mánudagur, 4. október 2010

Um leið og ég setti punktinn á síðustu setninguna sem ég skrifaði í gær rann upp fyrir mér ljós. Markmið! Ég hef engin skýr markmið! Þegar ég hætti með vigtinni og setti mér ný markmið þá gerði ég þau aldrei skýr og ljós hvorki fyrir mér né öðrum. Ég talaði eitthvað um að lyfta þyngra og hlaupa lengra og eitthvað var ég að hugsa um sentimetra en ég setti þetta aldrei niður í tölustafi og tímamörk. Ég hefði t.d átt að segja að ég ætlaði að taka hundrað kíló í deadlift og að það ætlaði ég að gera með því að bæta við x kílóum á viku í x langan tíma og að þetta myndi allt vera tilbúið fyrir x tíma. Vandamálið er að ég kann ekki á þetta nógu vel til að geta sagt hvað er raunhæft takmark á raunhæft löngum tíma. Mig vantar sérfræðihjálp í það. Ég get ekki hlaupið og þverþjálfinn eða hvað það tæki nú heitir vekur upp núll ástríðu hjá mér til að nenna að setja mér markmið. Ég skil kíló hinsvegar og veit hvað er hægt og hvað er ekki hægt og hvað má gera og hvað má ekki. Ég ætla því að biðja vigtina um að taka við mér aftur. Ég er hvort eð er búin að vera í lausu lofti síðan við hættum saman, búin að daðra við og reyna við fullt af öðrum möguleikum, vera smá drusla um helgar en vigtin vill taka við mér aftur og ég þarf greinilega á aðhaldinu sem hún veitir að halda. Mér finnst ekki erfitt að viðurkenna að ég hafi haft rangt fyrir mér.

Planið. Mamma og pabbi koma í heimsókn í lok nóvember. Ég ætla að vera búin að léttast um 4 kíló þegar þau koma. Það er númer eitt. Til að ná því takmarki þarf ég að byrja aftur að búa til vikumatseðil og fylgja honum. Samkvæmt vísindunum á ég að borða u.þ.b. 1700 kal á dag. Vikumatseðillinn verður settur saman með það í huga. Ég held áfram lyftingaprógramminu mínu en ég ætla að bæta við hálftíma göngutúr í hádeginu og markvissari líkamsrækt á laugardögum. Ég ætla að byrja aftur á ímyndunaræfingunum mínum. Eyða stund á hverjum degi þar sem ég styrki mótstöðuvöðvann og nýt andartaksins. Vá hvað ég er hress og í miklu stuði núna! Hvernig gat þetta farið framhjá mér? Ég veit að ég þrífst bara ef ég hef plan. Mmmmm....plan....

1 ummæli:

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Eg var einmitt ad byrja aftur med minni vigt eftir nokkurra ara hle. Verd i bandi um helgina - I need a buddy.