sunnudagur, 8. ágúst 2010

Ég er með út í garði hjá mér runna nokkra sem á vaxa svona líka fín brómber (eða ég held að þetta séu brómber.) Nokkur síðustu ár hef ég leyft sígaununum að eiga þau, eða sko þau ákváðu að ég myndi leyfa þeim að eiga berin og voru alltaf bara mætt inn í garð hjá mér með dalla og poka til að losa mig við berin. Ekki ætlaði ég að rífast við fólkið. Ég borgaði bara frekar £2 fyrir dall af berjum í ASDA til að setja í smoothie eða út á jógúrt. En nú eru sko aðrir tímar og maður verður að halda fast í pundin sín. Ég hef alltaf þráð að verða grænmetisræktandi hænueigandi en drep allar plöntur og er með fóbíu fyrir fuglum þannig að ég ætti að fara fagnandi út í garð að tína þær afurðir sem þó vaxa í garðinum þrátt fyrir skortinn á ást og umhyggju frá eigandanum. Þannig að þegar ég vaknaði í morgun við sólargeislana datt mér strax í hug að byrja daginn á berjatínslu og að það myndi svona setja tóninn fyrir sjálfbæran dag. Önnur hugsun var reyndar að setja berin svo í ávaxtaköku en við erum ekkert að dvelja við það neitt. Ég fór því í hippalegustu fötin mín, setti blóm í hárið og greip tupperware dall og fór út. Þar sá ég í röndóttar skuplurnar á tveimur sígaunakellingum sem voru í óðaönn að klára berin af runnanum mínum. Ég brosti ofurfallega til þeirra og sagði þeim að ég ætti berin. Þær voru nú ekki á því. Jú, það má vera að garðurinn sé minn en þær eru búnar að tína hér ber á hverju ári og aldrei neinn kvartað. Ég útskýrði að ég hefði ekki notað berin hingað til en að núna væri ég fátæk og ætlaði að borða þau. Sem fékk þær til að hlæja ógurlega. Sá sem á hús og bíl og ber er ekki fátækur fékk ég þá útskýrt fyrir mér. Við gerðum því díl. Þær skilja eftir nóg svo ég geti fryst í nokkra smoothie og í eina köku. Svo sturtaði ein úr poka í dallinn minn og ég valhoppaði aftur inn í eldhús. Og líður hálf kjánalega. Eins gott að kakan verði góð.

Engin ummæli: