fimmtudagur, 22. september 2011

thumbs up!
Í 30 ár er ég búin að vera að bíða eftir töfradeginum. Deginum sem ég verð mjó. Það sem kemur til með að gerast daginn sem ég verð mjó hefur breyst með árunum. Allt frá að finna ástina og verða rokkstjarna upp í að fá óaðfinnanlegt tískuvit, þurfa aldrei framar að raka lappirnar, fá glansandi hár og allt út í að finna frábæra vinnu. Allt þetta gerist daginn sem ég verð mjó. Og dagurinn sem ég lét af þessum draumi er besti dagur lífs míns hingað til. Þegar ég gerði mér grein fyrir þvi að ég hef stjórn á öllu þessu sjálf, og það hvort heldur sem ég er mjó eða feit, breyttist allt. Ég er hætt að bíða og ég geri. Ég er ekki að segja að ég sé búin að fatta þetta allt saman og ég upplifi svo sannarlega slæma daga. (Sjá fyrradag) En ég er að gera allt á mínum eigin forsendum og ég hlusta á innri röddina mína sem vill mér bara vel. Og hún verður sterkari með hverjum deginum. Ég fæ auðvitað enn taugaveiklunarköst yfir því að vera ekki á plani. En málið er að það er kominn heill mánuður núna og ég hef ekki fitnað. Ég hef ekki tapað mér í ofáti. Ég hef ekki misst sjónar á neinum af markmiðum mínum. Ég hef treyst sjálfri mér í heilan mánuð. Og ég þarf ekki lengur að bíða eftir töfradeginum. Allir mínir dagar eru núna töfradagar.

Engin ummæli: