fimmtudagur, 9. desember 2010

Svona voru þau í gamla daga
Það er ekki nokkur vinnandi vegur að fara út í búð um þessar mundir. Hvert sem maður lítur er allt gersamlega löðrandi í súkkulaði og gúrmeti hinu ýmsasta. Fjallháir staflar af tveggja kílóa Makkintoss kvælæt strít dósum, Maltesers í dósum með myndum af snjókornum, hraugar af After Eight, sætar hnetur og súkkulaðihúðað kex. Allt er þetta líka á tilboði, tveir fyrir einn á After Eight, Maltesers fær maður ókeypis ef maður kaupir M&M og Makkintossið, maður lifandi, tvö kíló á £5! Í alvörunni elsku barn, hvað geta eiginlega verið margar hitaeiningar í einhverju sem kostar bara 5 pund? Það komast varla margar hitaeiningar fyrir! segir innri hlussan við mig þar sem ég skýst á milli freistinganna með kotasæludós í fanginu og einbeitningarsvip á andlitinu. Þetta fær mig til að stoppa við og eygja dósina í smástund. Það er nú búið að breyta hönnuninni frá þeirri sem var keypt í Fríhöfninni í júlí og svo geymd inni í geymslu fram í desember hér í den tid. Og mér fannst í fyrra að molarnir væru öðruvísi á bragðið líka. En samt, svona smá nostalgía í þessu. En þegar þú hugsar þig um hjartað mitt, hver í alvörunni þarf á tveimur kilóum af súkkulaði að halda? Lúkas borðar þetta ekki og þú ætlar bara að fá þér smá súkk á aðfangadagskvöld og það er nú þegar til Nóa Konfekt. Er það bara ekki alveg nóg? Þú þarft ekki að éta þig veika til að kalla fram góðar minningar. Og með það fór ég og borgaði kotasæluna. Og ég læt súkkulaðifjallið ekkert pirra mig meira.

Engin ummæli: