þriðjudagur, 12. október 2010

Rafmagnið hefur farið af hjá okkur fjórum sinnum á siðustu tveim vikum og þegar við fórum að grennslast eftir vandamálinu kom í ljós að það þurfti hreinlega að grafa upp hálfa götuna og skipta um allt innra kerfið. Sem Scottish Power (sem af einhverjum ástæðum eru þeir sem láta okkur rafmagn í té) gerðu núna í dag. Ég sit núna við borðstofuborðið í þeirri von að mér takist að koma smá ójafnvægi á ballestina á þeirri hlið hússins svo það muni detta ofan í holuna sem þeir grófu fyrir utan. Ólíklegt, en það má alltaf vona. Allt þetta þýddi að ég þurfti að taka mér frí í dag til að vera hér til að hleypa þeim inn og út og gefa endalausa bolla af PG te. Það var ágætt líka því ég er enn að berjast við þetta Masters nám og nú er ein ritgerð sem þarf að berja saman fyrir 31. október. Ég sat því við tölvuna í allan dag á milli tegerðar og klóraði mér í hausnum. Heilinn gengur fyrir kolvetnum einungis og það er því ekkert djók þetta að nammi sé heilafóður. Ég er þessvegna tvöfalt ánægð með sjálfa mig eftir daginn. Það er nefnilega (eiginlega alltaf) auðvelt að berjast við drekann þegar maður er í rútínunni sinni en um leið og eitthvað breytist, eins og að vera heima en ekki í vinnu, er rosalega auðvelt að sannfæra sjálfan sig um að það sé allt í lagi að fá sér kex í staðinn fyrir epli og ristað brauð í staðinn fyrir salat og svo meira kex af því að maður er að læra. Ég gerði ekki neitt af þessu. Fékk mér hafragraut í morgunmat, og epli í morgunsnakk, túnfisksalat og jógúrt í hádeginu, banana með hnetusmjöri (besta snarl í heimi by the way) í eftirmiðdegissnarl og baunasúpu í kvöldmat. Og ég mundi ekki einu sinni eftir því fyrr en núna þegar ég settist aftur niður eftir mat að ég hefði getað borðað eins og svín í dag með rútínubreytingu sem afsökun. Mér finnst það eiginlega ótrúlegra og meiri sigur en að hafa barist og sigrað, það að ég þurfti ekki einu sinni að berjast sýnir mér hvað ég er fókusuð akkúrat núna. Ég er með markmiðið í sigtinu. Bújakasja!

Engin ummæli: