sunnudagur, 29. mars 2009

Við breyttum klukkunni hérna í nótt. Mér finnst það alltaf jafnskrýtið, klukkan var 11 og svo var hún 1. Ekkert miðnætti í gær. Og núna er hún að verða 12 á hádegi og við erum hálfrugluð í ríminu. Erum enn í náttfötunum og vitum ekki hvort við erum að borða morgunmat eða hádegismat. Mér finnast þessi skipti verri en hin þegar klukkan verður miðnætti tvisvar. Það er auðveldara að díla við það einhvernvegin. Allavega þannig að ég er núna klukkutíma á undan Íslandi.

Ég segi oft við Láka að við séum í stuði og að nú sé stuð og að spyr hvort allir séu ekki í stuði. Mér finnst nefnilega svo sorglegt að Dave viti ekki að ég sé í stuði. Hann veit að ég er "happy" og "in a party mood" og "feeling great" og "electrified" og allskonar þessháttar en hann skilur ekki að ég sé í stuði. Og ég vil að Láki skilji orðið og tilfinninguna sem er svona sér íslensk. Reyndar þá finnst mér að Íslendingar ættu að fá einhverskonar stuðverðlaun frá alþjóðasamfélaginu fyrir það eitt að hafa lafað á skerinu í þúsund ár og mestmegnis í stuði allan tímann. En það er víst ekki hægt því það erum bara við sem skiljum hvað að er að vera í stuði. Skilja Færeyingar orðið? Mér er spurn.

2 ummæli:

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Nú er ég ringluð. Við í Ameríkuhreppi breyttum klukkunni fyrir tveimur vikum. Hvernig er þetta í Danmörku?

Harpa sagði...

Ég er í stuði! En já, það er erfitt að útskýra það. Sama er með trúnó. Ég hef mikið reynt að útskýra hvað trúnó þýðir bæði fyrir breta og ítala. Eina sem mér dettur í hug er leikræna túlkunin. Þ.e. að leggja aðra hönd á öxl viðmælandans og detta svo í djúpar samræður.... og minna auðvitað á að maður verður að vera á esinu!!