sunnudagur, 3. janúar 2010

Það byrjaði félega hjá mér árið; ég lá á hnjánum og dýrkaði postulínið mestmegnis allan föstudaginn. Ég skemmti mér semsagt voðalega vel hjá Kelly og Craig, eiginlega allt of vel því niðurstaðan var svona frekar niðurdregin Svava Rán á fyrsta degi ársins. En svo fór þetta nú allt að snúast upp á við, laugardagurinn hófst með snarpri lyftinga sessjón og svo fórum við Láki út að hlaupa. Ég tók reyndar ekki græjuna með, enda vorum við bara að leika okkur. Ég byrja í Couch to 5K á þriðjudaginn. Og svo hófst átið. Allan laugardaginn var ég gersamlega óstöðvandi, fylgdist með sjálfri mér svona nánast eins og utan frá, þetta var svo skrýtið. Ég skil ekkert hvað skeði, það var eins og gamla Svava Rán hafi tekið yfir og ráðið ferðinni. Svo fylgdi þessu þunglyndi í morgun. Og svo fattaði ég að það var ástæðulaust að vera eitthvað að væla yfir þessu. Það er nefnilega ekkert eftir af gömlu Svövu Rán. Sú gamla hefði nefnilega verið dauðfegin að hafa fallið, hún hefði notað það sem afsökun til að gefast upp og halda bara áfram að borða kökur og súkkulaði og fitnað aftur um allt sem farið er. Nýja Svava Rán hún er bara allt öðruvísi. Hún hugsar með sér "djöfullinn sjálfur, ekki borðaði ég í alvörunni þrjú chunky kitköt í gær! Damn!" og svo fer hún í íþróttagallann og tekur eitt sessjón af æfingum og heldur svo bara sínu striki. Ekkert vesen. Ég veit ekki hvað það á eftir að taka mig langan tíma að venjast nýju Svövu Rán og muna að leyfa henni að ráða, en ég veit að það er alltaf að verða auðveldara og eðlilegra. Hún er nefnilega miklu, miklu betri útgáfa.

Það er svo skemmtilegur andi í loftinu svona við áramót. Allir lofa betrun og bótum og allar líkamsræktarstöðvar fyllast af fólki með bjartar vonir og heilög loforð um að taka sig á. Vonandi að allt þetta fólk nái takmarki sínu og að það fari ekki fúttið úr betruninni svona um miðjan Janúar. Hvað ætlar þú að gera til að verða betri manneskja? Ég er búin að setja mér mín áramótaheit. Í fyrsta lagi ætla ég að hlaupa 5 kílómetra á undir 30 mínútum fyrir árslok og í öðru lagi þá ætla ég að léttast um 25 kíló fyrir árslok. Og í þessari röð. Árið 2010 ætla ég að reyna að einblína á önnur markmið en bara vigtina. Ég held að það sé komið að því hjá mér að reyna að vera ekki svona fókusuð á grömm og kíló og mæla velgengnina í öðrum stöðlum. Og ég hlakka bara til að takast á við verkefnin.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mig langar líka til að geta hlaupið 5 km á undir 30 mín. Fyrst þegar ég reyndi það var ég alveg rúmar 45 mín en er komin niður í 42 mín núna.

Kveðja Anna Helga