sunnudagur, 9. október 2011

Ég bakaði pizzu í gærkveldi. Laugardagskvöld, við þrjú saman hér heima, horfandi á laugardagsskemmtiefni í sjónvarpinu og maulandi heimagerða pizzu. Næskvöld. Lúkas fékk svo súkkulaðimús í eftirrétt, ég og Dave heimagerðan latte. Voðalega gott. Það var ýmislegt sem var frábrugðið við þessa pizzu og aðrar sem ég hef gert. Vanalega myndi ég setja volgt vatn, ger og olíu í skál og sulla svo hveiti þar út í þar til ég var ánægð með áferðina. Þessi aðferð skilaði mér vanalega tveim vænum pizzum þannig að ég gat gert tvær bragðtegundir ásamt því að borða þangað til ég gat ekki meir og samt átt afgang til að fá kalda sneið í morgunmat. Það var mjög mikilvægt að búa til sem stærstu deiglummuna til að fá sem mestu pizzuna út úr því. Í kvöld breytti ég til. Í fyrsta lagi þá fylgdi ég uppskrift. Það er mjög óvanalegt fyrir mig. En mig langaði bara til að fá "rétta" skammtastærð. Og ég verð að viðurkenna að pizzudeig samkvæmt ítalskri uppskrift sem á að fæða fjóra virkaði oggulítið. Svo lítið að gamall svitaskjálfti tók sig aftur upp örsnöggt. (Það er ekki möguleiki að þetta sé nóg, ég fæ ekki nóg að borða ómægod ómægod ómægod) en svo sló ég á þá hugsun og minnti sjálfa mig á að ég hreinlega þarf ekki allt þetta magn lengur, þetta snýst um gæði ekki magn. Og ef ég verð aftur svöng, nú þá fæ ég mér bara meira að borða. Bjó til eina pizzu fyrir okkur þrjú, setti í hana alla mína ást og hún var alveg hrikalega góð. Við fengum öll nóg að borða og öllum leið vel í maga og sál á eftir. Hitt sem var svo eiginlega enn meira frábrugðið því sem vanalega gerðist var það að ég bakaði pizzu yfir höfuð. Pizza er nefnilega einn af kveikjumatnum mínum. Eitthvað sem ég borða og það verður svo til þess að ég get ekki hætt að borða. Og ekki bara pizzuna, það að borða hana virtist alltaf bara vera byrjunin, það sem gaf mér grænt ljós á að troða hverju sem mér datt í hug í andlitið á mér. Þannig að ég forðaðist bara orðið að hafa pizzu á boðstólum. En í gærkveldi gaf ég sjálfri mér leyfi til að borða pizzu, njóta hennar í botn og minna sjálfa mig á að ég gæti fengið mér pizzu hvenær sem er þannig að það var engin ástæða til að haga mér á "síðasta pizzan ever" mátann. Og svo hitt að ég væri ekki viljalaus aumingi. Að ég get fengið mér pizzu og látið þar við sitja. Að pizza er pizza og hún er rosalega góð en þýðir ekki open season á nammirekkann í kaupfélaginu. Og það var það. Ég átti mitt næskvöld með minni míní fjölskyldu með pizzu í eðlilegri stærð og það var allt og sumt. Hversu frábært er það?


Í morgun var svo sunnudagur samkvæmt venju; ég úti að leika mér með sippuband, (þarf ég að útskýra það eitthvað frekar?) bakstur fyrir vikuna, tilraunir með sætabrauðsbakstur úr sætum kartöflum og gulrótum (geggjað ristað með hnetusmjöri og jarðaberjasultu) þrif, heimanám (ég og Lúkas) og almenn afslöppun. Læt uppskriftina fylgja. Þurrt saman. Í annarri skál blanda olíu og hunangi og svo eggjunum einu í einu. Svo vanilla, kartöflumauk og gulrætur þar út í. Svo þurrt smá saman við og blanda varlega. Í aflangt brauðform og baka í 45 til 50 mínútur. No problem.




1/4 bolli kókosolía
1/2 bolli hunang
2 egg
120 ml sojamjólk
1/2 bolli sæt kartöflumauk
1 bolli rifin gulrót
1 tsk vanilludropar
1 og 3/4 bolli heilhveiti
1/2 bolli grófir hafrar
1/4 bolli flax (ég veit ekki hvað þetta heitir á íslensku, þetta eru "flaxseeds" sem hafa verið mulin niður í hveitikennt ástand, sneisafullt af omega3)
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
3/4 msk kanill
1/2 tks múskat

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

flaxseed = hörfræ :)

Nafnlaus sagði...

gleymdi náttúrulega að kvitta fyrir hörfræin mín .. - Ásta

murta sagði...

Takk fyrir Ásta, ég er búin að vera hérna allt of lengi!