mánudagur, 16. ágúst 2010


Það gekk ekki upp að komast í ræktina í síðustu viku. Þar sem ég hafði ekki fengið borgað fyrir að vera í fríi átti ég lítilla kosta annarra en að taka að mér eins mikla yfirvinnu og ég mögulegast komst í. Þegar leið á vikuna og ég enn ekki farin í rækt fór ég að verða smávegis stressuð. Hvað ef ég nota þetta frí sem afsökun til að byrja bara ekki aftur? Annað eins hefur nú gerst og nánast þriggja vikna frávera væri vanalega fullkomið tækifæri til að láta alltaf lengri og lengri tíma líða hjá og svo allt í einu er komið ár síðan maður síðast hreyfði sig. Svoleiðis gerist það. Mataræðið er búið að vera alveg á hreinu síðan fríinu lauk og kílóin þrjú sem ég bætti á mig nánast öll farin aftur. Engar áhyggjur þar. Það var því mikill léttir að vakna í morgun, hendast í trimmgallann og skjótast í ræktina. Það var líka mikill léttir þegar ég fann að mig langaði til að fara. Og þar sem ég hamaðist á brettinu laust niður í mig sú hugsun að ég er bara fín eins og ég er. Ég sá sjálfa mig fyrir mér í fötunum sem ég hafði planað fyrir daginn og hugsaði með mér að ég er bara fín. Ég þarf ekki að léttast meira. Ég þarf ekki að svitna til að mjókka. Ég get keypt mér falleg föt og mér líður vel með sjálfa mig. Allt það sem áður angraði mig, að geta ekki gert hitt og þetta fyrir spiki er bara ekki þannig lengur. Og ég sagði við sjálfa mig að það er orðið alveg ljóst að ég er ekki að þessu lengur til að léttast um kíló. Ef ég léttist ekki meir þá er það bara allt í lagi. Svo lengi sem ég get hlaupið hraðar, lyft þyngra og farið í dýpri jógapósu. En til að ná framförum og árangri í ræktinni þarf ég að leggja mig meira fram þar. Ég þarf að koma af stað æfingaprógrammi sem miðast að því að geta lyft þyngra og þyngra. Mér er mikill léttir að fatta þetta, það er miklu fargi af mér létt að þurfa ekki að halda áfram að puða við að friðþægja baðvogina. Hún er harður húsbóndi. Og ég er alveg viss um að það er miklu meira gefandi að skrá niður framfarir í fittness. Mig vantar bara prógrammið. Nú þarf ég að leggjast í rannsóknir.
Ps. er ég ekki bara fín ;)?

7 ummæli:

Guðrún sagði...

Þú ert rosa fín. Er ekki gaman að fara í fínum kjól í vinnuna? Það hefur mig alltaf langað til að gera en passar e-n veginn ekki við íslenska miðaldra kennslukonu.Þú getur látið Dave geyma baðvogina. Þú þarft ekkert að pæla meira í henni.

Unknown sagði...

Svava, þú ert meira en fín: Þú ert flott! :)
Til hamingju með þann merka áfanga að segja upp vigtinni!

Hanna sagði...

Mér finnst þú ekki bara fín heldur líka svona stórglæsileg.
Þvílíkar breytingar sem hafa átt sér stað, bæði á líkama og í huga.

Rokki járnin, og já sólarhyllingin líka :-)

Knús
H

Nafnlaus sagði...

Ég þekki þig ekki en datt einhvern tímann inn á bloggið þitt og kíki reglulega.

Ég gleymi alltaf að kvitta fyrir innlitið en nú langaði mig bara að segja þér að mér finnst þú fáránlega flott! Bæði í útliti og viðhorfi.

Áfram þú! :)

Kv. Anna

Nafnlaus sagði...

ég þekki þig ekki heldur en vil taka undir þetta viðhorf, "er ég ekki bara fín sama hvað vigtin segir". Ef maður er ánægður með sig þá trúi ég að það séu minni líkur á að maður detti í þunglyndisátgírinn (ohh ég er hvort eð er svo feit að best að éta og byrja svo í átaki á morgun). Og eyði frekar kvöldunum í eitthvað til að gera sig enn skvísulegri og ánægðari með sig!

Af myndunum að dæma ertu hörkugella :) áfram þú (og við allar hinar líka)

Nafnlaus sagði...

Þú ert sko miklu meira en fín. Þú ert frábær :-)
Knús og kossar, Ólína

Nafnlaus sagði...

Þekki þig ekki neitt en datt inná síðuna um daginn og hef verið að dunda mér að lesa hana aftur í tímann í dauðum tímum í vinnunni og þú ert sko góð fyrirmynd, þó maður detti stundum af baki, það getur komið fyrir alla, þá bara hendir maður sér aftur á bak og af enn meiri krafti!

og þú ert sko ekki bara fín heldur dúndurflott af myndunum að dæma! og hörkudugleg í þokkabót, átt svo sannarlega mikið hrós skilið fyrir það :)

Alveg sammála líka að ef maður er sáttur við sig eins og maður er þá líður manni svo þúsund sinnum betur, maður á ekki að einblína á töluna á vigtinni, heldur frekar spá í líðaninni og svo er það náttúrulega stór plús ef maður dettur niðrum fatastærð :)

you go girl, hlakka til að fylgjast áfram með þér :)

Halla