Sem minnti mig á hve Wall-e er góð mynd. Ég hugsa að við eigum alltaf eftir að bera hana saman við það sem við komum til með að sjá héðan í frá. Nánast ekkert talað, langar senur þar sem Wall-e er bara eitthvað að stússast en engu að síður sátum við öll jafn dolfallin og límd við skjáinn. Og Lúkas hreyfði sig ekki alla myndina. Það verður langt þangað til að það verður jafn gaman að fara í bíó. Wall-e setti einhvern staðal sem ég bara fæ ekki séð að önnur teiknimynd geti náð. Töfrum líkust.

Ég er búin að skrá mig í svona net-megrunarklúbb. Að vera ekki í megrun virkar semsé heldur ekki fyrir mig, ég hef enga stjórn á átinu. Ég er svo veik og sjúk manneskja að ég held að það sé bara leitun að. Átið hefur núna alveg tekið yfir allt í lífinu og ég er komin á eitthvert stig sem ég kannast ekki við áður. Ég fæ panikk atakk ef það er ekki til ákveðið mikið magn af sælgæti. Og ég er að tala um alvöru panikk atakk; ég fæ hjartaflökt og svitna, á erfitt með að anda og fyllist sorg, depurð og reiði. Þetta er ný geðveiki sem hefur tekið völdin af mér. Allavega, magateygja er ekki valmöguleiki, nú einfaldlega vegna kostnaðar. Fyrir nokkrum mánuðum var það vegna þess að ég ákvað að ég gæti ráðið við þetta sjálf, nú hef ég viðurkennt að það er ekki satt, ég bara hef ekki efni á aðgerðinni. Þangað til verð ég að reyna að gera eitthvað. Verð að viðurkenna að ég er hálf vondauf með þetta, ég fæ ekki séð að megrun númer 4979 komi til með að virka eitthvað betur en hinar 4978. Ég er að reyna að tækla þetta út frá þeim sjónarhól að fitan utan á mér sé merki um velmegun og að velmegun sé núna blótsyrði og ég verði að losna við þetta til að vera í liði með bræðrum mínum og systrum sem nú berjast í bökkum. Ég er sem sé að fara í hugmyndafræðilega megrun. Á netinu.

1 ummæli:

Guðrún sagði...

Ég held að hugmyndafræðileg megrun sé það sem þarf. Ef maður nær að breyta heilanum pínu pons, það er að segja. Ef heilabúið hættir að telja manni trú um að maður þurfi að gúffa e-u í sig er björninn unninn. En það er nú hægara sagt en gert en vonandi gerist það núna!