miðvikudagur, 15. desember 2010

Ég þarf alltaf smávegis að berjast við sjálfa mig til að viðhalda heilsusamlegum lífstíl. Og ég verð bara að sætta mig við að svona verður þetta hjá mér. Ég hef ákveðið að ég vil frekar vera hraust en feit og þetta er vinnan sem í því felst. En það er líka óþarfi að sitja hér heima 24/7 rífandi í hár mitt og skegg af söknuði og sorg eftir súkkulaði og kleinum. Það á að gera þetta allt saman eins auðvelt og skemmtilegt og mögulegast er hægt. Það sem gerir baráttuna auðveldari fyrir mig eru nokkur meginatriði. Eins og til að mynda að versla í matinn á netinu. Ég kaupi ekki kex eða snakk ef ég sé það ekki. Ég set saman grófan matseðil fyrir vikuna og kaupi í matinn eftir þeim innkaupalista. Ég er líka svona nokkurn vegin með á hreinu hvað ég kem til með að borða yfir daginn, fyrir mig er það bara ávísun á djúpsteikt snickers ef ég kem heim og hef valfrjálst í matinn. Ef mig svo langar í kex eða snakk þá þýðir það að ég þarf að hlaupa út í Co-Op. Og um leið og það að fá kex þýðir að númer 1 taka ákvörðunina, 2, fara í skó og  3, labba út þá er mun auðveldara að taka ákvörðunina að það sé bara ekkert sniðugt að fara út í Co-Op yfir höfuð. Annað sem auðveldar þetta er að ég borða líka bara það sem mér finnst gott. Ég er til að mynda bara ekkert hrifin af ávöxtum. Ég get borðað banana og mér finnast öll ber góð og melónur eru ágætar. En helst vil ég bara sleppa þessu sem mest. Og ég geri það þá bara. Ég sé enga ástæðu til að neyða sjálfa mig til að borða appelsínu ef mér finnast þær vondar. Ég fæ c-vitamín úr spínati og brokkólí. Ég reyni líka að búa til allar máltíðir með það að leiðarljósi að ég fái sem mesta fyllingu. Hversvegna að fá sér eina ristaða brauðsneið þegar stór skál af ljúffengum hafragraut er í boði? Og svo það sem ég er að vinna hörðum höndum að; kaupa minni einingar af gæða gúrmeti. Eins og t.d. litla dós af Ben and Jerry frekar en 2 lítra af  ódýrum vanilluís. Ég á enn í smá klandri með þetta, enda jafn gráðug og JR í olíupolli. Matarklámið reynist mér líka vel. Ég þarf ekki að borða í alvörunni eftir að slefa smávegis yfir Nigellu og Ellu Helgu. Þetta allt saman hefur reynst mér vel undanfarna mánuði og ég er alltaf að læra meira og betrumbæta strategíuna mína. Og það er svo gaman að læra.

Engin ummæli: