sunnudagur, 22. maí 2011

Áttavillt hjón heima hjá JP og Ó.
Það þykir nú heldur betur lukkulegt þegar örlögin skaffa manni förunauti í lífinu. Og einhvern vegin finnst mér eins og að lukkuleg sambönd hafi innanborðs aðila sem eru að mestu leyti líkir og sammála um hvernig hlutirnir eigi að vera en að einhverju leyti séu þeir líka ólikir og þá helst til að bæta hvorn annan upp. Þannig erum við Dave sammála um helstu málefni, um hvernig maður á að haga sér sem manneskja og við höfum gaman af því að gera sömu hlutina. Við erum líka eina fólkið sem ég þekki sem eru með 70 millimetra á milli augasteina og ég get því horfst í augu við hann einan manna. Mjög hentugt. Og rómantískt. Og svo greinir okkur á um hvernig maður eyðir peningum, ég er af alíslenskum "þetta reddast" skóla á meðan hann er varkár og varfærin með fjármuni. Og þar hjálpum við hvoru öðru: hann heldur í við mig á meðan ég sannfæri hann um að suma hluti verður bara að eyða pening í til að njóta lífsins. Ég er óbilandi bjartsýnisdýr; hann sér svartnætti eitt. Þegar við leggjum það saman og deilum í tvennt komumst við oftast niður á ásættanlega útkomu. Eitt er þó vandamál sem örlagadísin fór alveg með þegar hún úthlutaði okkur hvoru öðru. Í öllum samböndum sem ég veit af er annar aðilinn það sem kallast "navigator" eða lóðsari. Annar aðilinn er með innbyggðan skilning á áttum og vegakortum og hvernig landið liggur. En við Dave erum hvorugt þannig. Við erum bæði gersamlega áttavillt.Við erum tvisvar sinnum búin að reyna að finna þorp hér rétt fyrir utan Wrexham sem heitir Tattenhall og tvisvar höfum við komið aftur heim án þess að finna staðinn. Við keyrðum einu sinni um með mömmu og pabba í baksætinu í leit að veitingastað sem ég hafði komið á áður en urðum frá að snúa vegna þess að við fundum ekki. Við höfum aldrei komist beint á flugvöllinn í Manchester. Við tökum alltaf einn aukakrók. Hafa ber í huga að það er bein leið frá Wrexham til Manchester. Það var þessvegna auðvitað bráðskemmtilegt að keyra frá Wrexham til Leicester á laugardagsmorgun þar sem háskólinn minn er. Þangað þarf maður að fara suður og svo sveigja í vestur. Maður fer framhjá Birmingham og í kringum Coventry áður en maður kemst til Leicester. Við tókum að sjálfsögðu rúnt um miðbæinn í Birmingham og skoðuðum Solihull smávegis áður en við komumst til Leicester. Sem vanalega hefði verið gaman en þegar rúntinum var bætt við prófstress var mér eiginlega nóg um. Ég tilkynnti manninum að það væri núna bara tvennt í stöðunni. Annaðhvort skiljum við og ráfum um áttavillt i sitthvoru lagi eða annað okkar tekur það á sig að verða lóðsari. Hann var fljótur til að sanna ást sína og keypti handa mér þetta líka forláta kort af vegakerfinu á Bretlandseyjum. Ég er núna búin að stika út leiðina til Tattenhall. Geri fastlega ráð fyrir að enda í Carlisle.

1 ummæli:

Guðrún sagði...

Fékk hugmynd að jólagjöf!!! Ykkur vantar greinilega Garmin.