þriðjudagur, 5. apríl 2011

Maður verður sko að eiga réttu græjurnar. Núna vantar mig alvöru hlaupabuxur. Ég hef hingað til bara notað svona venjulegar leggings en komst að þvi í gærmorgun að það er ekki sama í hverju maður hleypur. Ég var alltaf á þeirri skoðun að leggings væru svona "one size fits all" fatnaður og var ekki alveg með á hreinu afhverju þær væru númeraðar. Sem 130 kílóa kona gat ég ekki séð annað en að þetta væri oggulítill tuskubleðill sem myndi svo bara þenjast út eftir þörfum. Svo ég varð voðalega hissa nú síðustu vikur þegar leggingsarnar hafa byrjað að gúlpa út og hlykkjast um mig. Svo tók út yfir allan þjófabálk í gær. Ekki nóg með að ég hafi endað á að hlaupa með þéttingstak á mittisbandinu á buxunum svo þær myndu ekki enda um ökklana þá hafði ég í vægri dagskímunni farið í kolvitlausar nærbuxur og þegar maður er með ryksugurass (nærhald virðist alltaf enda sogað upp á milli kinna) þá eru réttu undirfötin lífsnauðsyn. Ég hef sjálfsagt verið hálfkjánaleg útlits þar sem ég ríghélt í buxurnar og skók svo mjaðmir og rass í öðru hverju skrefi til að reyna að þvinga næríurnar úr rassi. Rosalega verður gaman að eignast alvöru hlaupaleggings. Ég er harðákveðin í að fá þær í merki eins og Nike eða Adidas og svo vil ég hafa allskonar fítusa á þeim, sjálfýsandi rendur og net á hnjám og leynivasa fyrir lykla og vökva- og ryðvörn og þétti-og höggdeyfi og allskonar pró fínerí. Fötin skapa manninn og ég er alveg viss um að í alvöru buxum verði ég alvöru hlaupari. Ekki bara kelling með nærhaldið í rassinum.

3 ummæli:

ragganagli sagði...

RYKSUGURASS!!! Kona þú ert bara of fyndin og orðanleg. Sé þig samt alveg fyrir mér í lambada hreyfingunum að halda leggó frá þyngdaraflinu og þröngva þveng úr görn.

Hlakka til að sjá mynd af túttunni í hlaupabrók :) Mæli með að kaupa síðar, ég á einar sem ná niður á hné og loðinleggur eftir veturinn er ekki fallegt lúkk.

Nafnlaus sagði...

Alveg málið að eiga góðar hlaupabuxur. Mér finnst best að hafa þær úr svolítið þéttu efni þá halda þær vel að og eru líka svolítið hlýjar þegar það er kalt :-)
Go girl...
Hlakka til að sjá þig eftir uþb mánuð!
Knús og kiss,
Ólína

Inga Lilý sagði...

Sjæse, ég hló upphátt yfir lýsingum á ryksugurass (kannast of vel við slíkt fyrirbæri). Ég er einmitt bara í jógabuxum, annað hvort síðum eða kvart þar sem ég er með alvarlega hnékomplexa. Er samt búin að ákveða að fyrir sumarið muni ég kaupi eitt stykki ofursúperdúperníðþröngar kvart hlaupabuxur (svona fyrir 30 gráðurnar sem verða hér í sumar).

Eeeeelska Nike en ég keypti líka góðar New Balance hlaupabuxur í Indónesíu. Mundu bara að hafa REIMAR í mittið. Ég á einmitt buxur sem eru bara með streng og ég get ekki hlaupið í þeim nema vera í bol sem nær niður fyrir klof (þar sem þær síga alltaf niður fyrir bumbuna og það er ekki falleg sjón að vera með slitin maga langt yfir strenginn).

Hlakka til að sjá mynd af þér í nýju buxunum.