mánudagur, 4. maí 2009

Við fórum aftur í partý til Craig og Kelly á laugardaginn. Craig var fertugur og þau buðu í grillveislu. Þetta var ægilega skemmtilegt, glampandi sól, bjór í ísfötu, kjúklingur á teini og trampólín fyrir krakkana. Ég var góðglöð og smá rykug í gær en ekkert sem ég gat ekki tekist á við.

Ég hef að undanförnu verslað alla matvöru á netinu og fengið senda heim. En ákvað í gær að mig langaði í búðina svona til að sjá hvað er til og af því að mér finnst svo gaman í matvöruverslunum. En komst að því að héðan í frá verður ekki oftar farið í svona búð. Þetta var bara hræðilegt. Ég var alveg búin að gleyma hvað allt fólkið fer í pirrurnar á mér, hvað það er erfitt að keyra kerruna, hvað þetta tekur langan tíma og hvað það er leiðinlegt að hlusta á grenjandi krakka. (Annarra manna krakka, minn grenjar ekki.) Fyrir utan hvað það er miklu betra fyrir breyttan lífstíl að versla á netinu. Ég bý til matseðil fyrir vikuna og panta svo bara af honum, en í gær var allt í einu komin ofan í innkaupakerruna Doritos Nachos, Oreo kex, hvít rúnnstykki, hollenskur 45% ostur, hamborgarar með geitaosti og kit kat með cappucino bragði. Allt þetta hefði ég getað forðast á netinu af því að ég hefði ekki séð þetta. En allt var þetta keypt og étið í gær. Þannig að héðan í frá verður allt keypt elektrónískt og einu innkaupaleiðangrarnir verða í sérverlsanir. Þar sem ég kaupi hnetur, krydd og haframjöl.

Ég er farin að takast á við lífstílinn á vísindalegan hátt. Til þess að léttast um 1 pund þarf að spara sér 3500 karólínur. Til þess að viðhalda þeirri þyngd sem ég er núna á ég að borða 2600 karólínur á dag. Ég held mér í 15-1600 frá mánudegi til föstudags. Og spara þar með 5000. Ég æfi í hálftíma á dag og eyði að meðaltali 150 karólínum. Þar eru aðrar 750. Á laugardögum geri ég yoga og leik mér á Wii fitness board fyrir aðrar 250. Um helgar reyni ég að halda mér í 2000 á dag. Allt í allt spara ég 7000 karólínur yfir vikuna. Sem þýðir að ég ætti að léttast um 1 kíló á viku. Og það virkar. Sumar vikur eru stopp en það þýðir meira tap næst. Einfalt og virkar. Þannig að þessa vikuna get ég bara búist við hálfu kílói útaf rúmlega 4000 karólínum á sunnudaginn. (Úff, ég fæ í magann við að skrifa þetta, 4000! Hvernig er þetta bara hægt?!) Alla vega ég er þvílíkt að skemmta mér við þessa útreikninga og er hér búin að finna aðferð sem virkar fyrir mig.

Engin ummæli: