miðvikudagur, 23. desember 2009


Værum við kaþólikkar þá hefðum við fagnað nafnadegi Láka í dag. Hann er Þorlákur fyrir Þorlákshöfn (er hægt að verða meiri Þollari?) og Þorlákshöfn er nefnd svo fyrir eina dýrðling okkar Íslendinga. Og honum er eignaður dagurinn í dag. En við erum ekki kaþólsk þannig að við fögnuðum deginum eins og okkur sýndist best; fórum í bæinn í klippingu og skoðuðum jólaljósin í Wrexham. Hér fæst að sjálfsögðu ekki skata, en ég er vön að hafa fisk í matinn í staðinn. Hér á mínu heimili eru jólin algerlega íslensk, allar hefðir sem ég hef alist upp við eru haldnar og það má ekki breyta nema kannski smákökubakstri sem var bara sleppt. Eiginmaður minn hefur alltaf sagt að honum finnist best að halda bara íslensk jól, það sé miklu mikilvægara að ég fái hátíðleg jól en að hann fari í fyllerí með hinum Bretunum á aðfangadag. Hann viðurkenndi reyndar loksins í dag að honum finnist smá sárt að Lúkas upplifi aldrei þennan gífurlega spenning sem myndast við að bíða eftir að sofna, vakna svo á jóladagsmorgun til að hlaupa niður til að sjá hvað "Father Christmas" hafi skilið eftir undir trénu. En honum finnst það ekki jafn sárt og að ef ég fengi ekki að halda íslensk jól þannig að hann bara leyfir mér að ráða. Og ég er svo sjálfselsk og eigingjörn að ég segji bara takk og held mínu striki. Ég fórna því til dæmis að Láki tali almennilega íslensku þannig að mér finnst sjálfsagt að ég fái jólin í staðinn. Nú er tréð komið í hús og bíður eftir að vera skreytt, húsið ilmar af ajax í bland við furunálar. Ég á eftir að pakka inn tveimur gjöfum sem ég ætla að gera í kvöld þegar Láki er sofnaður, og hlusta á íslenska jólatónlist á meðan ég geri það. Á morgun er svo rútínan alveg sett; rjómagrauturinn eldaður, farið í jólakorta-og gjafaúthlutunargöngutúr, jólamessan á netinu, hamborgarhryggur, gjafir og svo kortin lesin upp. Verður ekki betra. Jú, reyndar eitt sem er ný hefð. Það er víst fimmtudagur á morgun þannig að ég byrja daginn á að vigta mig. Jólavigtin. Það er skemmtileg hefð.

1 ummæli:

Guðrún sagði...

Æ, elsku litla stelpan mín, ég varð að lesa þessa færslu í tvennu lagi... ég fór svo mikið að gráta.
Mér finnst svo vænt um það hvað þú reynir að halda í barnæskujólin.
Hér, hjá okkur pabba þínum, ert allt við það sama.
Engu breytt.