sunnudagur, 12. september 2010

Gætum ekki verið kátari.
Ég byrjaði á því að hugsa að ég get ekki gert upp við mig hvort það sé gott og hjálplegt að vera svona bjartýn og jákvæð alltaf hreint eða hvort maður geri ekkert nema valda sjálfum sér stanslausum vonbrigðum. Ég held að flest gerum við okkur sek um að áætla hlutina svona frekar lauslega byggða á staðreyndum og verða svo hissa þegar þeir ganga ekki eftir. Það getur verið að það hafi verið Einstein sem sagði að það væri merki um geðveiki að endurtaka sömu athöfnina aftur og aftur og búast við mismunandi útkomu. Ég hef árum saman af jákvæðni og bjartsýni endurtekið sama megrunarferlið til þess eins að fá sömu útkomuna; feitari í ár en í fyrra. Sama virtist ætla að gerast í þetta sinnið. Ég byrjaði full bjartsýni, þurfti að léttast um 50 kíló, það eru 52 vikur í ári, flott er, eitt kíló á viku, ég verð orðin mjó að ári og get meira að segja tekið mér tveggja vikna frí í desember. Sem betur fer fattaði ég snemma að það þyrfti eitthvað nýtt að gerast til að ég myndi ekki enda eins og vanalega með súkkulaði framan í mér og tvö eða tíu kíló í plús. Og ég breytti um plan og ákvað að slaka aðeins á með væntingarnar til sjálfrar mín og ákvað að gera þetta að skemmtilegu verkefni. Svo kom tími þar sem þetta gekk ekki jafnvel og suma daga hélt ég að ég sæji aftur sömu útkomuna. En mér tókst alltaf að snúa þessu aftur í sigur og ég varð aftur jákvæð og bjartsýn. Að undanförnu hef ég svo þrátt fyrir stöðuga líkamsrækt átt í smávegis klandri með matinn. Og ég vissi að það væri tími til kominn að breyta athöfninni til að tryggja nýja útkomu. Ein vika án sykurs og hvíts hveitis, andinn sterkur og glaður og verðlaunin í vikulok alveg af nýju tagi. Ekkert súkkulaðisukk fyrir mig, nei ég fæ nýja íþróttatösku í verðlaun. Næst á dagskrá er svo að kenna sjálfri mér að ég þurfi ekki alltaf "verðlaun" fyrir "góða" hegðun. Verðlaunin er heilbrigð sál í hraustum líkama. En það kemur næst. Þangað til ætla ég bara að kaupa mér dót. Ég elska nefnilega dót. Og halda áfram að vera jákvæð og bjartsýn. Það er það eina sem ég er að hugsa um að breyta ekki. Það er nefnilega örugglega skemmtilegra lífið hjá okkur jákvæðu kjánunum.

2 ummæli:

Guðrún sagði...

Haltu afram að vera jákvæð og bjartsýn, það er svo miklu skemmtilegra.

Nafnlaus sagði...

Þú ert án efa ein af þeim bloggurum sem veitir mér andagift til að spýta í lófana og halda áfram :) You go girl!

Ásta