miðvikudagur, 31. mars 2010

Einn af uppáhaldsbloggurunum mínum Jack Sh*t spurði um daginn lesendur sína afhverju þetta skipti er skiptið sem lífstíllinn heldur. Ég er búin að vera að spökulera í þessu núna í dálítinn tíma, sér í lagi með það í huga að þrátt fyrir að ég sé ekki að léttast nærri því jafn mikið eða hratt og ég planaði, og þrátt fyrir endalaus hnjask sem ég er að verða fyrir og endalaust vesen þá er ég hundrað prósent sannfærð um að þetta sé algerlega komið til að vera. Hvers vegna núna?

1. Ég er búin að læra af reynslunni. Fór í fyrsta alvöru megrunarkúrinn þegar ég var 11 ára, og síðan þá hef ég prófað þá alla. Tvisvar sinnum þannig að ég hélt að ég væri búin að ráða niðurlögum fitupúkans. Ég er orðin svo sjóuð að vera í megrun að ég get svindlað á sjálfri mér og ég trúi lygunum sjálf. En í hvert skipti sem ég fór í megrun og grenntist og byrjaði svo óhjákvæmilega að fitna aftur lærði ég líka eitthvað smávegis nýtt. Ég er búin að gera svo mörg mistök að það eru bara fáein eftir að gera og ég læri örugglega eitthvað af þeim líka.


2. Ég hef alvöru ástæðu til að gera þetta núna. Ekki einhver yfirborðskennd fegurðarástæða heldur vil ég að vera hraust fyrir Lúkas. Áður fyrr vildi ég vera mjó til að vekja aðdáun karlpenings og öfund kynsystra minna en núna er það bara Láki sem ég hugsa um. Að geta hoppað með honum á róló hefur breytt sambandi okkar og bara til hins betra. Og tilhugsunin um að jafnvel drepast frá honum úr hjartaáfalli eða sykursýki er vel fallin til forvarna

3. Opinber ábyrgð. Ég er ekki spennt fyrir að birta á blogginu að ég hafi þyngst. En mér finnst enn verra að tilkynna þegar ekkert gerist. Það hefur góð áhrif á keppnisskapið að opinbera svona sálina á veraldarvefnum.

4. Ábyrgð á sjálfri mér. Þetta, hvernig er komið fyrir mér, er mér að kenna, ég setti hvern einasta munnbita upp í mig og ég sat kyrr á feitu rassgatinu öll skiptin sem ég hefði getað verið að sprikla. Ég er ekki sjúklingur og ég er ekki veiklunduð og það er ekkert að genunum mínum, ég er alls ekki illa úr garði gerð. Ef ég borða fleiri kalóríur en ég brenni þá fitna ég, simple as. Og ég verð að taka ábyrgð á því. Og ég er tilbúin að axla þeirri ábyrgð. Það eru engar afsakanir. Að uppgötva þetta breytti öllu einhvern veginn.

5. Ég skil að þetta er endalaust. Það er ekkert takmark, engin endalína, ekkert tímamark. Jú, mig langar til að verða 70 kíló en ég geri mér grein fyrir því að þegar þangað er komið þá breytist vinnan ekkert. Ég er þessvegna rólegri í þessu. Það má vera að þetta taki mig 6 ár eins og hinn uppáhaldsbloggarinn minn Dietgirl, en það skiptir bara engu máli. Svo lengi sem ég hef gaman að þessu.

6. Ég stoppa til að njóta líkamans og hvað hann getur. Í stað þess að eiblína á klukkuna og bíða eftir að ég geti hætt að æfa reyni ég að njóta tilfinningarinnar að hlaupa og lyfta. Ég dáist að sjálfri mér í speglinum í ræktinni og ég hlæ upphátt í hvert skipti sem ég sé mig á hlaupabrettinu og sé að ég er í alvörunni að hlaupa. Þvílíkt frelsi.

7. Ekkert samviskubit. Pirringur kannski en ekkert samviskubit. Ég er pirruð út í sjálfa mig af því að ég er allt of oft að róa með pusið í andlitið. Ét allt of mikið og þarf svo að ná af mér aftur kílóum sem voru farin. En með því að sleppa samviskubitinu hefur mér tekist að rífa mig upp aftur í hvert sinn sem ég hrasa um og get haldið þessu við.

Þetta skrifaði ég fyrir nokkrum dögum þegar ég var á high eftir að hafa jafnað mig á sykursjokkinu um helgina. Og þetta er allt heilagur sannleikur. Þetta er svona andlega hliðin á málinu. Hitt er svo að það er kominn tími á að ég taki á líkamlega draslinu. Ég er komin með hreyfinguna á hreint og mataræðið er bara æðislegt en ég borða enn allt of mikið. Ég er búin að vesenast núna með að vera 96 plús mínus 2 kíló í svakalega langan tíma og ég er orðin pirruð. Ég væli og væli í sjálfri mér, en það er ekkert undan því komist að það að halda sér í 1500 kalóríum í 5 daga er gagnslaust ef helgin skilar svo 5000. Það er fínt í viðhaldi en það eru enn eftir 30 kíló. Ég er komin með information overload; maður á að æfa á morgnana, að æfa á tóman maga er brjálæði, hlaupa fyrst, nei lyfta fyrst, engin kolvetni, bara kolvetni á morgnana, bara kolvetni og enga fitu, telja punkta, telja kalóríur.... ég er orðin þreytt og rugluð í ríminu. Og eins stolt og ég er af því að vera búin að "fatta" þetta þá finnst mér nánast eins og listinn hér að ofan hljómi eins og afsakanir. Ef ég er búin að fatta þetta afhverju er ég þá hætt að léttast? Og ég þarf að léttast meira, eins hraust og ég er og eins sæt og ég er núna þá er ég enn samkvæmt læknisfræðilegri skilgreingu offitusjúklingur. Ég held að ég sé búin að fá smá leið á öllum pælingunum. Kannski að ég taki mér bara smá frí. Ekki frá æfingum né hollu mataræði, heldur frá öllum pælingum....

2 ummæli:

Einvera sagði...

Vá en góður "pistill" :) Svo satt allt saman!
Annað værir þú til í að setja linka á þessara frábæru bloggara sem þú bendir á ( Jack Sh*t og Dietgirl! :) Alltaf gaman að lesa hjá öðrum!

Nafnlaus sagði...

I'm not in a position to view this web site correctly on firefox I believe there is a problem

Feel free to surf to my homepage; tips to get pregnant