miðvikudagur, 13. júlí 2011

Ein af ástæðunum fyrir því að ég dreif mig út að hlaupa á laugardagsmorgunn síðastliðinn var hvernig hlaup láta mér líða. Mér finnst ég alltaf vera svo máttug þegar ég er búin að hlaupa. Á meðan að lyftingar eru uppáhaldið þá eru þær það sjálfsagt af því að ég er sterk nú þegar; ég get lyft og gat það líka á meðan ég var feit. Feitari. Nei, feit. En hlaupin eru svo fjarstæðukennd ennþá að ég fyllist alltaf einhverri ofurkonu tilfinningu þegar ég hleyp. Og Ofurkonan ég er svakalega mikil kynvera. Þannig að vitandi að ég ætlaði í lítinn svartan kjól og í hæla á laugardagskvöld langaði mig til að ýkja þessa kynþokka tilfinningu og það að hlaupa gerir það fyrir mig. Ég held að þetta sé einn af jákvæðum fylgifiskum þess að vera líkamlega aktívur sem lítið er talað um. En það er engin spurning um að maður hressist allur við í kynlöngun. Ég man eftir að hafa lesið það einhverstaðar að kynlöngun er það fyrsta sem fer þegar fólk berst við þunglyndi. Og það er ekkert ósvipað þegar maður er svona feitur. Fyrir utan líkamlegu hliðina sem einfaldlega þýðir að loftfimleikar miklir eru bara ekki möguleiki þá er ég orðin sannfærð um að það eru einhver efnaskipti svipuð þunglyndi sem rænir manni kynlöngun. Kannski er það bara að þegar maður liggur afvelta út af í sófanum með súkkulaðið í munnvikjunum að þá er kynlíf það síðasta sem maður hugsar um. Ég er ekki að tala um hversu aðlaðandi maður er samkvæmt einhverjum stöðlum, það er einstaklingsbundið hvað fólki finnst aðlaðandi og kynþokki er ekki mældur í mittismáli. En það er líka engin spurning um að það að vakna á morgnana yfirfullur af útgeislun og orku smitast út í alla þætti lífsins. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu. Að þessi máttugleiki væri samtvinnaður við kynþokka. Hopsassa.

Engin ummæli: