sunnudagur, 4. október 2009


Hér bankaði upp á maður í morgun og spurði hvort mér þætti ekki tími til kominn að fara að þvo hjá mér gluggana. Og í stað þess að verða móðgun yfir aðdróttunum um léleg verkbrögð mín, varð ég bara að vera sammála manninum. Hann bauðst svo til að gera þetta fyrir mig. Í skiptum fyrir 6 pund á mánuði ætlar hann að koma og sjæna hjá mér alla glugga. Í þágu þess að halda hjólum atvinnulífsins í gangi sættist ég á þetta og er núna semsé með gluggaþvottamann í vinnu hjá mér. Ég nenni ekki einu sinni að afsaka mig með að gera þetta ekki sjálf með því að segjast vera í fullri vinnu, fullu námi og með fullan lífstíl í gangi. Ég nenni ekkert að vera að vesenast með stiga og svoleiðis þegar maður vill gera það fyrir mig. Sem minnir mig á að ég verð líka að taka fram að það er fullt af húsverkum sem mér finnast skemmtileg. Elda auðvitað og stússast í eldhúsinu. Mér finnst gaman að þrífa, þurrka af og ryksuga og skúra. Og mér finnst gaman að vaska upp. Ótrúlegt alveg hreint en ég nota uppvaskið til íhugunar og ráðagerða.
Við erum svo að fara með Láka í smá aðgerð á morgun. Honum vex skringileg skögultönn sem þarf að fjarlægja. Hún er farin að stöðva eðlilegan framgang fullorðinstanna. Tannsérfræðingurinn var að vona að hann gæti gert þetta með staðdeyfingu en vissi það ekki alveg og bað okkur um að búa okkur undir að það þyrfti kannski að svæfa barnið. Sem mér finnst voðalega ónotaleg tilhugsun. En það verður að gera þetta þannig að við verðum bara að bíta í það súra og vona það besta.

1 ummæli:

Guðrún sagði...

Sendu gluggaþvottamanninn til mín. Ekki veitir af.