mánudagur, 30. maí 2011

Tilraunadagurinn í eldhúsinu fór svona líka vel. Ég bjó til nokkuð af nýjum réttum og eyddi deginum í endalaust smakk, varð aldrei svöng allan daginn út af stanslausu narti hingað og þangað. Sem er kannski ekki alveg það sniðugasta.

Fyrst á listanum voru amerískar smákökur. Svona risastórar, stökkar utan með en seigar í miðjunni smákökur. Þær eru vanalega búnar til með gommu af smjöri og púðursykri til að ná þessari djúsí, seigu áferð. Ég ákvað að mínar gætu ekki verið þannig alveg vegna þess að mig langaði til að skipta út hveiti fyrir hafra, og þar með er áferðin strax orðin önnur. Og þær urðu ekkert eins og ammrískar smákökur. En rosalega góðar engu að síður. Ég á náttúrulega þennan pálmasykur og hann er fullkomin staðgengill fyrir púðursykur. Smjörið vafðist ekki lengi fyrir mér; kókósolía. Mér finnast bestar svona súkkulaðibitakökur og ákvað því að i þær færu smávegis af svarta súkkulaðinu mínu. Það er sykurlaust og geðveikt í allan bakstur. En eiginlega óætt eitt og sér. Ég hripaði niður hugmyndina og sá að þetta var allt saman að smella saman á blaði. Ég ákvað svo að setja nokkrar rúsínur til að gera þetta sætt.

1 og 1/4 bollar hafrar
1/4 bolli heilhveiti
3/4 tsk salt
3/4 tsk lyftiduft
1/ tsk matarsódi
2 góðar mtsk kókósolía í föstu formi
1/3 bolli pálmasykur
1 egg
1 tsk vanilludropar
1 kubbur Baker´s unsweetened súkkulaði
lófafylli af rúsínum.
Allt þurrt sett í skál. Sykur og kókosolía hrærð saman og svo eggið og vanillan út í það. Sett saman við þurrt og svo sex lummum skellt á bökunarpappir og bakað við 180 g  í svona 15 mínútur þar til gullið. Mér fannst þetta hrikalega gott. Næst ætla ég reyndar að sleppa rúsínunum, þær eru óþarfi. Og ég ætla að bæta við hnetum. Það vantaði. Ekki má ætla að hér sé heilsufæði á ferðinni, þetta er sneisafullt af hitaeiningum en næringarefnin skárri en í venjulegum smákökum og maður afsakar sig þannig.

Á meðan að ég gerði þetta endurbætti ég morgunverðar gulrótarkökuna mína þannig að núna er hún fullkomin. Bæði orðin hollari og einfaldari í meðhöndlun.

250 g hafrar
50 g heilhveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk sódi
1/4 tsk salt
næstum mtsk kanill
rúmur hálfur bolli af sojamjólk hrærð saman við náttúrulega jógúrt
2 mtsk matarolía
mtsk hlynsýróp
1 egg
1 tsk vanilludropar
2 þroskaðir bananar
2 raspaðar gulrætur
góð lúka af rúsínum, (hálfur kubbur af Baker´s unsweetened chocolate.Ef maður er í góðu skapi)

Blautt maukað, þurrt út í blautt, bara rétt að blanda saman, ekkert hræri vesen, í sílikón form inn í ofn í alveg 40 mínútur. Skera í 12 sneiðar og borða 2 í morgunmat.

Quinoa eplakakan tókst líka ágætlega. Setti hana reyndar í vitlaust form og þarf að gera hana aftur í réttu formi. Ég var búin að sjá þessa hugmynd að baka upp úr soðnu quinoa á nokkrum grænmetisætu bloggsiðum en notaði uppskrift frá Anja´s food 4 thought sem byrjunarreit. Breytti þangað til ég var ánægð. Ofan á kökunni er svo svona "streusel" sem ég er lengi búin að vera að mauka við að hanna til að setja ofan á haframúffurnar mínar og er núna loksins orðin ánægð með.


1/4 bolli hafrar
1/2 bolli heilhveiti
1/2 tsk lyftiduft
1/4 tks sódi
1 tsk kanill
1/4 tsk salt
2 góðar mtsk pálmasykur
3 mtks sólblómafræ
1 stórt epli, raspað gróflega niður
1 mtsk kókósolía
1 bolli soðið quinoa
1 tsk vanilludropar

"Streusel"
1/4 bolli grófir hafrar
1 tsk kanill
rúm tsk pálmasykur
1 tsk kókosolía         Allt mulið saman.

Epli, kókósolíu, quinoa og vanilla blandað saman og svo út í þurrt. Sett í lítið sílíkón form. Ég notaði ferkantaða mótið mitt en næst ætla ég að nota brauðformið. Svo er streusel dreift ofan á og bakað í 40-50 mín við 180 g.

Ég bjó svo til rosalega góðar kjúklingabaunir sem henta bæði heitar sem meðlæti og kaldar sem aðalatriði í salat. Ég setti á pönnu smá olívuolíu, balsamic edik, sinnepsslettu og hunang. Dós af kjúklingabaunum og smá vatn og paprikukrydd. Leyfði þessu svo bara að malla aðeins áður en ég setti gommu af spínati og lét það malla niður. Bar þetta fram með fiskbita. Og er búin að prófa núna kalt á salat. Bæði alveg hrikalega gott. Er líka að prófa mig áfram með að nota bygg (barley) í staðinn fyrir pasta og grjón í salat og súpur. Það lofar allt góðu.

Engin ummæli: