fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Ég hlustaði á líkama minn af ákefð í dag, reyndi eins og ég gat að heyra hvað hann bað mig um. Og það er með ólíkindum hvað ég er skilyrt til að borða af vana, ekki hungri. Sem segir mér reyndar líka að ef ég er ekki aftur orðin svöng um hálf ellefu leytið eftir að borða morgunmat fyrir klukkan átta þá hlýtur morgunmaturinn að vera of vænn. Þetta er bara skemmtilegt og ég nýt þess að lifa í hverju andartaki eins og það kemur, njóta hvers bita á meðan ég borða. Ekki vera að hugsa um næsta bita á meðan ég er enn að tyggja þann fyrsta. Þegar ég varð svöng núna í kvöld fann ég að mig vantaði fyllingu. Og þegar það kemur að því að gera mig sadda þá er fita besta meðalið. Ekki veit ég hvort ég hafi minnst á hatur mitt á "low fat" matvælum áður en það er í alvörunni ekkert sem gerir mig jafn pirraða og fituminni misskilningurinn. Fita er nauðsynleg til að skapa fyllingu og þegar maður borðar fituminni mat finnur maður síður fyrir fyllingunni. Og borðar þar af leiðandi meira. Maður eyðir deginum í endalaust nasl og skilur ekkert afhverju maður getur ekki hætt að éta. Fituminni matvæli skapa ranghugmyndir og fólk gefur sjálfu sér leyfi til að borða mun meira magn af matnum en þegar það fær sér fulla fitu. Fyrir utan að þegar fitan er tekin úr vörunni er sykri vanalega pumpað þar í í staðinn til að bæta upp bragðmissinn. Það verður náttúrulega að vera rétta fitan, ég er ekki að mæla með því að fólk byrji að smyrja sig með gæsafitu, en það má bara alls ekki viðhalda þessum misskilningi að við eigum að óttast fituna. Hvað um það, þegar ég kom heim í kvöld vantaði mig fitu. Ég náði mér í nokkra sveppi og steikti þá á pönnu og svissaði svo þar með líka afgangnum frá í gærkveldi; grillað butternutsquash, rauðlaukur, paprika og litlir tómatar ásamt smávegis kjúklingabringu. Rúllaði þessu svo upp í spíraðri tortillaköku og sullaði ólívuolíu yfir. Og er sátt við að ég hafi gefið mér það sem mig vantaði. Ég er allavega södd og sátt.

Engin ummæli: