sunnudagur, 30. október 2011

Í dag lauk næst síðustu vikunni á 10 km hlaupanámskeiðinu sem ég er á. Síðasta vikan byrjar á þriðjudag og svo er það bara að setja fratgeltu í rassgatið og hlaupa 10 kílómetra. Ég endurtók hraðaprófið sem við tókum í viku tvö núna í morgun. Bætti tímann minn um 5 sekúndur. Ekkert stórfenglegt. En samt hraðar en þeir sem enn eru sitjandi á sófanum.

Við Lúkast stússuðumst svo við að búa til hrekkjavöku cupcakes. Skreyttum þær með smjörkremi og nammi. Þetta var að sjálfsögðu voðalega skemmtilegt og það sem var erfiðast var að leyfa honum bara að búa til sín eigin skrýmsli, og vera ekki að fetta fullkomnunarsinnafingur út í vinnuna hans. Sjálf var ég rosalega ánægð með mína hönnun, bjó til legstein úr Oreo kexi, skrifaði R.I.P á hann með bræddu súkkulaði og lét tvo sykurpúða drauga svífa um legsteininn. Og Jack Skellington tóks líka rosalega vel. Þetta var auðveldara verkefni en að skera út grasker eins og við gerðum í fyrra, þó það hafi verið rosalega flott þá var það alveg svakaleg vinna. Og án þess að röfla of mikið um það þá er ég kúguppgefin. Ég er búin að vera að vinna í 10 og 12 tíma á dag, 6 daga vikunnar í dálítinn tíma núna og það er allt komið í hönk hjá mér. Ég hef reynt að passa upp á lífstílinn og hlaupin en annað hefur alveg farið í vaskinn hjá mér. Það er drulluskítugt hérna heima, við búum orðið í sífellt smærri hring í miðjunni þar sem drullug hornin stækka sífellt, ég hef ekki tekið upp skólabækur svo vikum skipti og ég get veitt Lúkasi lágmarks athygli. Ég sé hann í klukkutíma á dag. Það er allt og sumt. Lukkan yfir okkur að hann er vel af guði gerður og þarf ekki mikið að láta ala sig upp.

Bloggið hefur líka þjáðst aðeins, allt sem ég er að spá og pæla kemst aldrei niður á blað almennilega. Ég er með svakalegar pælingar um "Healthy at Every Size" hreyfinguna og hvernig ég passa þar inni í. Sá pistill bíður betri tíma. Ég vigtaði mig reyndar í gær í fyrsta sinn í margar vikur og það er gaman að segja frá því að ef fer sem horfir þá er 85 kg mynd væntanleg innan skamms. Það væri nú skemmtilegt.

Engin ummæli: