sunnudagur, 1. janúar 2012

Það er ekkert sem jafnast á við nýtt ár. Maður sér fyrir sér endalausa möguleika á breyttri og betri hegðan, allt gamalt er gleymt og grafið og framtíðin óskrifað blað. Ég fyllist alltaf sömu ákefðinni í að setja upp nýtt plan, gera betur en í fyrra, verða betri manneskja. Að setja upp nýtt plan á mánudegi eða um mánaðarmót jafnast að sjálfsögðu ekkert á við nýja planið sem tekur við á nýju ári. Og ég er orðin nógu vön núna til að segja að ég geti sett upp nýtt plan og svo staðið við það lengur en rétt út janúar. Eða nógu hrokafull.

Þegar ég leit tilbaka og athugaði hvar ég stóð fyrir ári kom í ljós að ég hef ekki notað 2011 til mikilla verka. Ég léttist um 2 kíló allt í allt. Á heilu ári. Frekar klénn árangur. En það er bara þegar maður skoðar "the random number generator" eins og Ragga Nagli vildi kalla vigtina. Ég byrjaði að hlaupa af alvöru og hljóp 10 km hlaup þrisvar sinnum, þar af einu sinni í skipulögðu hlaupi. Ég hélt uppi heilsusamlegum lífstil og sannaði fyrir sjálfri mér enn einu sinni að ég er í alvörunni breytt manneskja. Ég byrjaði árið í skinny jeans í númer 18 og endaði það í super skinny jeans í númer 14. Og það segir meira en vigtin getur sagt.

Framundan eru svo bara skemmtilegheit.

Ég ætla að halda áfram að rækta sjálfa mig og gera betur í að skilja hvað gerir mig í alvörunni hamingjusama og hvað það er sem veitir mér tímabundna hamingju sem er svo í raun bara glópagull. Ég hef sett mér aftur skýr markmið hvað kílóafjölda varðar. Mér finnst gaman að vinna að skýru verkefni og ég hlakka til að vinna í því að lifa innan ákveðins ramma.  Ég er búin að gera andlegu vinnuna sem ég þurfti og nú er aftur komið að líkamlega þættinum. Ég ætla að vera orðin 80 kíló fyrir 13. mars. Það er best að smella því bara hér inn til að fá aðhaldið sem því fylgir.

Því markmiði ætla ég að ná með því að byrja aftur að vigta og mæla og ég ætla að byrja aftur að njóta þess að stússast í eldhúsinu. Það var kominn ákveðinn leiði í mig þar en núna er ég aftur að fyllast gleði yfir því að prófa og hanna nýjar uppskriftir.

Ein af stelpunum á hlaupanámskeiðinu sagðist ætla að gera 12 á 12. Það er að segja hún ætlar að taka þátt í skipulögðu hlaupi eða skipuleggja sitt eigið fyrir hvern mánuð á árinu 2012. Þetta fannst mér frábær hugmynd og ég ætla að taka hana upp sjálf. Ég ætla að setja upp dagatal þar sem ég ætla að fylla inn þau skipulögðu hlaup sem ég finn hér í grenndinni eða á heimangengt í og taka þátt í þeim. Þá mánuði sem ég finn ekkert ætla ég að hlaupa mitt eigið hlaup. Hvort sem það er bara gamli góði hringurinn minn eða hvort ég geri eitthvað úr því skiptir ekki máli, ég ætla að mæla tíma og gera það eins og um kapphlaup væri að ræða. Þetta finnst mér gífurlega spennandi og fyrsta hlaupið var hlaupið í morgun 1. Janúar 2012. 5K um Rhos á persónulegu Garmin meti; 34:44.

Svona byrjaði ég 2012. Hvað með þig?




6 ummæli:

Hulda sagði...

djöfull líst mér vel á þig frænka... Þú lítur ekkert smá vel út og geislar af hamingju, Gleðilegt nýtt ár til ykkar allra :D

Nafnlaus sagði...

Þú veittir mér hvatningu til að gera það sama - þannig að út fór ég og hljóp hringinn minn :) Það var dásamlegt og akkúrat það sem ég þurfti!! Takk!

kv. Gunnhildur

Guðrún sagði...

Ég ætlaði líka út í dag, elsku Eggið mitt (nýjasta gæluyrðið mitt) en það er enn svo mikill snjór yfir öllu og hálka á götum þannig að ég prjónaði bara. Ég vona að ég geti hlaupið á morgun.

Harpa sagði...

þetta líst mér vel á. Það eru líka ekki margir sem byrja nýja árið svona sætir. Svakalega sem þetta er sæt mynd af þér elsku vinkona.

Gleðilegt ár til þín og strákana og sjáumst vonandi sem fyrst.

Kveðja
Harpa og co.

Nafnlaus sagði...

Góð færsla að vanda hjá þér kæra bloggvinkona :) Mikið til í þessum pælingum þínum. Gangi þér vel. Verð að taka undir með fyrri ræðumönnum .. þú lítur rosa vel út á myndinni undir færslunni :)
- Ásta
barattan.wordpress.com

murta sagði...

Takk, takk fyrir. mér fannst ég voðalega sæt líka :D Og mikið er gaman að vera þess valdandi að fólk fari út að hlaupa! ég er ekkert smá ánægð!