miðvikudagur, 1. september 2010

Ég tók eftir ókunnugri íþróttatösku í ræktinni í síðustu viku. Og með töskunni kom ný kona. Hávaxin og mjög þrekleg og hún hafði greinilega ekki hugmynd um hvað maður á að gera í ræktinni. Hún settist á hjólið og hjólaði í smástund og sat svo á róðravélinni í smástund áður en hún hvarf inn í búningsklefann. Ég kláraði settið mitt, teygði aðeins á og fór svo í sturtu. Hún var að klára að klæða sig og ég spurði hvort hún væri ný og hvernig henni litist á. Og eins og mig grunaði þá var hún stressuð yfir þessu öllu saman, hafði tekið ákvörðun um að léttast um 50 kíló og hafði séð fyrir sér að léttast um tvö kíló á viku og taka næstu 25 vikurnar í þetta verkefni. Hvernig hún ætlaði að gera það var ekki alveg jafn ljóst. Ég sagði henni hvað ég væri búin að vera að gera og henni brá dálítið þegar ég sagði henni hvað þetta er búið að taka mig langan tíma. Henni brá enn meira þegar ég æpti upp yfir mig þegar hún sagði mér að hún borðaði 1200 kalóríur á dag. 120 kílóa manneskja á 1200 kalóríum! Þegar ég sagði henni að þetta væri bara geðveiki og ávísun á geðsjúkt binge um helgina viðurkenndi hún lika að hún væri banhungruð, máttlaus og niðurdregin. Og það eftir tvo daga! Hún spurði mig spjörunum úr og ég, sjálfhverfa ég, var meira en glöð að láta smávegis af viskunni uppi. Aðallega sagði ég að þegar maður er búinn að koma sér svona kirfilega fyrir í offitu og ofáti þá þarf meira til en bara að dútla á hjóli í tíu mínútur og taka tvo daga í megrun. Það þarf áætlun og rannsóknir og tilraunir og mistök og ofurgleði og örvæntingu og nýtt sjónarhorn og bjartsýni og ákveðni og stuðning og stuð og vinnu og vinnu og vinnu og vinnu. Svo óskaði ég henni velgengis og að ég hlakkaði til að hitta hana aftur á morgun í ræktinni. Það er óþarfi að taka fram að ég hef ekki séð hana síðan. Þetta er víst meira en að segja það.

1 ummæli:

Hanna sagði...

The Coaching Coach! Það ert þú. Þú hefur reynsluna, vitið í kollinum, tilfinningarnar, hugarfarið, húmorinn, samkenndina, úthaldið ....