sunnudagur, 13. mars 2011

Hvítlaukurinn áður en hann bakaður
Sólin skín á okkur í Wales og allstaðar gægist þjóðarblómið páskaliljan upp úr moldinni. Sólin og blíðan minntu mig á að nú væri gott að prófa léttari rétti í sunnudagsmatinn en velska lambakjötið eða roast beef hnullunginn sem dugði svo í salat í viku. Ég byrjaði á að baka hvítlauk til að nota í kúskús salat. Ég tók einn heilan hvítlauk og nuddaði hvíta pappírskennda efnið utan af, skar svo toppinn af, hellti nokkrum dropum af ólífuolíu ofan í hann og vafði inn í álpappír. Setti svo inn í 200 gráðu heitan ofn í 25 mínútur. Ég hafði gert tilbúið gróft kúskús, steikt á pönnu nokkra sveppi og rauða papriku sem ég blandaði svo saman. Út í þetta kreisti ég svo hvítlaukinn. Hann verður alveg mjúkur og ef maður tekur í endann og kreistir niður með þumal og vísifingri rennur hann bara út. Ég hrærði hann svo út í kúskúskið og setti að lokum nokkrar rúsínur út í. Hvítlaukurinn verður sætur og karamellukenndur og mun mildari en ella. Hann gerir það að verkum að frekar bragðlaust kúskús verður að alveg spes rétti og maður finnur ekki fyrir hversu þurrt það er eins og stundum verður. Næst ætla ég reyndar að nota quinoa af því að ég get ímyndað mér að hnetukennt bragðið af því blandist einstaklega vel saman við bakaðan hvítlaukinn.

Kúskús með bökuðum hvítlauk og sætur kjúklingur.
Með þessu bauð ég svo upp á sætan sítrónu kjúkling með butternut squash. Ég flysjaði og hreinsaði squash og kubbaði niður og lagði í eldfast mót ásamt nokkrum hvítlauksgeirum. Þar ofan á fóru svo nokkrir kjúklingabitar. Skar svo sítrónu til helminga og kreisti yfir. Maukaði svo tvo hvítlauksgeira og setti í skál ásamt matskeið af sweet freedom ávaxtasætunni, tveimur matskeiðum af ólifuolíu og kreisti hinn helminginn af sítrónunni. Hrærði vel saman og hellti svo yfir kjúklinginn og squashið. Salt og pipar og rósmarin og svo inn í ofn í 40 mínútur. Og saman var þetta suðrænn og seiðandi hádegismatur. Ég hellti svo afgangs squashi í kúskúsið og á núna þetta líka fína salat með túnfiski á morgun. Hér má að sjálfsögðu skipta út squash fyrir sætar kartöflur, en þá er líka aðeins meira af kolvetnum. En bara af góðu gerðinni. Sweet freedom má sjálfsagt bítta fyrir hunang, mér finnst hunang bara ekki gott á bragðið. Eða jafnvel St. Dalfour apríkósu sultu. Það væri örugglega voðalega gott.

Túnfisksalatið er líka voðalega gott. Út í eina dós af túnfiski fer einn mjög lítill og fínsneyddur púrrulaukur, einn hakkaður tómatur, 2 smátt skornar gherkins (svona súrar gúrkur í fingurstærð), 1 matskeið af grískri jógúrt, teskeið af sítrónusafa, pipar og teskeið af ólífuolíu. Gherkins, (hvað heita þær á íslensku?) gefa ótrúlega skemmtilegt bragð og gríska jógúrtin þó hún sé fitulaus gefur rjómakennda áferð. Salatið má svo setja á brauð, hrökkbrauð, út í kúskús eða ofan í bakaða sæta kartöflu. Enn og aftur endalausir möguleikar.

Við ætlum svo að fara til Ponciau að sveifla okkur aðeins í klifurgrindinni, enda ekki hægt að sitja inni í svona veðri. Þvílík dýrð.

Engin ummæli: