sunnudagur, 27. nóvember 2011

Ég skil ekkert í því hvað ég er róleg akkúrat núna. Venjulega væri ég komin í angistarkast og að mestu leyti búin að gefast upp. Búin að segja sjálfri mér að hætta bara að rembast við heilsuna, þetta komi aldrei til með að virka. Nú er nefnilega komin heljar langur tími þar sem ég er að léttast á jarðflekahraða. Eða bara ekki að léttast neitt. Meðalhófið er bara að gera sig hjá mér í andlegu hliðinni. En hvað þá líkamlegu varðar er annað upp á teningnum. Upp og niður, upp og niður, sömu þrjú kílóin. Ég er búin að vera mjög ánægð með vinnuna sem hefur farið hér fram undir nokkuð luktum hurðum, ég er búin að vera að lagfæra svakalega margt í heilanum og hef ekki fundið neina þörf til að setja það allt saman niður á blað.

Allt of langur texti án þess að hafa mynd.
En því miður þá finn ég samt að það er ansi oft sem ég er á brúninni. Það er allt of oft sem ég þarf að segja við sjálfa mig "jæja, þá er það að byrja upp á nýtt" þegar mér þykir mikilvægara að geta sagt "jæja nú held ég bara áfram."  En þegar ég stend á brúninni hvað geri ég til að toga mig tilbaka? Ég er orðin það sjóuð núna að ég þarf einhvern vegin ekki að gera það núna. Ég þarf aldrei að tala sjálfa mig til í að fara út að hlaupa. Ég þarf aldrei að halda langar rökræður við sjálfa mig um hvort ég ætti að fá mér hollari kostinn. Ég geri það bara. En ég þarf stanslaust að passa magnið. Ég get enn borðað endalaust.

Og svo koma dagar eins og dagurinn í dag. Þar sem ég vakna með blús í sálinni. Og alveg sama hvað tækni ég nota (klappa viðbein, sýna sjálfri mér ást og hörku á sama tíma, skoða myndir, máta minnstu fötin mín, spjalla við stelpurnar í hlaupagrúppunni, setja "þú finnur það ekki hér það sem þú leitar að" merkið á ísskápinn) þá held ég samt áfram að troða í mig og það langt fram yfir seddu og velsæmismörk. Og ég sé fyrir mér að innan þriggja mánaða væri ég búin að sóa næstum þremur árum af vinnu.

Ég hef svona per se ekki áhyggjur af því að ég geti ekki stoppað. Það er ekki vandamálið. En ég sé líka ekki tilganginn í þessum dögum hjá mér. Þeir gera afskaplega lítið fyrir mig. Fullnægja ekki neinni sykur-eða átþörf því undantekningarlítið er ég ekki að borða það sem mig langar í. Ég er bara að ryksuga upp hvað sem á vegi mínum verður - þegar ég ætti bara að sleppa því og fara út í búð og kaupa Ben & Jerry og snickers og njóta þess. Nei, þessir dagar gera ekkert nema að auka á blúsinn, gera mig eilítið grama og fresta því að ég nái markmiðum mínum.

Það eru nefnilega enn markmið sem ég hef í sigtinu. Mig vantar enn að losna við 20 kíló. Mest megnis til að auðvelda hlaupin. Að hluta til vegna þess að mig vantar minna álag á hnén. Smávegis af hégóma. Mig langar bara svo til að sjá hvernig ég er alveg mjó. En hvað er ég er að gera í að ná þessum markmiðum? Og hvernig á ég að fá þau til að samræmast meðalhófinu?

Ég næ alltaf að stoppa sjálfa mig í niðurrifi - ég þekki orðið einkennin og ég kem núna alltaf fram við sjálfa mig af ástúð og væntumþykju. Það virkar miklu betur en hitt. Ég lifi líka í sannfæringunni um að það sé í lagi með mig. Að mér sé viðbjargandi og að ég sé þess virði að leggja þessa vinnu í mig. Og það er grundvöllurinn.

Hitt er svo framkvæmdin.

Ég ætla að byrja að vigta mig aftur. Ég er viss um að ég sé núna orðin nógu sterk til að geta höndlað tölurnar á vigtinni þannig að upp á við tala rústi ekki fyrir mér deginum eða vikunni. Að ég geti séð tölu upp á við og frekar skilgreint hvað ég gæti þá verið að gera betur.

Ég ætla að borða minna. Ég er að borða hollan og góðan mat; ég borða einfaldlega of mikið af honum.

Ég ætla að vera markvissari í annarri líkamsrækt en hlaupunum. Mig vantar að byggja upp miklu betra "core".

Ég ætla að byrja aftur að gera tilraunir og stunda rannsóknavinnu. Og þar ber hæst módelið sem ég er að byggja fyrir breyttan lífstíl. Ég verð að lifa eftir prédikunum mínum.

Hljómar vel? Mér líður alltaf best þegar ég er með plan.

5 ummæli:

Guðrún sagði...

Er hægt að breyta lífstíl eftir breyttan lífstíl? Nei, ég spyr bara eins og fávís kona. (Fávís mamma).

murta sagði...

Já er það ekki alveg tilvalið? Ef hlutirnir virka ekki þá breytir maður. Ég má ALLT! :)

Inga Lilý sagði...

Ég verð að fá að spyrja, hvað ertu eiginlega há? Mér finnast 20 kg í viðbót af þér vera svo stjarnfræðilega há tala, ekki að ég treysti þér ekki til að þekkja þig best! :)

En mikið rosalega er alltaf gott að lesa pistlana þína þar sem það er eins og þú hafir grafið þig inn í minn heila og skrifað það sem ég er að hugsa.

Ég er loks aftur aðeins á niðurleið eftir 7-8 mánuði í sömu þyngd. Vona að mér takist að halda því áfram.

Hljóp líka langt í gær og tók eftir að það er ekki þolið sem hamlar mér í hlaupum heldur skrokkurinn og þarf ég að gera góðar æfingar fyrir core, mjaðmir, hné og fótleggi ef ég ætla mér að klára blessaða maraþonið. Svo núna er bara að gera bæði og sjá svo árangurinn birtast smátt og smátt! :)

Haltu áfram að vera dugleg og ég hlakka til að sjá <85 kg myndina :)

murta sagði...

Ji, ætli ég slefi ekki í 1.68. Hugsa ég. 20 kíló eru kannski ytri mörkin. Ég væri örugglega ægilega ánægð með 15.

Og já, það er svo mikilvægt að miðjan sé sterk svo allt hitt gangi vel :)

Nafnlaus sagði...

hæ, hefurðu kynnst fitness behavior? þetta eru podcasts sem hann er með og er mjög gagnlegt að hlusta á þegar maður er úti í hlaupunum... :) mæli með honum, man samt ekki hvað hann heitir, bevan james eales eða eitthvað svona ástralsk fínt ;)