þriðjudagur, 14. september 2010

Að undanförnu hef ég nokkuð markvisst verið að rekast á fyrirbæri sem er kallað "intuitive eating" eða át samkvæmt innsæi. Hugmyndin er að með því að "hlusta" á líkamann geti maður þjálfað sig upp í að skilja hvað hann vantar af næringu og þar með smásaman lagfært brenglað samband við mat. Vandamálið er hinsvegar að á meðan líkaminn hvíslar "prótein, flókin kolvetni og góða fitu takk" þá er önnur og sterkari rödd sem oftast heyrist æpa "Snickers! Núna!" Og sú rödd yfirgnæfir að miklu leyti til mjóróma hvíslið í skynsama líkamanum. Eins gáfulegt og mér finnst innsæjisát vera og hversu aðlaðandi mér finnst tilhugsunin um að geta bara borðað það sem þarf án þess að vera með áráttu yfir því þá ætla ég að láta það vera alla vega eitthvað lengur. Ég treysti sjálfri mér ekki í þetta. Það má vera að það þýði að ég sé kannski ekki í alvörunni að lagfæra brenglaða sambandið mitt við mat en það verður bara að hafa það. Ég er ekki tilbúin til að láta af hækjunum mínum; kalóríutalningu og matseðilsskipulagi svo örlar á áráttuhyggju. Það er mjög áhugavert að skoða þetta ferli allt saman með það í huga að hér berjast tveir persónuleikar. Matarfíkillinn vs. Mataráhugamanninum. Það er kannski gott mál að ég sé mataráhugamaður því ég get skoðað, pælt og stússast þangað til að ég er búin að búa til eitthvað sem mér finnst voðalega gott en er líka hollt. Svona eins og hollustu plokkfiskurinn sem ég eldaði í kvöld. Ég fæ sem sé alltaf eitthvað gott og djúsí. Og það er svo mikilvægt að fá gott og djúsí, lífið er bara ekki þess virði að lifa því þegar maður fær ekki gott og djúsí. En í sömu andrá fæ ég hjartaflökt af áhyggjum yfir því að það sé matarfíkillinn sem ræður þegar ég segi svona setningar. Auðvitað þarf ég ekkert alltaf að fá gott og djúsí, ég þarf bara að fá góða næringu sem viðheldur heilbrigðu ástandi líkamans. Hvar dregur maður mörkin við hvað "má" pæla mikið í því sem maður borðar áður en fíkillinn tekur við af áhugamanninum? Ég finn allavega að það væri óðs manns æði að reyna á innsæjið núna; ég er víst nógu sjálfhverf fyrir þó ég fari ekki bæta við að þurfa að hlusta á sjálfa mig líka!

3 ummæli:

Harpa Sif sagði...

Hvernig er hollustuplokkfiskur :) ?

murta sagði...

Blómkál í staðinn fyrir kartöflur, fitulaus rjómaostur og cornmeal í staðinn fyrir uppbakaða hveitisósu. Ljómandi alveg hreint!

Inga Lilý sagði...

Sæl,
Ég þekki þig ekki neitt en datt óvart inn á bloggið þitt um daginn. Ég hef verið að renna aðeins í gegnum það og finn alveg ótrúlega margt sammerkt með okkur. Ég byrjaði einmitt í 123 kg eftir fæðingarorlof hjá barni no. 2 og er núna í ca 91-93 kg. Ég var heillengi að strögglast við að komast undir 100 kg og er núna að ströggla við að komast undir 90 kg.

Ég er einmitt frekar dugleg að hreyfa mig en finnst alveg ógurlega gott að borða. Merkilegt hvað maður getur verið með fögur fyrirheit á morgnanna og gleymt þeim þegar líða tekur á kvöldið.

Vona að þér sé sama að ég kíki hér við reglulega og les um þína reynslu. Vona líka að þú haldir ekki að ég sé alveg klikk að vera að lesa blogg hjá bláókunnugri manneskju. Mér finnst bara svo gott að sjá einhvern annan sem er í nánast sömu sporum og ég.

Kveðja frá Japan
Inga