föstudagur, 8. janúar 2010

Ég er búin að vera að skoða ávana og venjur voða mikið að undanförnu. Mér skilst að vani getur verið brotinn á tuttuguogeinum degi. Þetta kemur frá rannsóknum sem voru gerðar á fólki sem hafði misst útlim. Þannig að ef maður hefur slæman ávana sem maður vill komast frá þá á maður að byrja á því að skilgreina hvað það er sem er að og svo hvaða ágóða maður hefur af því að breyta vananum. Ef maður borar í nefið þá myndi ágóðinn til dæmis vera að maður er betur hæfur í kurteisu samfélagi. Svo þarf maður að reyna að hætta að bora í nefið. Í hvert skipti sem fingurinn færist að nös á maður að setja kross í dagatalið. Af því að maður er orðinn meðvitaður þá eiga krossarnir smá saman að verða færri. Þangað til að maður er alveg orðinn háður vasaklútum. Sama gildir um að koma sér upp góðum venjum. Og mér hefur tekist það ágætlega. Ég til dæmis er búin að koma líkamsrækt svo rækilega inn í daglega rútínu hjá mér að það er nánast útilokað að ímynda sér nokkuð annað en að vakna á morgnana, pissa, bursta tennur, drekka vatnsglas og hoppa svo í hálftíma. Til að byrja með þurfti ég að minna mig á að gera þetta og jafnvel á stundum neyða mig áfram. En núna, ekkert mál, ég hugsa jafnmikið um að lyfta og ég hugsa um að tannbursta mig. Þetta er svo sjálfsagt mál. En það er allt annað mál með matinn. Matur er svo flókið hugtak fyrir mig að ég get ekki einu sinni fundið út hvar ég á að byrja til að flokka mat þannig að ég geti ákveðið hvað ég á að gera til að breyta vondum venjum mínum. Mér bara algerlega fallast hendur. Og þegar ég er í svona skapi þá vomir snikkersið yfir mér og stríðir; "kommon, fáðu þér bara bita, þú getur þetta ekki hvort eð er, þú getur aldrei breytt þér nóg til að halda þetta út, þú getur allt eins gefist upp núna, þetta hefur aldrei tekist áður, kommon, fáðu þér bara bita, ég er svoooo gott á bragðið, koma svo..." 10 mánuðir og enn koma dagar þar sem ég hef enga stjórn. Mikið svakalega fer þetta í pirrurnar á mér. Dagarnir og tímabilin þar sem ég hef algera stjórn eru svo góðir, mér líður svo vel, eins og súperkonu, en samt, samt get ég ekki brotið vanann sem segir mér að verðlaunin fyrir góða hegðun sé matur. Og að refsingin fyrir slæma hegðun sé meiri matur. Tuttugo og einn dagur til að gera hvað? Venja mig af mat algerlega?

1 ummæli:

Asta sagði...

Iss, þetta snikkers er drifið áfram af djöflinum, segðu því að hunskast .... það er þú sem ert húsvörður hér, ekki það! Huh, huh... út, út!!